Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:31:53 (6763)


[18:31]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það hefði kannski verið bara erfiðara fyrir innanflokksátök í Alþb. ef þeir hefðu átt mikla aðild að tvíhöfða nefnd eða þeirri endurskoðunarvinnu sem var á sínum tíma varðandi þetta mál og leiddi til þess frv. sem hér liggur fyrir.
    Varðandi það af hverju Vinnuveitendasambandið tilnefnir í samstarfsnefndina þá er það fyrst og fremst vegna þess að LÍÚ er aðili að VSÍ og VSÍ fer formlega með samningsréttinn fyrir hönd LÍÚ gagnvart Sjómannasambandinu en Sjómannasambandið hefur ekki afhent Alþýðusambandinu þennan samningsrétt heldur fer Sjómannasambandið með þennan rétt sjálft. Vinnumálasamband samvinnufélaga kemur ekki nálægt kjarasamningum við sjómenn.
    Varðandi það hvort Fiskifélagið safni upplýsingum þá hlýtur það að sjálfsögðu að verða viðfangsefni nefndarinnar að finna þann aðila sem hún notar til þess að finna þær upplýsingar sem til þarf.
    En hvað á vera viðmiðunarverð eða út frá hvaða útgangspunkti á að ganga þá hygg ég að viðskipti milli skyldra aðila hljóti alltaf að verða viss útgangspunktur í því hvað sé ósanngjarnt en hins vegar tel ég að það hafi ekkert upp á sig að tala um að það eigi að vera skriflegir samningar vegna þess að í slíkum skriflegum samningum er að sjálfsögðu hægt að skrá hvaða verð á kvóta sem er.