Stjórn fiskveiða

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 21:42:00 (6783)


[21:42]
     Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Það var óneitanlega nokkuð kyndugt að heyra frsm. meiri hlutans eyða þó nokkru af ræðutíma sínum í það áðan að útskýra fyrir mönnum hvernig væri hægt að komast fram hjá þeim takmörkunum sem hann átti engu að síður að vera að mæla fyrir og meiri hlutinn leggur til að gerðar séu varðandi til að mynda framsal veiðiheimilda. En hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hughreysti menn með því að þetta yrði allt lagi því þeir á Tálknafirði og víðar mundu finna aðferðir til þess að komast fram hjá þessum þröskuldum sem þeir væru engu að síður að reisa fyrir þá, hv. þm. og hans stuðningsmenn. Margt er nokkuð skondið í þessu svo að ekki sé meira sagt.
    Nú háttar þannig til að það eru rétt um fjögur ár liðin síðan það starf átti að hefjast sem hér á nú að heita að sé að ljúka, þ.e. að endurskoða ákvæði laga um stjórn fiskveiða. En það var eins og kunnugt er hluti af samkomulagi um afgreiðslu málanna hér á Alþingi á vordögum 1990 að á næstu tveimur árum rúmum, þ.e. fyrir árslok 1992, skyldi fara fram heildarendurskoðun lagaákvæða um stjórn fiskveiða. Síðan var fyrir um það mælt með sérstökum hætti hvernig að því skyldi staðið. Auðvitað er það þannig að það er á engan hátt vansalaust hvernig þessu starfi er svo að ljúka og við hvaða aðstæður og þá er ég auðvitað alveg sérstaklega að vísa til þess að eftir allan þennan óratíma, hartnær fjögur ár, skuli það samt gerast að hin eiginlega efnisvinna málsins þarf að fara fram á nokkrum sólarhringum. Og af hveru er það nú? Það er vegna þess að þrátt fyrir tvíhöfða nefndina og allt starfið og allan tímann þá er það ekki fyrr en með hrossakaupum á síðustu sólarhringum að stjórnarflokkarnir ákveða hvernig þeir ætla að hafa þessi mál. Síðan er þinginu og sjútvn. í raun og veru ætlað að afgreiða þau mál á sáralitlum tíma. Það er alveg ljóst að til þess að vinna málin með fullnægjandi efnislegum hætti, þannig að sómi hefði verið að, hefði sjútvn. og Alþingi þurft einar þrjár vikur frá því að breytingartillögur stjórnarflokkanna komu fram til þess að ræða við aðila, til þess að afla gagna, láta gera útreikninga og fara rækilega í saumana á þessum hlutum.
    Það er t.d. alveg ljóst að hugmyndir manna um það hvaða áhrif verði af lögfestingu þessara breytinga eru enn á miklu getgátustigi. Það liggja fyrir mjög misjafnar og misvísandi tillögur manna um það hver áhrifin af þessu verði og það er eðlilegt vegna þess að menn hafa haft fáeina sólarhringa til að skoða þessi mál. Ég vil samt taka það fram að ég er ekki með því að lasta það starf sem síðan hefur verið unnið. Ég tel að sjútvn. hafi reynt eftir föngum að vinna þessi mál og þrátt fyrir allt hefur okkur tekist að kalla til viðtals allmarga af mikilvægum hagsmunaaðilum í málinu og draga að okkur gögn og ég vil þakka nefndarmönnum þar fyrir samstarfið í þessu starfi. En það er alveg ljóst og óhjákvæmilegt að láta það koma hér fram að til þessa hefði þurft miklu meiri tíma. Eins og ég segi og endurtek, 2--3 vikur hið minnsta.
    Það er mjög bagalegt þegar hlutirnir gerast með þessum hætti og í reynd er það þannig að þessi mikilvægustu málefni sjávarútvegsins hafa orðið verslunarvara í tvígang milli stjórnarflokkanna og innbyrðis í stjórnarflokkunum, nánast fyrir opnum tjöldum. Í fyrra skiptið var það fyrir ári síðan þegar hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. gerðu með sér kaupskap mikinn og náðu samkomulagi um ýmislegt sem tengdist meðferð þessara mála, framlagningu Þróunarsjóðsins o.fl. Sumir vilja meina að þar hafi verið dýru verði keypt óbreytt fyrirkomulag við stjórnun fiskveiða þegar hæstv. sjútvrh. lét eftir Alþfl. upptöku vísis að auðlindaskatti frá og með miðju ári 1996 og skyndileg eftirgjöf varð gagnvart kröfum Íslendinga í viðræðum við Evrópubandalagið um tvíhliða samning um samstarf á sviði sjávarútvegsmála.
