Stjórn fiskveiða

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 21:03:45 (6778)

[21:03]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. meiri hluta sjútvn. við frv. til laga um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Nál. er á þskj. 1090 þar sem fram kemur að nefndin hafi fjallað afar ítarlega um frv. og rætt við fjölda manns sem getið er í álitinu. Ég hyggst ekki lesa alla þá nafnarunu upp en vísa til nál. sjálfs í þessu sambandi. Flestir þeir sem komu á fund nefndarinnar skiluðu einnig skriflegum greinargerðum um málið til nefndarinnar.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir allnokkrar brtt. við frv. Þær eru í 10 liðum og mun ég gera grein fyrir þeim og fjalla um málið með hliðsjón af þeim.
    Fyrsta brtt. nefndarinnar fjallar um nokkrar breytingar á ákvæðum 2. gr. varðandi smábáta, þ.e. krókaleyfisbáta. Með leyfi forseta leggur nefndin til að fyrstu tvær efnismgr. orðist svo:
    ,,Bátar minni en 6 brl., sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum,

skv. 6. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laganna, skulu frá og með fiskveiðiárinu, er hefst 1. sept. 1994, sæta veiðitakmörkunum eins og kveðið er á um í 2.--6. mgr. þessarar greinar. Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar með línu og handfærum. Þó er sjútvrh. heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, og til hrognkelsaveiða í net.
    Veiðar skulu bannaðar í desember og janúar sem og í sjö daga um páska og verslunarmannahelgi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Veiðar skulu enn fremur bannaðar aðra og fjórðu helgi hvers mánaðar auk föstudaga á undan hvorri helgi. Falli banndagar þessir saman við banndaga um páska eða verslunarmannahelgi flytjast þeir fram sem því nemur.``
    Í öðru lagi að 6. efnismgr. orðist svo:
    ,,Viðbótarbanndögum skal bætt framan við banndaga á viðkomandi tímabili og skipt eins jafnt niður og unnt er.``
    Þannig hljóðar þessi breyting og það sem hér er fyrst og fremst um að ræða er tvennt: Í fyrsta lagi er tekið fram að krókaleyfisbátum sé heimilt að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem með plógum og gildrum og eins að stunda veiðar á hrognkelsum. Þetta hefur í reynd verið framkvæmt svona og krókaleyfisbátar hafa mátt stunda þessar veiðar en hér er lagt til að það verði afdráttarlaust tekið á því í löggjöfinni að þeim sé slíkt heimilt. Þá er í öðru lagi breytt banndagareglunni sem gildir um veiðar þessara báta.
    Það sem skiptir fyrst og fremst máli í sambandi við takmarkanir á veiðum krókaleyfisbáta er að það gildir sérstakt heildarþak í tonnafjölda á veiðum þessara báta. Ef bátarnir veiða umfram þetta ákveðna þak þá leiðréttist banndagafjöldinn frá ári til árs. Þannig skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaða banndagaregla nákvæmlega er notuð heldur miklu meira máli að þak sé til staðar og fari veiðarnar umfram þakið þá er banndögunum fjölgað. Þetta skiptir fyrst og fremst máli og verður til þess að e.t.v. í fyrsta sinn eru veiðar þessara báta takmarkaðar með öruggum og ákveðnum hætti.
    Reglan sem hér er tekin upp er þjálli í sjálfu sér fyrir þá sem stunda þessar veiðar. Eins og frv. var upphaflega sett fram var miðað við að banndagarnir kæmu allir í lok hvers mánaðar, en nú hefur þessu verið breytt þannig að lagt er til að það séu teknar tvær helgar í hverjum mánuði, önnur og fjórða hver helgi, og það tímabil verði síðan lengt ef með þarf í því skyni að halda veiðunum undir því þaki sem um er að ræða. Ef það þarf að fjölga banndögunum vegna þess að bátarnir fara yfir markið þá er það gert með því að lengja viðkomandi helgar þannig að banndögunum fjölgi og veiðitíminn styttist eftir því sem þarf.
