Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 11:23:57 (6696)


[11:23]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl. fór í ræðu sinni nokkuð inn á þau frv. sem munu verða síðar til umræðu, þ.e. frv. til laga um breytingu á stjórn fiskveiða. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að fjalla um þau frv. í tengslum við það sem hér er til umræðu.
    Ástæðan fyrir því að ég veiti hér andsvar við ræðu hv. þm. eru þær fullyrðingar sem komu fram í hans ræðu um væntanlegt milljarða tap vegna breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Ég vildi, vegna þess að hv. þm. leggst náttúrlega eilíflega í vörn þegar fjallað er um breytingar á því stjórnkerfi sem hann stóð fyrir að lögfest yrði, sem út af fyrir sig er ekki óeðlilegt og er mannlegt. Ég vil heyra frá hv. þm. í hverju og hvernig þetta milljarða tap verður. Hann virðist gerast hér inni á Alþingi talsmaður hóps sem hefur sent hv. þm. greinargerð, svokölluðum atvinnumönnum í sjávarútvegi, þar sem fullyrt er með svipuðum hætti að milljarða tap verði ef samþykktar verða þær breytingar sem meiri hluti sjútvn. leggur til. Þá virðist vera gert ráð fyrir því að allir útvegsmenn og stjórnendur fiskvinnslunnar í landinu taki þær vitlausustu ákvarðanir sem hægt er að finna. Ég geri þá kröfu til hv. 1. þm. Austurl. að hann geri þinginu grein fyrir því í hverju þetta milljarða tap liggur, hvernig það verði og hvernig það megi verða að stjórnendur atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi taki slíkar ákvarðanir.