Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 16:39:47 (6688)


[16:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég biðst forláts að ég var á fundi í hliðarherbergi. Það er hver stund notuð til fundarhalda og samræðna á þessum dögum og stigaherbergið og myndaherbergið og önnur slík eru öll upptekin.
    Það er mín skoðun, hæstv. forseti, að hér sé til umfjöllunar einn af mikilvægari málaflokkum þar sem er skipan mála varðandi lyfjadreifingu og lyfsölu í landinu. Ég tek það fram í byrjun að ég er eindregið þeirrar skoðunar að það beri að líta á þetta sem hluta af heilbrigðisþjónustunni og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í landinu. Hér sé heilbrigðismál á ferðinni en ekki eitthvert almennt viðskipta- eða verslunarmál. Þeirra sjónarmiða gætir stundum að þetta eigi að lúta hinum rekstrarlegu lögmálum almennrar vöruverslunar og þarna eigi lögmál framboðs og eftirspurnar og samkeppni að ráða lögum og lofum. Og út frá því ganga ýmsir þegar þeir eru að ræða þessi mál en ég er ekki einn í þeim hópi. Þvert á móti held ég að það væri afar vanhugsað og ólíklegt til farsældar í okkar litla landi og reyndar alls staðar að láta þennan viðkvæma málaflokk lúta frumskógarlögmálunum eins og þau gerast á þeim markaði. Hér er á ferðinni viðkvæm starfsemi sem fléttast inn í heilbrigðismálin með margvíslegum hætti og allar þjóðir sem taka yfir höfuð sín heilbrigðis- og velferðarmál alvarlega viðurkenna þetta.
    Þess vegna er ég nokkuð hugsi yfir því hvert verið er að halda í þessu frv. að nokkru leyti. Þá á ég fyrst og fremst við að það er yfirlýstur tilgangur frv. að auka frelsi í verslun með lyf og varðandi verðlagningu á lyfjum. Ég set strax í byrjun, hv. forseti, spurningu við þá meginstefnu, ef svo má að orði komast. Ég hef miklar efasemdir um að hún sé í rétta átt.

    Nú hefur borið svolítið á því í þessari umræðu finnst mér miðað við það sem ég hef heyrt og ég hef reynt að gefa henni gaum og fylgjast með henni eftir því sem kostur er, m.a. í gegnum sjónvarp að hluta til í gærkvöldi, að menn stilli þeim upp sem leyfa sér að hafa efasemdir eða önnur sjónarmið en þau sem í frv. og brtt. meiri hlutans koma fram að þeir séu þar með verjendur núverandi kerfis og vilji þar engu breyta, séu ánægðir með það eins og það er í dag. Þetta er nú dálítið barnalegur málflutningur því auðvitað er það ekki svo að menn með því einu að hafa efasemdir um að breytingar gangi til réttar áttar verði að stuðningsmönnum þess sem fyrir er eða óbreytts ástands. Menn hafa að sjálfsögðu fullan rétt til að láta í ljós sín sjónarmið um að halda ætti í aðra átt. ( Heilbrrh.: En þegar það er sagt berum orðum?) Þá er það náttúrlega mál út af fyrir sig ef menn beinlínis ganga fram fyrir skjöldu sem vörslumenn óbreytts ástands. Þá verður hver og einn að bera ábyrgð á því. En ég vona alla vega að mér verði ekki gerðar upp þær skoðanir og ég ætla aðeins að koma inn á það hvernig ég hef fyrir löngu síðan séð fyrir mér að við ættum í okkar litla landi að byggja þetta upp saman sem hluta af einni heild, heilbrigðisþjónustuna, og efla hana sérstaklega á grunnþrepi, og lyfjadreifinguna og lyfsöluna.
