Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 17:35:32 (6747)


[17:35]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar rætt er um hvort varnaðarorð manna séu tekin alvarlega þá er ekki einungis eitt plagg lagt til grundvallar heldur liggja að baki þessu frv. og þeim brtt. sem hafa verið lagðar fram við stjórn fiskveiða og Þróunarsjóðinn að sjálfsögðu miklu meiri umræður og viðræður við þá sem standa

í þessum atvinnurekstri, bæði frá hlið atvinnurekenda og eins sjómanna.
    Málið snýst í fyrsta lagi um að samstarfsnefndin fjallar um verðlagninguna á aflanum og hvenær verðlagningin er bersýnilega ósanngjörn. Hins vegar eru inni í framsalskerfinu eins og það er í dag leiðir sem hafa kannski einkum verið gagnrýndar í sambandi við misnotkun á framsali og því að sjómenn hafi verið látnir taka þátt í kvótakaupum. Það er fyrst og fremst verið að reyna að loka þeim leiðum eða takmarka þær. Þar á ég við að hina svokölluðu einstefnuloka þar sem komið er í veg fyrir að hægt sé að selja kvóta af bát og kaupa hann svo aftur beinlínis í því skyni að lækka laun sjómanna. Það er líka verið að koma í veg fyrir í grundvallaratriðum að það sé verið að framselja aflamark á bát sem hann ætlar ekki að veiða. En öll viðskipti sem ganga út á það að flytja aflamark milli skipa, þar sem verið er að flytja aflamark af skipi sem ekki ætlar að veiða viðkomandi tegund yfir á skip sem ætlar að veiða viðkomandi tegund, þau viðskipti verða áfram heimil og það framsal verður áfram heimilt og öllum til hagsbóta.