Brunatryggingar

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 15:04:09 (6729)


[15:04]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá hv. heilbr.- og trn. um frv. til laga um brunatryggingar.
    Í nefndinni varð eining um þetta mál eins og það liggur núna fyrir með hjálögðum brtt. að undanteknum eftirtöldum hv. þm. er rita undir nál með fyrirvara, þeim Finni Ingólfssyni, Margréti Frímannsdóttur, Ingibjörgu Pálmadóttur og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Lagt er til að 2. gr. verði breytt þannig að unnt sé að fela annaðhvort dómkvöddum matsmönnum eða Fasteignamati ríkisins virðingu skylduvátryggðra húseigna. Nefndin telur rétt að fleiri en Fasteignamat ríkisins geti annast matið og leggur til að tryggingafélögum verði frjálst að semja við aðra, dómkvadda matsmenn, um að annast þetta mat. Nefndin leggur þó til að kveðið verði á um að virðingin sé gerð á grundvelli matseiningakerfis Fasteignamats ríkisins og að dómkvöddum matsmönnum verði skylt að tilkynna Fasteignamatinu um virðingu. Þannig er tryggt eftirlit með því að allar húseignir í landinu séu á hverjum tíma brunatryggðar.
    Enn fremur telur nefndin mikilvægt að eftirfarandi komi fram: Í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða segir að tekjur sem Reykjavíkurborg kunni að hafa af rekstri Húsatrygginga Reykjavíkur skuli leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og tryggingarstarfsemi. Nefndin vill leggja áherslu á að skýrt kom fram við umfjöllun um málið að ekki er með því átt við að Húsatryggingar Reykjavíkur geti að óbreyttu haslað sér völl á öðrum tryggingarsviðum en brunatryggingum húseigna. Til að slíkar breytingar kæmu til framkvæmda þyrfti að breyta samþykktum um starfsemi Húsatrygginga Reykjavíkur og endurskoða núgildandi rekstrarleyfi Húsatrygginga. Þá vill nefndin einnig taka fram að þrátt fyrir að frv. geri ráð fyrir að kveðið sé á um framtíð Húsatrygginga Reykjavíkur í ákvæði til bráðabirgða er ákvæðinu ekki markaður tiltekinn gildistími. Ákvæðið mun standa óhaggað svo lengi sem menn kjósa að starfrækja Húsatryggingar Reykjavíkur. Talsverðar umræður urðu í nefndinni um hlutverk fasteignamats, sem skattmats, annars vegar og brunabótamats hins vegar. Nefndin vill leggja áherslu á að grundvöllur fasteignamats húseigna verði ekki hinn sami og grundvöllur brunabótamats og að þessum þáttum verði haldið aðskildum.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði málið afgreitt til 3. umr.