    Þessir hlutir eru auðvitað ekki í þeim farvegi sem þeir eiga að vera og það er næsta nöturlegt þegar það er beinlínis kynnt og viðurkennt fyrir opnum tjöldum að hluti af því að ná samkomulagi í stjórnarflokkunum og innbyrðis í öðrum stjórnarflokknum hafi verið útdeiling á óskyldum ákvörðunum þó að þær eigi að vísu að heita tengdar sjávarútvegi. Og það er að sjálfsögðu ekki þannig sem hlutirnir eiga að gerast að 7 þús. tonn af rækju sé orðin verslunarvara í tengslum við framtíðarstefnumörkun okkar á sviði stjórnunar fiskveiða eða lokun eða breytingu á togveiðihólfum í tilteknum landshlutum eða fyrir tilteknum landshlutum. En þannig birtist þetta því miður þingi og þjóð og er eins og ég segi, hæstv. forseti, ámælisvert.
    Í nefndaráliti okkar 1. minni hluta sjútvn. er í allítarlegu máli rakinn aðdragandinn að því lagaendurskoðunarstarfi sem hér á að heita að sé að fara fram og byrjað, eins og áður var reyndar nefnt, við afgreiðslu málanna á vori 1990. Ég fór reyndar lítillega yfir það í dag, hæstv. forseti, hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur í raun og veru klúðrað þessu verkefni svo rækilega að það hlýtur að koma til með að standa á spjöldum sögunnar um ókomin ár hvílík þrautaganga og raunasaga málefni sjávarútvegsins og meðferð á þeim hlutum öllum hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar og er þar af miklu að taka satt best að segja. Væri það svo að eina klúðrið í þessum málum væri vinnan að þessum frumvörpum eða lögum um stjórn fiskveiða þá væri það kannski sök sér og eru þar þó engin smámál á ferðinni. En staðreyndin er sú að nánast hvert einasta atriði sem upp hefur komið og einhverju umtalsverðu máli hefur skipt í sambandi við sjávarútveg á þessu kjörtímabili hefur orðið að vandræðamáli og klúðri í höndunum á hæstv. ríkisstjórn. Hver man ekki endaleysuna varðandi meðferðina á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs? Jafnvel einfaldur hlutur eins og sá að hrinda í framkvæmd löngu tekinni ákvörðun Alþingis Íslendinga um að kaupa björgunarþyrlu vefst mánuð eftir mánuð og ár eftir ár fyrir þessari hæstv. ríkisstjórn og reyndar er það orðið þannig

að það er yfir höfuð vandfundið það mál sem þeim tekst ekki að vefja upp í hnút. Mennirnir komast ekki einu sinni lengur til útlanda án þess að það verði að stórpólitísku deilumáli, annaðhvort vegna þess að þeir gleyma að talast við um þau ferðalög eða vegna þess að þeir gera eitthvað í útlöndum án samráðs við samstarfsmenn sína í hæstv. ríkisstjórn.
    Þetta er auðvitað yfirgengilegt, hæstv. forseti. Ríkisstjórn sem er svona á sig komin, eins og þessi, samanber búvörudeilur, þyrlukaupamál, rifrildi um utanlandsferðir og þessi endemis ósköp hér í sambandi við sjávarútvegsmálin á að sjá sóma sinn í því að segja af sér og fara frá. Hún er óstarfhæf og það hefur aldrei orðið ljósara heldur en einmitt þessa vordaga hér í þinginu. Í raun og veru er ekki haldið utan um nokkurn skapaðan hlut. Það er komið fram á þá sólarhringa þegar Alþingi átti að vera að ljúka störfum og það örlar ekki á viðleitni af hálfu verkstjórnarmeirihlutans hér til þess að ná eitthvað utan um þessi mál og semja um einhver eðlileg þinglok. Það örlar ekki á viðleitni til þess og allt er þetta með hreinum hörmungum.
