Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 19:10:59 (6777)



[19:10]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki alveg nóg þó hugsunin á bak við 3. gr. sé sú að það eigi ekki að mismuna sjómönnum eða samtökum. Það stendur í 3. gr. að þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna sem standa að tilnefningu samstarfsnefndarinnar skv. 1. gr. geta leitað álits nefndarinnar. Það stendur ekki að allir geti það þannig að það þyrfti þá að koma skýrar fram. Það hefur raunar oft verið rætt á hinu háa Alþingi að lagatexti sé ekki nægilega skýr og ég beini því til hv. þm. og nefndarinnar í heild að skoða það hvort ekki þurfi að kveða eitthvað skýrara á. Og kannski er þetta ekki svo fastbundið að ekki sé hægt að breyta því.
    En ég vil lýsa ánægju minni með það að hv. þm. skuli enn þá vera á þeirri skoðun að fiskvinnslan eigi að geta haft kvóta og ég vona svo sannarlega að hann haldi áfram að beita sér fyrir því því að ég verð að lýsa því yfir að það er svona aðeins í áttina að þeirri stefnu sem við kvennalistakonur höfum haldið fram, að það þyrfti að binda eitthvað af kvótanum í byggðarlögunum og helst sem mest af honum til þess að ekki væri sífellt verið að versla með aflaheimildir og selja þær í burtu með skipunum. Ég tel að það að fiskvinnslan hafi kvóta sé spor í rétta átt.