Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 19:08:37 (6776)


[19:08]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var rætt allítarlega við samningu þessa frv. hverjir ættu að geta leitað álits samstarfsnefndarinnar og einmitt í ljósi þess sem hv. þm. fjallaði um. Niðurstaðan varð sú að þetta gæti staðið eins og það væri, enda hlyti það að koma þannig út í starfi nefndarinnar að öll þau mál sem ættu

erindi þarna inn vegna þess að þar væri verið að deila um fiskveiði í tengslum við viðskipti á aflaheimildum hlytu að koma þar inn á borð þrátt fyrir það að aðeins tilnefningaraðilarnir vísuðu málum til nefndarinnar. Ég hygg að það hafi aldrei verið í starfi sem þessi samtök hafa unnið að þau færu að mismuna mönnum með þessum hætti sem hún var að velta fyrir sér hvort gæti átt sér stað.
    Varðandi þær greinar sem hún nefndi um söfnun upplýsinga og birtingu þeirra þá á það fyrst og fremst við um almennar upplýsingar, um meðaltöl, dreifingartölur sundurliðaðar eftir landshlutum og sundurliðaðar eftir þeim viðskiptum sem eiga sér stað. Þar er því ekki um það að ræða að það sé verið að sundurliða upplýsingar á einstaklinga eða slíkt. Þegar talað er um útdrátt á niðurstöðum þá er fyrst og fremst verið að taka nafnlaus mál og lýsa tildrögum og hvernig hefur verið úrskurðað í slíkum málum og þetta er nauðsynlegt til þess að þeir sem við þetta eiga að búa hafi fordæmi fyrir því hvernig nefnd tekur á málum. Varðandi það að bannað sé að skýra frá þá á það fyrst og fremst við um einstök mál og hagi þeirra einstaklinga eða fyrirtækja sem hlut eiga.
    Ég get tekið undir að það væri æskilegt að samstaða næðist um fiskvinnslukvótann. Því miður varð svo ekki en ég tel að það mál sé geymt en ekki gleymt.