    Það má segja sem svo að veiðar smábátanna hafi verið afar umdeildar og ég get staðfest það að á fundum tvíhöfða nefndarinnar hringinn í kringum landið var tekist mjög á um veiðar smábátanna. Tvíhöfða nefndin lagði til á sínum tíma að smábátarnir færu allir í kvóta, krókaleyfisbátarnir líka, en um það náðist ekki samstaða. Tvíhöfða nefndin lagði þá til í ljósi þeirrar andstöðu sem tillögur hennar um að kvótasetja alla þessa báta höfðu fengið að það væri sett alveg fast og ákveðið þak og banndögum síðan fjölgað eða fækkað eftir því hvernig bátarnir veiddu þann afla sem þeim væri heimilt að veiða.
    Ég tel því að þeim markmiðum sem menn hafa sett sér með því að ná utan um veiðar þessara báta sé náð með þessum brtt. Það má hins vegar alltaf deila um það hvort þetta mark sé of hátt eða of lágt. Mörgum finnst það of lágt en síðan benda aðrir á að það sé of hátt og bitni á veiðum annarra sjómanna. Vissulega er það rétt og satt, en ég hygg að það verði aldrei til neitt endanlegt réttlæti í þessum efnum heldur verði fyrst og fremst að leita þarna leiða þar sem hægt er að sætta sem flest sjónarmið hvað þetta snertir.
    Í öðru lagi er lagt til að fyrri málsl. 2. efnismgr. falli brott úr 4. gr. frv. Það sem hér er um að ræða er það að fella niður skilyrði um það að tekjur þurfi að rýrna um meira en 10% milli hverra tveggja ára til að jöfnunaraðgerðir séu heimilar. Í 4. gr. frv. er verið að fjalla um að það hefur komið inn almenn heimild fyrir sjútvrh. til að ráðstafa um 12.000 þorskígildistonnum til þess að mæta áföllum sem eru fyrirsjáanleg vegna þess að afli hafi dregist saman í einhverri ákveðinni tegund. En í frumvarpsgreininni, eins og hún var sett fram, var gert ráð fyrir því að heildaraflinn þyrfti að minnka um meira en 10% eða tekjur þyrftu að minnka um meira en 10% milli hverra tveggja fiskveiðiára. Með því að fella niður þessa kröfu er miðað við að samdráttartími geti staðið lengur en einhver tvö ár og ef það kemur samfellt tímabil þar sem tekjur eru mjög lágar vegna samdráttar í veiði á einhverri tegund þá er heimilt að viðhalda þessum jöfnunaraðgerðum.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að yfirfærslurétturinn verði áfram 20% en ekki 10% eins og var miðað við í frv. Yfirfærslurétturinn þýðir að ef viðkomandi skip nær ekki kvóta sínum þá má flytja yfir allt að 20% til næsta árs og þetta hefur verið talið nauðsynlegt til þess að viðhalda sveigjanleika í kvótakerfinu og það hafa ekki verið uppi neinar óskir, hvorki af hálfu útvegsmanna né sjómanna, um það að breyta þessu fyrirkomulagi.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að 7. gr. falli brott. Í 7. gr. frv. var lagt til að fiskvinnslukvótinn kæmi inn, þ.e. að heimilt yrði að framselja varanlegar aflahlutdeildir yfir á fiskvinnslustöðvar. Ég verð að segja það fyrir mig að þessi brtt. er mér afar sár. Ég sé virkilega eftir því að hafa þurft að leggja þetta til en það gerði ég alla vega í því skyni að ná sátt um þetta mál milli sjómanna og útvegsmanna. Ég hefði talið að þarna hefði verið stigið skref til aukinnar hagkvæmni í sjávarútvegi, skref sem hefði getað nýst fiskvinnslunni, nýst byggðarlögum sem eiga í erfiðleikum og einnig aukið samkeppnishæfni landvinnslu á móti sjóvinnslu, en eins og kunnugt er á sjóvinnslan kvóta sem fiskvinnslan í landi á ekki. En um þetta hefur ekki náðst samstaða við útvegsmenn eða sjómenn og því nær þetta mál ekki fram að ganga að þessu sinni og þarf að nást um það meiri sátt við þá aðila sem starfa í greininni til að það geti náð fram að ganga. En ég vil endurtaka það að það er mér ekki léttbært að flytja brtt. af þessu tagi og mæla fyrir henni hér.
