Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 11:54:04 (6702)


[11:54]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hv. 5. þm. Norðurl. v. væri í andsvari við mig. Hann hélt hér merka ræðu og ég hlustaði á hana og ég greindi það ekki mjög að hann væri í andsvari við mig. En hann sagði þó eitt sem ég sé ástæðu til að vekja athygli á og það var að hann talaði um að það væri verulegur munur á afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna til hins frjálsa framsals og framsóknarmanna. Það eru varla nýjar fréttir fyrir hv. þm. að vita það en ég geri ráð fyrir að hann hafi verið að taka eftir því að ég las upp úr samþykktum flokksins. Og við alþýðubandalagsmenn höfum verið að leggja það á okkur undanfarin missiri að samræma afstöðu okkar til grundvallaratriða í stjórnun fiskveiða. Það er þess vegna sem ég taldi ástæðu til þess að vekja athygli á samþykktum Alþb. Það er ekki til umræðu hér og ég vildi ekki eyða mínum tíma í það að fara yfir þær þrengingar á framsali sem er í frv. sem eru að birtast hér í dag á lögunum um stjórn fiskveiða. En það getur náttúrlega verið að menn hafi mismunandi afstöðu til þess þrátt fyrir að við höfum lýst því yfir að við teljum að þrengingar á framsali séu eðlilegar til þess að koma í veg fyrir að sjómenn verði látnir taka þátt í kvótakaupum.