Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 12:28:41 (6719)


[12:28]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. vitnaði réttilega að mér fannst í ummæli mín á fundi á Akureyri um atvinnumálin. Þar lýsti ég þungum áhyggjum af því að framsalsheimildir væru takmarkaðar og hafði fulla ástæðu til þess að hafa áhyggjur af því. Starfandi aðilar í sjávarútvegi, ekki síst á því svæði sem ég þekki best til, eru mér sammála um að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af því.
    Ég hygg að frelsi til framsals á aflaheimildum hafi staðið undir verulegri hagræðingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Hins vegar er það svo að þeir aðilar sem reka sjávarútvegsfyrirtækin og eru sammála mér um það að frjálst framsal á aflaheimildum sé mjög mikilvæg undirstaða þess að ná fram góðum árangri í fiskvinnslu og sjávarútvegi höfðu gefist upp við það, hv. þm., að leysa þá deilu sem um var að ræða. Þeir gátu ekki leyst hana. Það urðu aðrir að gera fyrir þá. Ríkisstjórnin varð að gera það með bráðabirgðalögum. Það er því verið að grípa til neyðarúrræðis og öllum er ljóst að það verður einhver að greiða fyrir það neyðarúrræði.