Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 17:13:08 (6744)


[17:13]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. 1. þm. Austurl. með það form sem er á frv., að hér skuli vera lagt fram frv. til laga um ný lög en aftan við það er síðan bætt þremur greinum sem fjalla um breytingu á lögunum sem fyrir eru frá 1986. Ég held að það væri rétt að við reyndum að haga lagasetningunni á annan hátt og vera ekki með í sama frv. óskyld lög. Ég vil koma með þá ábendingu til flutningsmanna hvort þeir vildu ekki athuga það að aðskilja þetta þannig að það yrði afgreitt sitt í hvoru lagi. Þessi bandormalagasetning er ekki til fyrirmyndar og allra síst þegar um er að ræða annars vegar heildarlög og hins vegar breytingu við eldri lög. Ég held það geti ekki haft nein áhrif á framgang málsins eða vinnubrögð þó að þetta yrði gert. Að vísu má segja að efnið tengist því eftir því sem mér skilst er þetta nýja frv. lagt fram til þess að setja lög um að breytingunni á lögunum frá 1986, nýju ákvæðin um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, verði haldið. En engu að síður er hér um sjálfstæða lagasetningu að ræða eða tvenn lög.
    Mig langaði einmitt að víkja sérstaklega að því atriði að í þessum nýju lögum um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna er verið ganga frá ákvæðum sem ég skil að séu til þess að breytingin á eldri lögunum nái ótvírætt tilgangi sínum, þ.e. að koma í veg fyrir það að sjómenn taki þátt í kaupum á kvóta. En vegna þess, eins og hefur komið fram í umræðu, að fleira er tengt þessu þá vildi ég spyrja frsm. fyrir frv. hvort þessi nýja lagasetning sé ekki fullnægjandi til að koma í veg fyrir þetta atriði, hvort það vanti eitthvað inn í frv. til þess að tryggja það að tilganginum í hinni síðari lagabreytingu verði náð, þ.e. að sjómenn taki ekki þátt í þessum viðskiptum. Ef frv. er að mati flm. ekki fullnægjandi, hvort ekki sé þá hægt að gera á því einhverjar þær lagfæringar að þær tryggi þetta fullkomlega þannig að ekki þurfi að vera að gera aðrar ráðstafanir vegna þessa máls, þ.e. að koma í veg fyrir greiðslu sjómanna fyrir kvótaviðskipti.
    Eins og hér hefur komið fram þá eru ráðgerðar í öðru frv. ýmsar breytingar á viðskiptum með kvótann sem eru mjög umdeildar og taldar verða mjög kostnaðarsamar fyrir bæði viðkomandi fyrirtæki og þjóðarbúið í heild. Og við hljótum öll að vera sammála um það að síst af öllu megum við við því nú að leggja slíkar byrðar á atvinnuvegina og afkomu okkar þjóðarbús.
    Ég vil af þessum sökum lesa örfá atriði úr bréfi sem var að berast okkur þingmönnum Suðurlands frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, en þar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Útvegsbændafélag Vestmannaeyja fjallaði á fundi sínum þann 27. apríl sl. um brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Félagið telur að með frv. þessu sé verið að hefta framsal á veiðiheimildum, en frjálst framsal aflaheimilda hefur hingað til verið helsti kostur kvótakerfisins. Afleiðingar þessa sjáum við hér í Vestmannaeyjum á þann veg að rekstur einyrkjaútgerða muni verða fyrir verulegu áfalli og rekstrargrundvelli þeirra ógnað verulega. Á fáum stöðum á landinu er útgerð einyrkja jafnöflug og einmitt í Vestmannaeyjum. Vegna skerðinga í þorski undanfarin ár eru aflaheimildir báta í Vestmannaeyjum svo takmarkaðar að þeir þurfa að ná sér í viðbótaraflaheimildir til þess að lifa af þetta erfiðleikatímabil, sem mun væntalega standa til loka aldarinnar. Hluti flotans hefur stundað hin svokölluð tonn á móti tonni viðskipti sér til hagsbóta, en ljóst er að frv. kemur að verulegu leyti í veg fyrir það fyrirkomulag.