    Þetta frv. er tvískipt í aðalatriðum ef svo má að orði komast. Þ.e. annars vegar eru í því ákvæði sem tengjast fullnustu kippu af fyrirskipunum og tilskipunum og hvað það nú heitir frá stórveldinu í Brussel sem hér þarf víst að taka inn í löggjöf eða taka tillit til. Það eru listaðar upp á bls. 12 í frv. ekki færri en 14 tilskipanir með alveg ótölulegum grúa af tölum þannig að það er ekki fyrir hvítan mann að botna í því nema hafa sér við hönd eitthvert orðasafn um það hvað þar er á ferðinni. En ég hef þó skilið það svo að allt þetta þurfi að meðhöndlast hér og taka gildi með einum eða öðrum hætti. Í samræmi við hin nýju lög og hinn nýja rétt beri okkur skylda til að beygja okkur undir þetta. Það er mér ekki mikið umhugsunarefni að ég fæ séð eftir að hafa reynt að átta mig á því hvað þarna er á ferðinni fyrir utan eitt atriði sem ég ætla að koma sérstaklega að og það eru ákvæði um auglýsingar.
    En í frv. er annars vegar á ferðinni aðlögun að EES eða EEB eða ESB, eins og á víst að segja í dag fyrir Evrópusambandið, hið upprennandi stórríki, og þau ákvæði koma hér fram á nokkrum stöðum í frv. Að hinu leytinu til eru hér á ferðinni ýmsar breytingar á tilhögun lyfjadreifingar og lyfjasölumála í landinu sem okkur á að heita enn í sjálfsvald sett að stýra í okkar eigin löggjöf. Það er ekki búið að framselja það til Brussel, ekki nema að hluta til. Ég tek það fram og það sama gerir reyndar minni hlutinn í sínu nál., að þetta tvennt hefði að mínu mati mjög gjarnan mátt meðhöndlast alveg sitt í hvoru lagi. Það eru engin rök fyrir því að flýta sér um of varðandi skipulagsbreytingar innan lands í lyfjadreifingarmálum að það þurfi að lagfæra einhver atriði til samræmis við tilskipanir frá Evrópu.
    Eitt er það sérstaklega sem maður hnýtur um og er afleiðing af þessum tilskipunum og það er allt það sem varðar auglýsingar í tengslum við lyfjamál. Það hefur verið um það held ég allgott samkomulag að hér skyldu ekki leyfðar almennar eða opinberar lyfjaauglýsingar, slíkt væri þá fyrst og fremst bundið við kynningu í fagtímaritum og á lokuðum vettvangi þeirra sem um þessi mál fjalla. En lyfjahringjunum væri ekki sleppt lausum á menn með sama hætti og gerist sums staðar erlendis. Auðvitað er það svo að við vitum að þetta hefur fundið sér ýmsa farvegi og það ganga náttúrlega sögur um fínheita boðsferðir sem lyfjaframleiðendur eða lyfjadreifingar- eða söluaðilar standi fyrir. En beinar auglýsingar sem ætlað er að höfða til almennings eða notenda og hafa áhrif á það beinlínis að menn kaupi lyf og þá væntanlega í meira mæli eins og er tilgangur allra auglýsinga hafa ekki verið leyfðar hér.
    Nú á þarna að brjóta í blað. Að vísu er almenna reglan í 13. gr. frv. sú að banna hvers konar auglýsingar fyrir lyf en svo er talað um undantekningar og þær taldar upp og þá sýnist manni því miður að þetta sé orðið ærið opið. Í fyrsta lagi má áfram auglýsa og kynna lyf sem skráð eru hér í tímaritum og blöðum, eins og verið hefur reyndar með vissum hætti, svo er heimilt að kynna lyfseðilsskyld lyf fyrir heilbrigðisstéttum á þann hátt þó að ekki sé líklegt að það komi almenningi fyrir sjónir. Þá er spurning t.d. með mann eins og mig sem bý við það að ýmiss konar læknablöð koma inn á mitt heimili hvernig eigi að fara með slík vandamál. Ég mundi væntanlega flokkast sem almenningur í þessu tilviki.