    Þessi hrossakaupaprangmarkaður sem einkennt hefur öll störf á þessu sviði er auðvitað neðan við allar hellur, hæstv. forseti. Nóg er nú samt sem íslenskur sjávarútvegur og íslensk sjómannastétt og öll þessi grein þarf að glíma við þó að svona sé ekki á málum hennar haldið, að nánast jafnt hið minnsta sem hið stærsta verði að endemis klúðri og vandræðagangi í höndunum á hæstv. ríkisstjórn. Reyndar hefur gengið svo langt á köflum að hæstv. sjútvrh. hefur beinlínis verið afmunstraður og þá hefur það gjarnan verið talið henta að kalla viðkomandi mál ekki sjávarútvegsmál heldur byggðamál og verið sérstök aðferð þegar hæstv. forsrh. eða þeir í púkki, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., hafa þurft að ná sér niðri á hæstv. sjútvrh. að þá hafa skyndilega ólíklegustu mál sjávarútvegsins verið orðin að byggðamálum og eru þá meðhöndluð sem slík og tekin úr höndum sjútvrh. Það var t.d. um tíma niðurstaðan með endaleysuna um veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs.
    Eitt er alveg ljóst, hæstv. forseti, og það er að þessi vandræðagangur er auðvitað orðinn greininni mjög dýr, sjávarútveginum mjög dýr. Og ég leyfi mér að fullyrða að íslenskur sjávarútvegur hefur aldrei búið við annað eins harðræði af manna völdum eins og hann hefur gert á þessu kjörtímabili. Aldrei. Hvernig leið árið 1992 í málefnum íslensks sjávarútvegs? Það leið þannig á enda að ríkisstjórnin kom sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut sem sneri að málefnum sjávarútvegsins fyrir utan það eitt að á síðustu dögunum áður en þingið fór heim vorið 1992 mannaði hæstv. sjútvrh. sig upp í það, hvattur til þess af stjórnarandstöðunni, að flytja hér frv. um að tæma Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Það var það eina sem ríkisstjórnin kom sér saman um í málefnum sjávarútvegsins það ár, að tæma upp, þurrka upp allan skyldusparnað greinarinnar og nota hann til að halda sjávarútveginum á floti það ár. Út af fyrir sig má segja að það var betra en ekki neitt, það var betra heldur en að láta hann stöðvast. En það var auðvitað dýrkeypt að ekkert var gert til að laga skilyrði greinarinnar allt það ár og hann varð að lifa á því að éta upp þennan skyldusparnað sinn. Og hefði nú verið betra að eiga til að mynda venjulegar inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóði til að borga út eftir að afurðaverðið fór að falla, þegar það féll svo líka saman við minni veiðiheimildir á árinu 1993 og á þessu ári.
    Óþarfi er auðvitað að fara yfir það hér, það er mönnum í svo fersku minni, hvernig þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, klúðrið í þessum málum, kölluðu yfir greinina verkfallsátök í vetur og ollu þar stöðvun í allri greininni, að segja má, um margra vikna skeið. Sú deila var svo leyst eða öllu heldur ekki leyst heldur henni frestað með því gerræði að setja hér bráðabrigðalög á sjómenn nokkrum dögum áður en Alþingi átti að koma saman til starfa, jafnsmekklegt og það nú var. Nú eru málin í raun og veru í miklu verri hnút heldur en þau hefðu þurft að vera ef eðlilega hefði verið að þessu unnið.
    Og málflutningur hæstv. sjútvrh., eins og kom fram í dag --- og er nú í raun og veru alveg ótrúlegur dagur hjá hæstv. sjútvrh. því hann skaut svoleiðis á báða bóga að þeir fáu menn sem helst hafa tekið upp þykkjuna fyrir hann gerði hann umsvifalaust að óvinum sínum jafnharðan --- stór hluti af ræðu hæstv. sjútvrh. af einhverjum undarlegum ástæðum gekk út á það að ráðast á Framsfl. (Gripið fram í.) Já, það er svo aftur sérstök íþrótt hjá hæstv. sjútvrh. að ráðast mest á þá sem hann er sammála, það er hans mál. En það eru náttúrlega nokkur tíðindi af því að hæstv. sjútvrh. hefur gjarnan reynt að merkja sig því að vera í grófum dráttum sammála forvera sínum um þetta kvótakerfi og allt það, en engu að síður fór þetta nú svona hjá honum í dag.
    En hann skaut í fleiri áttir, hæstv. sjútvrh. Hann gerði hér harla lítið úr málflutningi hinna svokölluðu athafnamanna sem hafa verið að senda frá sér athugasemdir og áhyggjur af ýmsu sem þeir telja að verði áhrif af þessum breytingum sem nú eru lagðar til. Nú er ég ekki að gera þeirra málflutning að mínum, síður en svo. Ég tel reyndar að þeir gangi býsna langt í mati sínu eða túlkun sinni á líklegum áhrifum af þessu. En það breytir engu um það að mér fundust þau ummæli sem höfð voru um þessa forustumenn margra mikilvægustu sjávarútvegsfyrirtækja vítt og breitt um landið ekki mjög skynsamleg.
