Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 12:36:35 (6725)


[12:36]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég var einungis í upphafi að ræða yfirbragð þessarar umræðu og skoðanir mínar á því sem ég tel að sé hluti af því hvernig forseti stýrir. Að öðru leyti var það mál útrætt. Það var aðeins spurning um jafnvægi milli viðhorfa og mér finnst það skipta máli varðandi framhaldið. Þess vegna tengdi ég þetta tvennt. Ég vil alla vega taka það fram að miðað við það svigrúm sem var ætlast til að okkur yrði gefið sem þurfum að ganga frá ræðum þá er það engan veginn fullnægjandi ef við eigum að byrja kl. þrjú eða fjögur í krefjandi umræðu þar sem það er þegar búið að ráðstafa þessu hléi í ýmsa fundi. Ég tek það skýrt fram að mér finnst þau sjónarmið verða að komast á framfæri þegar þetta mál verður tekið upp núna annaðhvort innan forsætisnefndar eða milli þingflokksformanna að það verður að veita þokkalegan tíma. Við sem erum bundin í þeirri umræðu, sem hefði að réttu átt að vera komin vel í gang í morgun ef það hefði verið byrjað á réttum tíma og það er ekki sök forseta að það var ekki gert, getum ekki á sama tíma verið að undirbúa okkur undir hina miklu umræðu um stjórn fiskveiða.