    Í fimmta lagi er gerð tillaga til breytinga á 8. gr. frv. Tillagan er að greinin orðist sem hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 3. mgr. 12. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Þegar meira en 15% af aflamarki því af einhverri tegund, sem úthlutað var til skips í upphafi fiskveiðiárs, hefur verið flutt frá skipinu til skipa í eigu annarra útgerða án þess að um jöfn skipti sé að ræða er óheimilt á sama fiskveiðiári að flytja aflamark af sömu tegund til skipsins. Á sama hátt er óheimilt að flytja aflamark frá skipi þegar meira en sem svarar 15% af upphaflegu aflamarki skipsins af viðkomandi tegund hefur verið flutt til skipsins af skipum í eigu annarra útgerða á fiskveiðiárinu án þess að um jöfn skipti sé að ræða. Fiskistofu er þó heimilt að veita undanþágu frá banni við flutningi aflamarks frá skipi ef alvarlegar bilanir verða þess valdandi að veiðiheimildir þess nýtast ekki.
    Aldrei er heimilt að flytja aflamark milli skipa leiði slíkur flutningur til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess.``
    Virðulegi forseti. Ástæða er til þess að fjalla nokkuð um þessa tillögu til breytinga á frv. Það sem hér er um að ræða eru tvær breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að þegar meira en 15% af aflamarki af einhverri tegund hefur verið flutt frá skipi þá megi ekki flytja sömu tegund aftur á viðkomandi skip. Þetta er sérstaklega hugsað til þess að girða fyrir þann möguleika að útgerðir geti byrjað á því að selja frá sér allt sitt aflamark í ákveðinni tegund og kaupa síðan aflamark af sömu tegund aftur á skipið með þátttöku sjómanna. Segja má að þetta sé lykilatriði til að girða fyrir þann möguleika.
    Enn fremur er girt fyrir það að ef búið er að flytja inn á skip sem samsvarar meira en 15% af ákveðinni tegund þá má ekki flytja frá því aftur. Þetta ákvæði kemur í rauninni í veg fyrir það að skip séu notuð sem svokallaðir kvótabankar nema í takmörkuðum mæli til að flytja kvóta inn á skipið og miðla svo kvótanum út af skipinu aftur. Hvort tveggja hefur verið gagnrýnt af hálfu sjómannasamtakanna og þessi tillaga kemur hér inn til að koma til móts við þeirra gagnrýni á frv. og á þá löggjöf sem gilt hefur um stjórn fiskveiða. Hér er að sjálfsögðu um það að ræða að verið er að takmarka framsal á aflaheimildum. Því er alls ekki að neita, það liggur að sjálfsögðu í hlutarins eðli. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir að svara er hins vegar sú hvort þessi tillaga gangi of langt, hvort hún þrengi svo mikið heimildir manna til þess að stunda viðskipti með aflaheimildir að hún dragi stórkostlega úr hagkvæmni í sjávarútveginum.
    Ég vil segja fyrir mig að ég tel að þessi tillaga dragi vissulega úr ýtrustu möguleikum til hagkvæmra viðskipta með aflaheimildir í sjávarútvegi. Ég vil samt halda því fram að þrátt fyrir þessa breytingu sé í grundvallaratriðum enn þá til staðar heimild til hagkvæmra viðskipta með aflaheimildir, að í grundvallaratriðum hafi ekki verið hróflað við framsalskerfinu. Ég vil rökstyðja það með eftirfarandi hætti: Þar sem skip er að láta frá sér aflaheimildir sem það sjálft ætlar ekki að veiða er ekki verið að takmarka rétt til framsals. Þar sem skip er að fá til sín aflaheimildir sem það ætlar að veiða er ekki verið að takmarka framsal. Þannig að í öllum tilvikum þar sem menn eru að láta frá sér kvóta sem þeir ætla ekki að veiða eða fá til sín kvóta sem þeir ætla að veiða er ekki hreyft við neinu. Það sem hreyft er við er hins vegar ef menn ætla sér að vera mikið í því að kaupa og selja sömu tegundina, en það hefur einmitt hlotið mesta gagnrýni af hálfu sjómannasamtakanna.
    Menn þurfa að sjálfsögðu líka alltaf að spyrja sig ákveðinnar spurningar í sambandi við allar svona breytingar. Hún er þessi: Hvernig munu aðilar í sjávarútvegi, útgerðarmenn, bregðast við þegar hinar nýju leikreglur hafa verið settar? Við getum nefnilega ekki búist við því að útgerðarmenn hegði sér nákvæmlega eins eftir að búið er að breyta reglunum eins og þeir gera fyrir þær. Við erum jú að setja svona reglur til að girða fyrir ákveðna hegðun eða möguleika á ákveðinni hegðun eða ákveðnum viðskiptum og síðan þegar við erum búin að setja leikreglurnar þá eiga útgerðarmennirnir næsta leik. Og hverjir skyldu þeir leikir verða?