    Nú, samskipti hæstv. sjútvrh. við sjómenn þekkja menn. Hæstv. sjútvrh. er enn að klifa á því að það hafi ekki verið hægt að ræða við sjómenn af því að þeir hafi sett einhverja úrslitakosti og skilyrði þegar þeir neyddust til að standa upp frá samráðsborði eftir margra mánaða og missira árangurslausa setu þar inni þar sem ekkert var hlustað á þeirra kröfur. Og þá ber hæstv. sjútvrh., sem ber ábyrgð á þessum málum, það á borð fyrir okkur að það sé frambærileg frammistaða af æðsta manni þessa málaflokks að tala ekki við samtök sjómanna í meira en hálft ár, heldur láta allt fljóta sofandi að feigðarósi og enda í verkfalli. Auðvitað er þetta enginn málflutningur. Auðvitað getur enginn ábyrgur stjórnmálamaður látið svona, talað svona, að það sé afsökun fyrir því þó að mál hafi lent í hnút og menn hafi orðið ósáttir og staðið upp frá einhverju fundarborði að menn þurfi ekki með einhverjum hætti að brjóta odd af oflæti sínu og laða fram möguleika til þess að menn geti sest niður á nýjan leik og farið að tala saman. Það leysist engin deila öðruvísi. Það er auðvitað hægt að skjóta þeim á frest með lagasetningu og bráðabirgðalögum ef svo vel vill til að þingið er ekki starfandi, eins og þessi ríkisstjórn hefur verið gjörn á að gera. En það læknar ekki meinið að beita slíku ofbeldi.
    Og hvernig er svo staðan núna? Hvernig horfir með afgreiðslu þessara mála núna? Er það mjög gæfulegt? Lítur út fyrir mikla samstöðu á þingi og í þjóðfélaginu um lendinguna í þessum málum? Er hér að verða til sú heildstæða sjávarútvegsstefna sem stendur svo fallega um í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar? Er hér að verða til fiskvinnslustefna? Er hér að verða til fullvinnslustefna? Er hér að verða til einhver framtíðarsýn um þróun íslensks sjávarútvegs þegar komið er sem betur fer undir lok kjörtímabilsins og ríkisstjórnin ætti að vera að skila af sér uppskerunni í þessum málum, ef einhver væri? Nei, því er nú ekki aldeilis að heilsa, aldeilis ekki. Hér eru á ferðinni nokkrar uppálappanir eða plástrar, ef svo má að orði komast, á það kerfi sem sætt hefur mikilli gagnrýni og að mörgu leyti vaxandi á undanförnum missirum og það er síður en svo að það horfi til einhverrar meiri sáttar um þessi mál í þjóðfélaginu heldur en verið hefur.
    Auðvitað er það nánast orðin þjóðarógæfa á Íslandi hversu illa okkur hefur gengið að ná landi með sæmilega heildstæða stefnumörkun fyrir þennan undirstöðuatvinnuveg sem allir geta sæmilega sáttir við unað, útgerðarmenn, sjómenn, fiskvinnslufólk í landi, fiskvinnslan, byggðarlögin við sjávarsíðuna, sveitarfélögin og þjóðfélagið allt. En það er nú öðru nær. Í raun og veru er það að mínu mati fjær heldur en um langan aldur og líklega nokkru sinni að menn séu að ná landi hér með einhverja heildstæða stefnumörkun. Þannig er nú uppskeran eftir rétt tæpa, svo nemur einum eða tveimur sólarhringum, þriggja ára setu hæstv. ríkisstjórnar á stólunum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að draga það alveg sérstaklega fram hér að það er fólgin í þeirri niðurstöðu sem hér er verið að bera á borð fyrir okkur fullkomin og algjör uppgjöf gagnvart því verkefni sem ríkisstjórnin hafði sett sér og talað fagurlega um, að móta hér heildstæða stefnu sem tæki til allra meginþátta sjávarútvegsins, veiða, vinnslu og markaðsmála, eins og það er orðað ef ég man rétt, sem ég held að ég geri, í Viðeyjarkverinu og hvítu bókinni frá því um haustið 1991.
