Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 11:55:56 (6703)


[11:55]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Nú er loksins komið að því að á borð okkar þingmenna komi einhverjar afurðir frá bráðum þriggja ára starfi stjórnarflokkanna um mótun fiskveiðistefnunnar. Því miður verður það að segjast alveg eins og er að það er lítið kjöt á beinunum. ( SJS: Á ekki að vera fiskur á beinunum?) Það sem við höfum hér fyrir framan okkur er þegar ég tala um málið í heild samsuða sem byggist fyrst og fremst á því að stjórnarflokkarnir geti sýnt fram á að þeir hafi náð að lenda málinu. Og málefnastaðan virðist engu skipta. Það virðist öllu vera fórnandi fyrir samkomulagið. Það er kannski skiljanlegt því að hefði ríkisstjórnin ekki komið sér saman í þessu máli þá er vandséð hvað hún hafði að gera við að sitja lengur. En ég verð að segja það sem mína skoðun að þessi málamiðlun stjórnarflokkanna í fiskveiðimálunum er dýru verði keypt. Og ég hlýt að varpa þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. og hv. 5. þm. Norðurl. v. hvort þeir sjái virkilega ekki ástæðu til að taka tillit til varnaðarorða þeirra aðila sem hafa haft sig í frammi varðandi þetta mál á síðustu dögum. Finnst þeim engin ástæða til að taka tillit til varnaðarorða, svo ég nefni einhverja, forsvarsmanna Útgerðarfélags Akureyringa hf.? Forsvarsmanna fiskvinnslu og útgerðar á Sauðárkróki? Einróma ályktun bæjarstjórnar Sauðárkróks? Forsvarsmanna fiskvinnslu á Dalvík?
    Ég nefni þessa aðila til þess að benda á einhverja sem hafa á síðustu árum verið að þróa landvinnslu, verið að þróa fullvinnslu, verið að byggja upp atvinnu í landi og mæla allir einróma á móti þeim breytingum sem nú er verið að gera í heild. Við hljótum að gera þá kröfu til forsvarsmanna stjórnarliðsins að þeir svari þessum spurningum, þeir svari því hvort þeim finnist engu máli skipta álit þessara aðila, sem margir hverjir hafa á umliðnum árum sannanlega verið burðarásar í uppbyggingu sjávarútvegsins. Og hafa verið að reyna að vinna eftir þeim reglum sem eru í gangi og menn hafa trúað að mundu gilda eitthvað lengur.
    Varðandi þau mál sem hér eru til umfjöllunar sérstaklega, þ.e. samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og breytingar á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, þá hygg ég að um þær breytingar sé okkuð góð sátt enda hefðu menn átt að láta þar staðar numið í þessari umferð og láta á það reyna hvort þessar breytingar einar og sér hefðu ekki nægt. En samkomulagið blífur og í krafti málamiðlunar stjórnarflokkanna er nú stigið skref til baka frá þeirri þróun sem hefur verið síðustu ár. Sannarlega hafa breytingar á stjórn fiskveiða gerst þannig á síðustu árum að þær hafa alltaf byggst á málamiðlunum. Það viðurkenni ég. En þær málamiðlanir hafa gengið í ákveðna átt. Þær hafa gengið í þá átt að festa aflamarkskerfið í sessi. En nú er tekin sú ákvörðun að stíga skrefið til baka sem gerir það að verkum að útgerðaraðilar og fiskvinnslan verður aftur í óvissu. Menn verða engu nær um hvert framhaldið verður en hin eðlilega ályktun sem þessir aðilar draga af þessari breytingu er sú að nú hafi sú stefna verið tekin að hverfa í áföngum frá aflamarkskerfinu. Það er hin eðlilega ályktun sem menn hljóta að draga.
    Virðulegi forseti. Þau frv. sem hér eru til umræðu hljóta eðli máls samkvæmt að leiða hugann að því sem er í frv. um stjórn fiskveiða sem ríkisstjórnin lagði fram í vetur og að brtt. við það sem hafa verið kynntar á síðustu vikum. En þær ganga, eins og hér hefur komið fram, í þá átt að skerða framsalsheimildirnar. Ég hygg að nánast allir þeir sem hafa komið að útgerð og fiskvinnslu á síðustu árum séu sammála um það að ef kvótakerfi er í gildi, aflamarkskerfi er í gildi, þá verða framsalsheimildirnar að vera sem frjálsastar. Það leiðir hugann að því að í raun eru ekki nema fjögur ár síðan aflamarkskerfi var komið á, síðan það náðist pólitísk samstaða um það. Þó svo illu heilli hafi smábátarnir verið undanskildir þá. Að mínu mati er þetta allt of skammur tími til að hverfa að einhverju leyti frá hinu frjálsa framsali á aflaheimildunum. Maður veltir því fyrir sér hvers þeir eiga að gjalda sem á síðustu árum hafa verið að byggja upp sína atvinnustarfsemi undir þessu kerfi. Hefur hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, kynnt sér sjónarmið umbjóðenda sinna? Hefur hann kynnt sér sjónarmið fiskverkafólks á Sauðárkróki, svo ég nefni

einhverja aðila?
