Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 12:16:11 (6708)


[12:16]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta þótti mér magurt svar því alþingismönnum, sem ber skylda til þess að móta stefnu um sjávarútvegsmál þannig að hún verði öllum aðilum til hagsbóta, geta ekki skotið sér á bak við það að sjómenn á einhverjum tilteknum stöðum hafi farið í verkfall fyrir nokkrum mánuðum. Það hlýtur að vera skylda alþingismanna að ganga þannig frá þeim verkreglum sem gilda um stjórn fiskveiða að það skapi okkur sem mestan arð og að við höfum þar af leiðandi sem mest til skiptanna til launagreiðslna bæði fyrir landverkafólk og sjómenn. Ég minni hv. þm. á að verkafólk á Sauðárkróki, forusta verkalýðsfélagsins þar, er á öðru máli.