    Í 16. gr. er svo hins vegar fjallað um að það er heimilt að kynna og auglýsa öll lausasölulyf, þ.e. þau lyf sem ekki eru bundin við útgáfu lyfseðils frá lækni, fyrir almenningi. Síðan er að vísu sagt að auglýsingar um þessi lyf skuli vera í samræmi við reglur Evrópubandalagsins samkvæmt sjálfsagt ótal tilskipunum og reglugerðum sem þar eru gefnar út.
    Hér er algerlega brotið í blað. Þetta þýðir að öll lausasölulyf má auglýsa. Það þýðir jafnframt að sjálfsagt velflest ef ekki öll helstu vörumerki í lyfjum má auglýsa. Og kemur þá upp svona sambærilegt mynstur og átt hefur sér stað í sambandi við óbeinar bjórauglýsingar hér á landi þegar menn hafa notað vörumerkin, hver sem þau nú eru, Víking og Egill og Tuborg og Heineken og allt og auglýst þetta út um allt undir því yfirskyni að það væri bara átt við pilsner. ( Gripið fram í: Nú er þingmaðurinn að auglýsa.) Óáfengan eða léttan mjöð undir áfengismörkunum sem þetta á við. Þarna opnast alveg augljóslega sami farvegur fyrir auglýsingar í lyfjamálum. Og mjög margir lyfjaframleiðendur eru með heilar seríur af lyfjum undir ákveðnum vörumerkjum og geta þá auglýst eins og fara gerist þau vörumerki, þ.e. þann hluta þeirra sem eru lausasölulyf.
    Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er mér afar ógeðfellt og ég skora á hæstv. heilbrrh. og hv. nefnd að setja í leiðinni eins takmarkandi og þröngar reglur um þetta og nokkur kostur er. Og við höfum heimild til samkvæmt þessum fínu tilskipunum og dótaríi frá Evrópu og ganga þá frekar lengra en

skemmra í því og þeir mega þá reyna að veita okkur tiltal ef mönnum sýnist svo. Mér er tjáð að það sé sums staðar þannig að menn t.d. bindi slíkar auglýsingar eingöngu við blöð og banni þær í ljósvakamiðlum. Það er auðvitað verulega takmarkandi aðgerð því að allir viðurkenna áhrifamátt ljósvakamiðlanna og hversu sterkir þeir eru. Einhverjar frekari takmarkanir gætu sjálfsagt komið til greina sem væri rétt að hafa í huga því auðvitað getur það ekki verið í neins þágu þegar upp er staðið að fara að eyða stórkostlegum fjármunum til viðbótar við það sem það kostar að þessi lyf eru notuð í það eitt að reka áróður fyrir þeim. Hver græðir á því? Þegar upp er staðið enginn heldur er það bara viðbótarkostnaður fyrir þjóðarbúið í heild. Og auðvitað er hættan yfirvofandi að sá kostnaður velti fyrst og fremst yfir á herðar notendanna. Þetta vildi ég segja sérstaklega um þann hluta málsins sem snýr að þessum EES hlutum og EES áhrifum.