    Fyrsti minni hluti, sem ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson skipum, leyfir sér að lýsa af þessum sökum og með þessum rökum sem hér hafa verið flutt, fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir meðferð þessara mála. Þær umsagnir sem nefndinni, sjávarútvegsnefnd, hafa borist um þetta mál, bæði áður en breytingartillögurnar komu fram sem nú eru á dagskrá og eins eftir það, tala sínu skýra máli um það hversu víðs fjarri menn eru því að lenda hér einhverri heildstæðri stefnumörkun sem ánægja ríkir með. Og auðvitað er það átalið, sérstaklega af þeim hagsmunaaðilum sem hafa bundið vonir við það að til yrði með þessari endurskoðun einhvers konar heildarstefna sem tæki til vinnslunnar, til atvinnuöryggisins og þróunarinnar í greininni, að sjá þar nánast ekki neitt á blaði.
    Það eina sem segja mátti að fram kæmi í frumvörpum ríkisstjórnarinnar og gæti út af fyrir sig vísað til slíkrar áttar, og þó allt saman eftir því hvernig þar hefði til tekist og þróunin orðið, þ.e. heimild fiskvinnslustöðva til að eignast veiðiheimildir, er tekið út. Nú er það svo að það er í sjálfu sér ekkert sjálfgefið og einfalt mál að sjá fyrir um það hvernig það hefði þróast fyrir hönd vinnslunnar eða rekstursins í landi, en það var þó a.m.k. hægt að viðurkenna að í því gátu falist möguleikar sem hefðu hugsanlega getað þýtt ákveðna þróun og sterkari stöðu vinnslunnar í landi þegar frá leið. Og á það hefur til að mynda verið bent að í því sé ákveðið misræmi að vinnsla á sjó njóti í raun þess að geta átt veiðiheimildir en ekki hin sem í landi er, nema að sjálfsögðu í gegnum þau blönduðu fyrirtæki sem stunda hvort tveggja útgerð og fiskvinnslu, sem reyndar er stór hluti rekstrarins. En það breytir ekki hinu að réttarstaðan er þessi. En þessu er nú ekki að heilsa eins og kunnugt er.
    Í ljósi þess að í raun og veru hafa ekki skapast hér á Alþingi neinar aðstæður til þess að vinna að verkinu með þeim hætti, til að mynda að sjávarútvegsnefnd þingsins gæti lagt í það vinnu að reyna fyrir sitt leyti að móta einhverjar áherslur og ná samstöðu um hluti, þá er okkur í stjórnarandstöðunni auðvitað ekki boðnir aðrir kostir en þeir að taka með tiltölulega einföldum hætti á afgreiðslu þessara mála því við höfum haft fáeina sólarhringa til þess að bregðast við þeim kostum sem hrossakaup stjórnarflokkanna stilla okkur frammi fyrir, stilla þinginu og sjávarútvegsnefnd og a.m.k. stjórnarandstöðunni frammi fyrir. Og það er best að segja það alveg eins og það er, vegna þess að það er það sem liggur á borðinu, að í raun og veru hefur hér ekki verið boðið upp á neitt eiginlegt samstarf um að reyna að breyta þessum hlutum eða ná samkomulagi um málið. Það liggur fyrir að stjórnarflokkarnir hafa í sínum herbúðum með hrossakaupum komist að tiltekinni niðurstöðu sem hér á að ganga í gegnum þingið óbreytt og upp á annað er ekki boðið. Þannig liggur það. Auðvitað eru það ekki þau vinnubrögð sem skemmtilegt er að ástunda. Með því er ekki verið að segja að meiri hlutinn að sjálfsögðu ráði ekki út af fyrir sig sem slíkur niðurstöðu mála hér, en það eru ekki skemmtileg vinnubrögð þegar stórmál af þessu tagi, þar sem meira að segja í lögum er kveðið á um samráð við alla stjórnmálaflokka, eru unnin svona.