    Eitt af því sem hefur verið mest gagnrýnt af hálfu útgerðaraðila og er í sjálfu sér ekkert óskiljanlegt er t.d. að útgerðarmenn noti skip sem er í sjálfu sér haldið til veiða allt árið sem kvótabanka. Segjum að útgerð sé að gera út frystitogara sem haldið er til veiða utan landhelginnar, á karfa eða einhverju slíku, og sé að kaupa þorsk, segjum að hausti, sem sé geymdur á frystitogurunum þangað til fram í júní og þá sé það notað. Hvernig á að fara að í slíku tilfelli? Jú, þetta þýðir að í stað þess að nota skipið sem kvótabanka þá þarf útgerðarmaðurinn eða fiskvinnslan sem stendur kannski að baki slíkum frystitogara að gera samninga um að kaupa kvótann, sem hann ætlar síðan að framselja á annað skip seinna á árinu, þá þarf að gera samning um það að kvótinn sé ekki afhentur fyrr en þegar þarf að veiða hann. Þessi viðskipti munu fara yfir í slíkan farveg. Menn munu gera samninga um það að kaupa kvóta á einum tíma fiskveiðiársins sem ekki er afhentur fyrr en á öðrum tíma fiskveiðiársins þegar er þá ákveðið hvaða skip á að veiða hann. Þannig að menn sem eru að flytja veiðiheimildir með eðlilegum hætti á milli tveggja skipa, þar sem verið er að flytja kvóta af skipi sem ætlar ekki að veiða viðkomandi tegund yfir á skip sem ætlar sér að veiða viðkomandi tegund, þá er hægt að gera það með slíkum samningum og þeir munu örugglega finna

sér eðlilegan farveg.
    Í annan stað hygg ég að viðskipti með varanlegar aflaheimildir muni verða líflegri þannig að menn færa þá varanlega til þær veiðiheimildir sem þeir telja að séu í samræmi við það veiðimynstur sem þeir ætla að hafa á viðkomandi skipum. Það er í sjálfu sér ekki óeðlileg þróun að ef menn sjá fram á það að eitthvert ákveðið skip sé í rauninni með ákveðið veiðimynstur, að safna smám saman á það varanlegum veiðiheimildum eða aflahlutdeildum sem samræmast því veiðimynstri.
    Eitt sem kemur til viðbótar inn í þessa mynd og ég hygg að menn muni reyna að huga meira að í framtíðinni er að menn geri samninga um vistun á varanlegum aflaheimildum á skipum sem eru ekki í þeirra eigu. Það er dæmi sem á t.d. við um Tálknafjörð þar sem hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, 6. þm. Vestf., rakti hér í ræðu sinni fyrr í dag um samstarfsnefndina. Tálknfirðingar hafa í rauninni sett 700 tonna kvóta á 10 tonna bát sem þeir síðan láta Patreksfirðinga veiða fyrir sig. Þá snýst spurningin um það hvort Tálknfirðingar eigi einhverja möguleika til þess að vista varanlega þessar aflahlutdeildir á bátunum á Patreksfirði án þess að missa á þeim eignarhaldið. Það eru bátarnir á Patreksfirði sem hvort sem er eru að veiða þennan fisk og spurningin snýst þá í rauninni um eignarhaldið á skipunum. Ég hygg að það muni verða fundnar leiðir fyrir útgerðarmenn til þess að vista aflahlutdeildir með slíkum hætti á skipum sem eru ekki í þeirra eigu þannig að það geti staðist bæði gagnvart veðhöfum á skipunum, ráðstöfunarrétti og kröfugerð óskyldra aðila ef um slíkt verður að ræða.
