Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 12:18:50 (6711)


[12:18]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. fór mjög út um víðan völl í sinni ræðu og fjallaði um hluti sem eru óskyldir því frv. sem verið er að taka til umræðu. M.a. ræddi hv. 6. þm. Norðurl. e. mjög um það stjórnleysi sem ríkti í fjölgun krókabáta í tíð hæstv. fráfarandi sjútvrh. Það kemur því máli sem hér er verið að ræða samt sem áður ekki við. Aðalatriðið er það að hér var uppi krafa frá sjómannahreyfingunni um skerðingu á framsali í því skyni að mæta óskum þeirra. Nú spyr ég hv. þm.: Er það hans skoðun, úr því að hann segir að hvers konar skerðing á framsali sé skerðing á framleiðni í sjávarútvegi, að það hefði ekki í neinu átt að mæta þeim sjónarmiðum sem sjómenn voru með uppi? Er það hans skoðun að það hefði einfaldlega átt að segja sem svo: Þið hafi á röngu að standa, við munum í engu skerða framsalið vegna þess að við teljum það rangt og við munum ekki í neinu mæta ykkar óskum? Eru það skilaboð hv. 6. þm. Norðurl. e. til sjómannahreyfingarinnar í landinu á þessum degi?