    En þá að hinum meginþættinum. Þar hefur náttúrlega aðallega vakið athygli mína og orðið mér umhugsunarefni á þeim takmarkaða tíma sem ég hef haft til að kynna mér þetta mál eftir að það kom frá nefnd og nál. lágu fyrir og umræðan hófst, það eru möguleg og líkleg áhrif þessara skipulagsbreytinga að lyfjadreifingarmálunum m.a. á lyfsölumál og lyfjaverð á landsbyggðinni. Út af fyrir sig einnig á Reykjavíkursvæðinu því að að sjálfsögðu erum við landsmenn meira og minna öll í sama potti í þessu efni. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé endilega útséð um að það verði eingöngu landsbyggðin sem verði fórnarlamb þessara breytinga og fái hærra lyfjaverð og skerta þjónustu. Ég held að það geti orðið hreinasta vitleysa í þessum málum líka á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstu afleiðingarnar yrðu líklega bullandi fjárfesting og eyðsla sem er óþörf vegna þess að ég hef ekki orðið var við annað en menn á þessu svæði geti fengið öll þau lyf sem þeir þurfa á að halda sæmilega vandræðalaust. Það er slunkur af apótekum dreifðum út um allan bæ og nágrannasveitarfélög og sæmilega vel skipulagðar á þeim vaktir. Ég hef því ekki orðið var við að það stæði mönnum fyrir þrifum og sé ekki beina þörf fyrir að fjölga þeim. En mér er sagt af þeim sem vel þekkja til að það sé alveg borðleggjandi að það muni upphefjast hér mikið kapphlaup og menn munu ryðjast um fast, menn séu jafnvel búnir að panta nú þegar húsnæði í mörgum helstu verslunarmiðstöðvum landsins til þess að liggja vel við viðskiptavinum og veiða þá í net sín þar sem líklegt er að leið þeirra liggi um og vinsælast sé að vera við hliðina á áfengisútsölunum ef hægt er að fá einhvers staðar laust pláss þar sem þannig hagar til því þangað leggja margir leið sína eins og kunnugt er.
    En aftur að afleiðingum þessa fyrir landsbyggðina. Ég tel það mjög alvarlegt mál að menn skuli að jafnlítt athuguðu máli og mér virðist hér vera ætla að gera þessar breytingar og hafa hvergi vað fyrir neðan sig gagnvart því að lyfjaverð fari úr böndunum, að þjónusta versni og það skapist í þessum málum hálfgert ófremdarástand. Ég tel það alveg furðulegt, satt best að segja, að ekki skuli vera sett inn í frv. a.m.k. eitthvert varnaglaákvæði sem er á þá leið að heilbrrh. geti gripið í taumana og skipað lyfsölumálum í einstökum byggðarlögum eða landshlutum með tilteknum hætti ef þetta fyrirkomulag, verði það lögfest, leiði til ófremdarástands. Þá fyndist mér það lágmark að í lögunum væri skilið eftir úrræði til handa ráðherra til að grípa í taumana og skipa lyfsölumálum með einhverjum tilteknum hætti.
    Það er dálítið furðulegt, hæstv. forseti, að það skuli vera flokkur sem nýlega hefur talið sig knúinn til þess að taka upp viðhengi við nafn sitt, Jafnaðarmannaflokkur Íslands, sem ber fram þetta frv. Og það skuli vera þingmaður á hans vegum sem veitir forustu þeirri þingnefnd sem stendur fyrir breytingunum og er talsmaður meiri hlutans í þessum efnum. Ég skil það að vísu mjög vel að Alþfl. skuli til öryggis hafa tekið það fram núna á síðustu árum að hann sé jafnaðarmannaflokkur, væntanlega með þeim rökum að hann telur sig ekki hafa þurft þess áður. En þegar þannig var komið að Alþfl. var búinn að sitja í hverri ríkisstjórninni á fætur annarri og ástunda þar hina örgustu hægrimennsku, kominn hægra megin við Sjálfstfl. í mörgum málum, þá var svo komið að menn töldu það vissara að taka það fram til að það gleymdist ekki að þetta væri jafnaðarmannaflokkur og því var skeytt aftan við nafnið Alþýðuflokkurinn Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Nýjasta þróunin í þessu er svo þau tíðindi að í Jafnaðarmannaflokki Íslands þurfa menn að stofna sérstakt Jafnaðarmannafélag Íslands til verndar jafnaðarstefnunni í jafnaðarmannaflokknum.
