Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 17:37:49 (6748)


[17:37]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Já, ég skil þetta kannski ekki alveg því mér finnst hv. 1. flm. segja að þessi samstarfsvettvangur og samstarfsnefnd eigi að sjá um það að í þessum viðskiptum sé ekki gengið á hlut sjómanna þannig að þeir taki ekki þátt í kaupunum. Og ef nefndin sinnir því og nær þeim markmiðum þá get ég ekki séð hvernig viðskiptin geta skaðað sjómenn. Hv. frsm. eða 1. flm. sagði að þetta mundi ekki skaða mikið, það væri aðeins verið að takmarka. Samt sem áður hafa hér verið nefndar tölur og m.a. tekið undir þær að nokkru leyti af Þjóðhagsstofnun, sem eru áreiðanlega allt of háar, bæði fyrir fyrirtækin og þjóðarbúið í heild. Í þessari stöðu, þegar samdráttur er í afla, þá ríður auðvitað á því að gera reksturinn sem hagkvæmastan. Að mínu mati má löggjafarvaldið ekki gera neitt sem kemur í veg fyrir það, miklu frekar þarf það að stuðla að því að rekstur verði hagkvæmur. Það þurfum við að gera á öllum sviðum og leita allra úrræða til þess. Þannig að ég tel að hér sé um slys að ræða ef þetta frv., sem ég tel ganga í rétta átt, er ekki fullnægjandi. Það er það sem ég vil leggja áherslu á, að því verði þá breytt þannig að það nægi.