    Útvegsbændafélag Vestmannaeyja telur að samráðsnefnd sú sem frv. gerir ráð fyrir sé nægjanleg til þess að koma í veg fyrir þátttöku sjómanna í kaupum á aflaheimildum og telur óþarft að skerða jafnframt framsal aflaheimilda í þeim tilgangi.``
    Hér er sem sagt verið að setja fram þetta atriði sem ég var að ræða um og beindi fyrirspurn minni til hv. flm. um, hvort væri ekki réttur skilningur hjá mér eins og hjá Útvegsbændafélagi Vestmanneyinga. Svo segir hér áfram m.a., með leyfi hæstv. forseta. Þar er hins vegar átt við frv. um stjórn fiskveiða:
    ,,Frumvarpið felur í sér verulegt verðmætatap fyrir þjóðarbúið í heild. Vaxandi atvinnuleysi heftir úthafssókn og eykur fjárfestingar í frystiskipum. Félagið er reiðubúið til þess að veita allar þær upplýsingar sem þarf á að halda til þess að kynna afleiðingar af frv.``
    En því er ástæða til þess að minnast á þetta atriði líka vegna þeirra ummæla sem hér voru höfð áðan af sumum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, að það ætti e.t.v. ekki að taka allt of alvarlega ábendingar þeirra sem í þessum atvinnurekstri standa um það tjón sem hlýst af því að gera þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á stjórn fiskveiða og gefið í skyn að það væru ekki traustar heimildir sem þar væri um að ræða. En ég tel að þeir sem í þessu standa daglega og standa tvímælalaust í mjög harðri baráttu fyrir því að halda sínum fyrirtækjum gangandi, það sé að sjálfsögðu engum ljósara en þeim hvar skóinn muni kreppa að og í hve ríkum mæli eftir að fyrirhugaðar breytingar ná fram að ganga. Það er að sjálfsögðu mismunandi aðstæður milli staða eftir því hvernig er háttað atvinnurekstri í sjávarútvegi og eignarheimildum á bátum og vinnslustöðvum. Eins og kemur fram í því bréfi sem ég var að lesa þá er í Vestmannaesyjum mjög mikil útgerð einstaklinga þar sem aflasamdrátturinn hefur orðið gífurlega mikill, en með þessari nýju skipan er verið að takmarka þau viðskipti sem átt hafa sér stað t.d. milli útgerðarstöðva sem hafa verið með eða eiga fiskveiðiréttindi á togurum, stórum skipum, sem geta frekar leitað á önnur mið og hafa þá í staðinn veitt hinum smærri bátum réttindi til veiða gegn því að leggja upp afla. Og það munu allir vita

sem þekkja til þessara mála að þessi háttur síðustu ára hefur hreinlega komið í veg fyrir að margir útgerðarmenn yrðu að gefast upp á sínum rekstri. Þannig að hér er um gífurlega alvarlegt mál að ræða. Því vildi ég varpa því fram hvort það þyrfti að einskorða þetta svona við fyrirtæki, hvort það mætti ekki gera það þá við byggðarlög. Því í huga þeirra sem að sjálfsögðu vilja halda afla innan sinna byggðarlaga þá getur það ekki skipt máli hver innan byggðarlagsins það er sem veiðir aflann. Ég held að það hljóti að vera sameiginlegt hagsmunamál þeirra að það sé gert á hagkvæman hátt og geti orðið til stuðnings sem flestum í viðkomandi byggðarlagi.
    Sú breyting sem nú er fyrirhuguð kemur að sjálfsögðu minna við þá staði þar sem fiskvinnsla og segja má öll útgerð er á sömu hendi, þar sem framsal er frjálst innan sama fyrirtækis. Og af hverju er þarna verið að gera þessa mismunun milli staða eftir því hversu háttar til með eignarhald á atvinnufyrirtækjum? Er það ekki sanngirnismál að hér gildi hin sama regla, ef það er talið algerlega óhjákvæmilegt að setja þessu svo þröngar skorður? En ég skil ekki af hverju það ætti að vera sjómönnum kappsmál að hafa þetta framsal ekki í því horfi sem það hefur verið og sem hefur tvímælalaust stuðlað að því og átt mikinn þátt í að margir hafa getað haldið áfram sinni útgerð. Ef það er komið algerlega í veg fyrir að sjómenn greiði ekki neitt vegna þessara viðskipta, eins og ég skil að frv. sem hér er nú til umræðu, um samstarfsnefndina, eigi að tryggja.
    Það er að sjálfsögðu æskilegt að skapa vettvang fyrir þessa aðila til að ræða saman og útkljá sín deilumál og sjálfsagt er það rétt, sem ég minnist að hv. 16. þm. Reykv. sagði hér í umræðu fyrr í vetur, að ef þetta samkomulag sem gert var í apríl 1992 hefði verið lögfest strax og reynt að fylgja því fram, þá hefðu hlutirnir þróast öðruvísi. Það er því vert að taka undir það að það getur verið mjög mikilvægt að hafa slíkan samstarfsvettvang og viðræðuvettvang til þess að koma í veg fyrir að mál lendi í þeim hnút sem þau hafa gert undanfarna mánuði, komið fram í verkfalli sjómanna í vetur og eiga þátt í eða hafa svo leitt til þess að hér er verið að gera ráðstafanir sem þeir er best til þekkja fullyrða að sé heildinni og þar af leiðandi að sjálfsögðu sjómönnum líka til tjóns þegar til lengri tíma er litið.