Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:01:45 (6754)


[18:01]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það hefur nú verið upplýst og á að vera hv. 2. þm. Sunnl. kunnugt að þær breytingartillögur við frumvörp sem hér liggja fyrir eru m.a. afrakstur af samráði, ekki samkomulagi heldur samráði bæði við forustumenn sjómanna og útvegsmanna. Og ég furða mig á því að hv. þm. skuli vera með útúrsnúninga um það efni þó að ég telji að frv. gæti verið betra ef ég mætti einn ráða, að hann telji það vera til ámælis að ég skuli telja nauðsynlegt að taka tillit til afstöðu sjómanna. Ég tel að mér beri skylda til þess, þó að ég sé ekki nákvæmlega sammála þeim í einu og öllu, að taka tillit til þeirrar afstöðu og reyna að skipa málum endanlega á þann veg að niðurstaðan verði í samræmi við það, þó að ég hafi sjálfur e.t.v. aðra skoðun þar á, vegna þess að ég tel að heildarhagsmunum sjávarútvegsins sé betur borgið á þann veg. En hv. þm. vill ekki taka þetta tillit til sjómanna og með þeim afleiðingum sem það hlýtur að hafa fyrir sjávarútveginn.