Aukatekjur ríkissjóðs

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 16:50:49 (6742)


[16:50]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er að ég skrifa undir nál. efh.- og viðskn. með fyrirvara og vil gera lítillega grein fyrir því í hverju sá fyrirvari minn er fólginn. Hann felst ekki í því í sjálfu sér að ekki sé góðra gjalda vert að samræma, eins og hér er lagt til, gjaldtökuna fyrir þau leyfi sem um er fjallað í frv. í 1. gr. þess. Þar er lagt til að fyrir útgáfu leyfa og skírteina vegna veitingu atvinnuréttinda og tengdra réttinda skuli greiða 5.000 kr. Áður var þetta með nokkuð misjafnt og gjöldin í flestum tilfellum allmiklu hærri, eða frá 5.000 og allt upp í 75.000 kr. þegar í hlut áttu til að mynda leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti, leyfi til að stunda sérfræðilækningar og fleira því um líkt.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að úr því að verið er að hreyfa við þessum málum á annað borð þá hefði átt að ljúka verkinu og framkvæma heildarendurskoðun á lögunum um aukatekjur ríkissjóðs. Ég get í sjálfu sér ekki séð að það sé miklu brýnna að breyta gjaldtöku fyrir útgáfu leyfa til málflutnings fyrir Hæstarétti heldur en til að mynda líta á ákvæði 2. gr. sömu laga. Má þar nefna ákvæði IV. kafla laganna um aukatekjur ríkissjóðs, 10. gr., og V. kafla, leyfi fyrir atvinnustarfsemi og tengd leyfi, en þar er að finna mjög mikið misræmi í gjaldtökunni og í sjálfu sér síst minna heldur en það sem hér er verið að lagfæra. Má sem dæmi taka að þar eru gjöld allt upp í 300 þús. kr. T.d. þegar úthlutað er almennu skemmtanaleyfi fyrir veitingastað til lengri tíma en eins árs þá kostar slíkt leyfi 300 þús. kr. En önnur leyfi sem spyrja má hvort séu í sjálfu sér nokkuð ómerkilegri eru kannski seld á 3.000 kr. eða 5.000 kr.
    Enn mætti nefna ákvæði 12. gr. VI. kafla þar eru ýmis leyfi til að selja, kaupa og fara með hættuleg efni og tæki. Þar er um mikið misræmi að ræða. Gjaldtaka allt frá 25.000 kr. og niður í 3.000 kr. Gjöld fyrir ýmsar skráningar eru mjög mismunandi eða allt frá 500 kr., þegar lögskráning sjómanna á í hlut, og upp í 100 þús. eða þaðan af meira í öðrum tilvikum. Sama má segja um ýmis vottorð og leyfi skv. 14. gr.
    Ég held að það hefði verið full þörf á því að samræma þessi ákvæði öll í heild sinni og er ósáttur við að menn skuli hér eingöngu taka á einum þætti þessa máls þó ég sé ekki að gera lítið úr því að í sjálfu sér hefur sú gjaldtaka verið ærið handahófskennd og svona slumpungsgangur á því hvernig þetta hefur verið ákvarðað í gegnum tíðina.
    Það er annað atriði sem ég vil þá í leiðinni nefna og það er sú staðreynd að þessum málum er alls ekki skipað með nógu vönduðum hætti í stjórnsýslunni hjá okkur almennt og á það sérstaklega við um það að ekki er gerður neinn greinarmunur á annars vegar gjaldtöku sem beinn kostnaður stendur á móti hjá stjórnvöldum þannig að menn til að mynda þegar þeir fá tiltekið leyfi séu þá að greiða fyrir þann kostnað sem stjórnvaldið hefur af því að útbúa leyfið, greiða fyrir pappírinn og greiða fyrir vinnuna sem í það fer o.s.frv., og hinu þegar verið er að taka beinlínis inn tekjur með viðkomandi gjaldtöku. Þ.e. að afla fjár til ríkissjóðs og gjaldtakan er þá orðin að skatti. Það er grundvallaratriði í þessum efnum að það sé ljóst hvað er verið að verðleggja og fyrir hvað menn eru að greiða og til hvers þeir fjármunir renna. Hvort þeir renna til þess að kosta viðkomandi umsvif að hluta eða öllu leyti eða hvort að einhverju leyti er á ferðinni bein fjáröflun og þá er það pólitískt atriði hvort menn til að mynda vilja taka inn einhverjar tekjur í ríkissjóð á því að selja mönnum umfram kostnað atvinnuréttindi eða leyfi af þessu tagi sem hér eiga í hlut.
    Þessu máli hefur reyndar verið hreyft á Alþingi nýlega eins og ég veit að þegar hefur komið fram í máli hv. 3. þm. Vesturl., Jóhanns Ársælssonar. Hann hefur flutt á þingi tillögu um að á þessum málum verði tekið og sú tillaga hefur fengið afgreiðslu og var beint til stjórnvalda að vinna að því að endurskoða og samræma löggjöf og framkvæmd stjórnvalda að þessu leyti. Þetta mun hafa gerst á síðasta þingi og þess vegna finnst mér það ekki nógu góð frammistaða hjá ríkisstjórninni, sem hefur væntanlega fengið þetta verkefni, að vera nú ári síðar að leggja til afgreiðslu á eingöngu einum afmörkuðum þætti þessa máls þó sú breyting sé af hinu góða, að segja megi.
    Þetta sem ég hef greint frá, hæstv. forseti, varð þess valdandi að ég ákvað að skrifa undir nál efh.- og viðskn. með fyrirvara. Ég mun þrátt fyrir það styðja málið af því að það litla sem það er þá er það til bóta.