Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 12:31:15 (6721)


[12:31]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur legið ljóst fyrir síðan bráðabirgðalögin voru sett að þetta mál verður ekki leyst gagnvart sjómönnum öðruvísi en að gera einhverjar þrengingar á framsalsheimildunum. Það verður ekki gert öðruvísi en að færa þessar fórnir. Spursmálið er fyrst og fremst hvernig við metum afleiðingarnar af þessum hlutum, hversu alvarlegar þær eru. Ég held að það fari bara ekkert milli mála og hvorki hv. þm., sem ég er að ræða við, né ég sjálfur gerum ágreining um að þetta verður ekki gert öðruvísi en með einhverjum tilkostnaði. Það verður að segjast eins og er að því miður hefur það gerst í þjóðfélaginu á þessum vetri að tiltrú manna á kvótakerfinu hefur stórlega bilað. Því miður. Og ástæðan fyrir því er kannski ekki hvað síst þau göt sem hv. þm. nefndi sérstaklega að hefðu verið á kvótakerfinu sem leiddu

til þess að smábátaflotinn óx gífurlega. Það er einnig vandamál sem verður að taka á og þeir standa náttúrlega ábyrgir fyrir því sem stjórnuðu þessum málum þegar flotinn óx.