    En það er sem sagt Jafnaðarmannaflokkur Íslands með Jafnaðarfélagið innan borðs sem stendur fyrir þessu frv. --- og út á hvað gengur það? Það gengur bersýnilega út á það að opna fyrir það að lyfjaverðið í landinu verði mismunandi eftir landshlutum og byggðarlögum og þess vegna miklu hærra t.d. í afskekktum byggðarlögum og fámennum. Er það jafnaðarstefna, hæstv. heilbrrh.? Er það jafnaðarstefna? Og er það einhver jafnaðarstefna að ganga þannig frá málinu að það sé alls ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að grípa í taumana ef þau mál fara úr böndunum? Þetta er alveg ótrúleg niðurstaða.
    Ég er þeirrar skoðunar að lyfjaverð eigi að vera hið sama um allt land. Að sjálfsögðu. Það eru mannréttindi að mínu mati, grundvallarmannréttindi að allir standi jafnt að vígi gagnvart undirstöðuþáttum þjónustu og velferðar af þessu tagi. ( Heilbrrh.: Jafnhátt alls staðar?) Sama lyfjaverð. Já. ( Heilbrrh.: Jafnhátt alls staðar?) Auðvitað, jafnlágt. Við getum farið í orðaleiki af þessu tagi, hæstv. ráðherra. Auðvitað er það jafnhátt alls staðar vegna þess að lyfjaverð er hátt, það er allt of hátt. Og það er eðlilegt að menn taki þannig til orða. Það stendur auðvitað í fólki hvað lyfjaverðið er hátt.
    En það er alveg ljóst mál að sú hætta er yfirvofandi að lyfjaverðið fari upp, verði óviðunandi hátt í ákveðnum landshlutum og byggðarlögum. Ég er í grundvallaratriðum andvígur því. Það á þá að jafna þann mun sem er á aðstöðu til þess að dreifa lyfjum og koma þeim til fólks og það á að taka það úr sameiginlegum sjóði að tryggja mönnum jafnrétti í þessum efnum. Nóg er nú búið að gera samt í þá veru að velta

útgjöldum í heilbrigðismálum yfir á notendur sem auðvitað leiðir til mismununar vegna þess að aðstaða fólks er misjöfn þó ekki bætist þetta við. Ég held að hæstv. heilbrrh. og hv. formaður heilbrn. ættu að hugsa um það augnablik hver aðstöðumunurinn er nú þegar fyrir fólk í afskekktum byggðarlögum að njóta sambærilegrar læknisþjónustu og heilbrigðisþjónustu og þeir sem betur liggja við þeim hlutum í nágrenni t.d. við stærstu og sérhæfðustu heilbrigðisstofnanir landsins. Ætli það sé ekki þannig að fjölskyldurnar á landsbyggðinni og í afskekktu byggðarlögunum beri nú þegar fyrir ærinn bagga af því að liggja langt frá þessari þjónustu þó ekki bætist það nú við að lyfjaverðið snarhækki svo í þeim byggðarlögum þar á ofan. (Forseti hringir.) Ekki er ræðutíminn búinn, hæstv. forseti?
    ( Forseti (VS) : Nei, en þannig háttar til að það er komið fram að tíma þingflokksfunda þannig að forseti ætlar að grennslast fyrir um það hjá hv. þm. hvort hann væri u.þ.b. að ljúka ræðu sinni eða hvort hann vildi gera hlé á máli sínu.)
    Ég hefði sennilega kosið að geta haldið áfram í eins og 12--15 mínútur, forseti, ef því verði við komið en út af fyrir sig er ég alveg tilbúinn til að gera hlé á ræðu minni og sérstaklega ef henni verður svo fram haldið þegar hv. formaður heilbrrn. er kominn úr kjördæmi sínu, Austurlandi, því auðvitað hefur maður sérstakan áhuga á því að ræða þessi mál við þann ágæta mann og hv. þm. af landsbyggðinni. Ég mundi því kjósa bara að fá að gera hlé á ræðu minni, hæstv. forseti.