    Það er mín skoðun að einstakir forustumenn sjómanna hafi í þessu máli farið offari í því sem þeir telja að sé að vernda hagsmuni sinna manna. Málið er svo einfalt að ef það er rétt, sem nánast er ekki dregið í efa, að þær breytingar sem nú er verið að gera ganga í þá átt að skerða framleiðnina í sjávarútvegi. Þær ganga í þá átt að skerða það sem er til skipta milli þeirra sem hafa laun sín af þessari atvinnu. Til lengri tíma litið getur það ekki komið öðruvísi út en á þann hátt að tekjur sjómanna lækka.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að lokum að víkja örfáum orðum að öðrum þætti sem tengist þessu máli og sem kom fram í samkomulagi stjórnarflokkanna í vetur þegar lagt var fram frv. að lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. ákvæði um aflaréttindi smábáta. Það ákvæði að frá og með næsta fiskveiðiári verði bátum undir sex tonnum, sem verða þá á sóknarmarki, ætluð 22 þús. tonn af þorski og það verði dregið frá áður en kemur að annarri úthlutun.
    Hafa menn gert sér grein fyrir því að þetta þýðir 8--10% samdrátt í þorskaflaheimildum þeirra sem eru á aflamarki? Hafa sjómannasamtökin gert sér grein fyrir því að þetta kemur beint niður á því sem er til skiptanna á milli sjómanna og útgerðarmanna á þeim skipum og bátum sem eru á aflamarki? Ég hef áður í þessum ræðustól lýst eftir talsmönnum til að mynda togarasjómanna hvað þetta varðar. Þetta er að renna upp fyrir hagsmunaaðilum, til að mynda á Norðurlandi eystra, sem eru að átta sig á því að þetta þýðir að það er verið að færa þessar heimildir frá þeim. Það er verið að færa þetta yfir á sóknarmark á krókaleyfisbátum og þeir aðilar sem koma til með að sækja þann afla eru ekki nema að mjög litlu leyti á Norðurlandi. Þeir eru á svæðinu fyrst og fremst frá Vestfjörðum að Reykjanesi og að einhverju leyti sunnan til á Austfjörðum.
    Ég býst við að það muni heyrast hljóð úr horni frá þessum aðilum í haust þegar aflamarki verður úthlutað. Ég vil leyfa mér að fullyrða einnig að það að ekki hafi á fyrri stigum náðst pólitísk samstaða til þess að taka á þessu máli með öðrum þáttum í aflamarkskerfinu sé í dag að verða öllum til skaða og ekki síst þeim sem áður en þetta kerfi var sett á höfðu atvinnu sína af rekstri og útgerð á trillum. Þetta hafi að mörgu leyti verið misskilin hagsmunagæsla. Og ég bendi einnig á það og ég get tekið undir að það geti verið skynsamlegt að taka hluta af þorskaflanum á handfæri. En ég er jafnsannfærður um að það er ekkert vit í því að ganga þannig frá kerfinu til frambúðar að þennan afla eigi fyrst og fremst að taka á báta sem eru sex tonn og minni á meðan tíu tonna bátarnir og þaðan af stærri, sem eru væntanlega miklu hagkvæmari og hagstæðari til þessara veiða, standa ónotaðir uppi á fjörukambinum.
    Það er ekkert vit í þessu. Það verður að taka á þessu máli á þann hátt að þeir sem stunda trilluútgerð og hafa gert að aðalatvinnu hafi til þess tækifæri áfram. En ekki á þann hátt sem verið er að gera nú. Það eru engin önnur rök fyrir því að afli á svona litla báta hefur aukist eins mikið og raun ber vitni en þau að þarna var gat í kerfinu. Það eru engin hagkvæmnisrök. Auk þess sem þetta hefur leitt til miklu harðari sóknar en eðlilegt er með svo litla báta.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að hafa sem lokaorð mín í þessari umræðu tilvitnun í orð hv. 5. þm. Norðurl. e. sem hann viðhafði á fundi um atvinnumál norður á Akureyri fyrir nokkrum vikum. Á þeim fundi sagði hv. þm. að hann hefði bara eitt atriði fram að færa en sem hann taldi hins vegar svo mikilvægt fyrir atvinnulíf á því svæði að hann mundi taka þann tíma sem hann hefði í það eitt. Það var að við breytingar á fiskveiðistjórninni sem væri fram undan þá yrði ekkert gert til þess að hrófla við þeim frjálsu heimildum til framsals á aflamarki sem fyrirtæki á því svæði, sem við þingmenn þekkjum báðir vel, hefðu byggt sína afkomu og sínar framtíðaráætlanir á. Ég hlýt því að spyrja hv. þm. hvort hann ætlar að standa að þeim breytingum sem nú eru boðaðar á framsalsheimildum og aðilar, sem hv. þm. hefur væntanlega verið að tala til á þessum fundi, hafa mótmælt mjög harkalega og sýnt okkur fram á hvað gæti þýtt.