    Kjarni málsins tel ég að sé sá að vissulega er verið að takmarka möguleika manna til viðskipta með aflamark. Vissulega er verið að því. En í grundvallaratriðum tel ég að það sem ég kalla eðlileg viðskipti með aflaheimildir, þar sem menn eru að leita hagkvæmni, þar sem menn eru að hætta við að veiða þær tegundir sem þeir geta ekki með einhverjum hætti veitt og flytja yfir á skip sem geta veitt viðkomandi tegundir, það verði áfram í lagi og menn geti hagrætt í grundvallaratriðum innan þessa kerfis. Það sem menn geta hins vegar ekki gert er að eftir þessar takmarkanir geta menn ekki selt frá sér kvóta til að láta sjómennina kaupa kvótann aftur á skipið og menn geta heldur ekki notað skip sem kvótabanka. Þetta er kjarni málsins. Og ég tel að þessir tveir möguleikar sem verið er að taka þarna út séu ekki stór þáttur í spurningunni um hagkvæmni viðskipta með aflaheimildir og séu ekki stór þáttur í því að það sé hagrætt.
    Varðandi 6. liðinn. Þar er lögð til sú breyting að í stað 25% kröfunnar um það að fiskiskip verði að veiða a.m.k. 25% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð, ef það nær því ekki þá falli aflahlutdeild niður, að þessi 25% krafa sé hækkuð upp í 50%. Þetta er gert til þess að hvetja til frekari úreldingar á fiskiskipum og ég hygg að það sé stefna sem alla vega langflestir sem ég hef heyrt ræða um þessi mál hafa viljað taka undir.
    Síðan er gerð ákveðin tillaga um frávik frá þessu. Ef skipum er haldið utan fiskveiðilögsögunnar þá lækkar þetta 50% viðmiðunarhlutfall um 5% fyrir hverja fulla 30 daga sem skipi er haldið til veiða utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Þetta tel ég að sé nauðsynlegt til þess að það sé til staðar nægileg hvatning fyrir útgerðarmenn að senda skip sín til veiða utan lögsögunnar á tegundum sem ekki koma hér inn í okkar landhelgi og þetta hefur í rauninni sams konar áhrif og að minnka flotann.
    Í áttunda lagi er ákveðið 10 þús. kr. gjald sem fyrirhugað er til Fiskistofu á hverja tilkynningu um færslu á aflamarki. Ef búið er að flytja umfram tíu þá falli það niður og ég ætla ekki að fjalla mikið um það.
    Í síðasta lagi eru gerðar breytingar á gildistökuákvæði hins nýja kerfis varðandi krókaleyfisbátana þannig að það nýja kerfi tekur ekki gildi fyrr en 1. sept. nk. eða frá og með nýju fiksveiðiári og það er rökrétt í ljósi þess að í löggjöfinni um stjórn fiskveiða sem nú gildir frá því í maí 1990 var gert ráð fyrir því að núverandi fyrirkomulag þessara mála gilti út það fiskveiðiár sem hér um ræðir.
    Virðulegi forseti. Nú hef ég farið í gegnum þær brtt. sem meiri hluti nefndarinnar leggur til við frv. Ég verð að segja það að þessar brtt. byggjast á tilraunum til þess að ná sátt um allt þetta mál milli hagsmunaaðila í sjávarútvegi, milli sjómanna og útvegsmanna og ná sem víðtækastri sátt almennt í þjóðfélaginu um það stjórnkerfi sem við höfum viljað taka upp á stjórn fiskveiða. Ef við berum saman okkar stjórnkerfi við það sem gildir í öðrum löndum þá hygg ég að það dyljist engum að það stjórnkerfi sem við höfum tekið upp er líklega eitt það hagkvæmasta sem finnst. Og allar þær þjóðir sem eru að leita sér að stjórnkerfi eða breyta stjórnkerfi sínu í átt til aukinnar hagkvæmni líta á okkar stjórnkerfi sem fyrirmynd að slíkum breytingum.
    Þær breytingar sem við erum nú að gera á stjórnkerfi fiskveiða hér haggar á engan hátt því að okkar stjórnkerfi verður áfram þessi fyrirmynd. Það sem við erum að gera með þessum breytingum er að styrkja þetta stjórnkerfi, auka um það sátt meðal þeirra sem við það starfa þannig að það muni um fyrirsjáanlega framtíð nýtast okkur áfram og verða undirstaðan, grundvöllurinn undir þá hagkvæmni sem ríkir í íslenskum sjávarútvegi, þá hagkvæmni sem hefur gert Ísland að velferðarríki og í hópi tekjuhæstu þjóða í heimi.