Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 11:28:14 (6698)


[11:28]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vafðist að sjálfsögðu fyrir hv. 1. þm. Austurl. að gera grein fyrir í hverju þetta tap liggur. Ég er ekki að gera lítið úr þeim ágætu mönnum sem hafa sent okkur orðsendingu. En ég tel engu að síður alveg augljóst, alveg augljóst, að þeir gera ráð fyrir því, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að nánast allar verstu ákvarðanir séu teknar við stjórn þessara umræddu fyrirtækja. Ég get ekki gert

ráð fyrir því að útgerðarmenn reyni ekki innan þeirra heimilda sem lög gera ráð fyrir að stýra sínum fyrirtækjum miðað við hagsmuni þeirra að sjálfsögðu og miðað við hagsmuni þeirra byggða og þess fólks sem byggir afkomu sína á fiskvinnslu, útgerð og sjómennsku.
    Ég held að það sé alveg ljóst að það kerfi sem er í gildi núna getur ekki gengið. Þingmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það verði að breyta því en nú rísa menn upp gegn því við þá umræðu sem hér er og mæla gegn þessum breytingum sem sjómenn og útvegsmenn hafa fallist á. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er mjög undrandi á því að 1. þm. Austurl. skuli vera hér fremstur í flokki við að gagnrýna það sem hefur orðið að samkomulagi milli m.a. sjómanna og útvegsmanna.