    Við í 1. minni hluta lýsum því í fyrsta lagi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir þessa stöðu og fyrir þessi vinnubrögð og leggjum svo að öðru leyti til eingöngu nokkrar grundvallarbreytingar sem undirstrika okkar áherslur gagnvart fáeinum mikilvægum atriðum þessa máls. Að öðru leyti munum við taka efnislega afstöðu til einstakra greina frv. og brtt. sem hér eru á ferðinni og afstaða okkar endurspeglast í því. Við munum að sjálfsögðu, þrátt fyrir að málið sé svona vaxið, styðja það sem við teljum til bóta í þessum breytingum eða frv. en eftir atvikum sitja hjá eða greiða atkvæði gegn öðru sem við teljum ekki ganga í rétta átt. Það má segja að það hefði verið nærtækt og að mörgu leyti rökréttast fyrir stjórnarandstöðuna við þær aðstæður sem henni er boðið upp á að vísa málinu frá sér og taka ekki þátt í afgreiðslu þess þegar svona er að hlutunum staðið. En eftir sem áður og þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir mikla óánægju okkar með það hvernig stjórnin stendur að málum þá munum við eftir sem áður taka efnislega afstöðu til einstakra þátta málsins. Við höfum ekki heldur ástundað það að tefja fyrir því að ríkisstjórnin kæmi þessum málum fram úr því að það er orðin hennar niðurstaða og hennar vilji að keyra þetta í gegn með þessum hætti sem raun ber vitni. Hversu mikið gæfuskref það er svo á hinn bóginn verður að koma í ljós og vissulega hefur maður þar efasemdir um ýmislegt.
    Fyrsta brtt. okkar, sem flutt er á þskj. 1113, er við 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Við teljum rétt í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í gegnum sívaxandi eignarréttarígildi veiðiheimildanna hjá handhöfum að undirstrika með enn skýrari hætti en áður hefur verið í lögunum sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávarins. Ef farið er yfir það mál, vegna þess að það þarf stundum að rifja það upp fyrir Alþfl. sem heldur að hann hafi fundið upp hjólið í þessum efnum, þá var það 1983 sem Alþb. flutti fyrst brtt. við frv. til laga um stjórn fiskveiða, sem þá hét víst öðru nafni, gott ef ekki veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, að koma skyldi inn ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Og svo merkilegt sem það nú er og ótrúlegt í dag að segja það þá var það ákvæði fellt í atkvæðagreiðslu í báðum deildum þingsins þann vetur. Þá var nú skilningurinn ekki meiri en svo á þessum áherslum okkar alþýðubandalagsmanna. En við gáfumst ekki upp og endurfluttum þetta ákvæði þegar frumvörpin voru hér til afgreiðslu á næstu tveimur til þremur árum. Síðan uppgötvaði Alþfl. að þetta væri skynsamlegt mál, gekk í lið með okkur og það smáfjölgaði í hópnum þangað til að þessi ákvæði komust inn í lög einhvern tíma um miðbik níunda áratugarins og voru svo reyndar styrkt enn frekar með breyttu orðalagi þegar frumvörpin voru til afgreiðslu hér á vordögum 1990.
    En með því að gera þarna enn betur og það er verið að bæta inn í þá setningu sem um þetta fjallar í lögunum um stjórn fiskveiða eftirfarandi setningu: ,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt, ígildi eignarréttar`` --- sem er nýtt --- ,,eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.`` --- Breytingin yrði þessi með ,,ígildi eignarréttar`` og með því viljum við auðvitað undirstrika það að hvorki eignarréttur í eiginlegum og stjórnarskrárvörðuðum skilningi, né ígildi hans í reynd, í praxís, né óafturkallanlegt forræði getur myndast hjá neinum einstökum aðila gagnvart þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Og ég vænti þess að þessi brtt. okkar njóti skilnings og stuðnings, og ef menn ekki bera gæfu til að samþykkja þetta núna þá muni menn væntanlega gera það fljótlega eins og raunin varð á með okkar tillöguflutningi í þessum efnum á níunda áratugnum.
    Í öðru lagi leggjum við til að við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Nú metur Fiskistofa það svo að áliðnu fiskveiðiári, veiðitímabili eða vertíð að ekki takist að veiða þann heildarafla tiltekinnar tegundar eða tegunda sem sjútvrh. hefur ákvarðað skv. 1. mgr. þessarar greinar þá skal ráðherra afnema aflamark þeirrar tegundar eða tegunda og gefa veiðar frjálsar á þeim tiltekið tímabil innan fiskveiðiársins eða til loka þess. Um slíkar ákvarðanir skal sjútvrh. hafa samráð við Hafrannsóknastofnun og þess gætt að afkomu viðkomandi stofna sé ekki stefnt í hættu. Ráðherra skal heimilt að afturkalla ákvörðun sína ef að mati Hafrannsóknastofnunar er útlit fyrir að veiðar verði meiri en að var stefnt með úthlutun aflamarks.``
    Þessi brtt. gengur sem sagt út á það að í raun verði til visst millistig milli þess ástands sem ríkir í dag, að sumar tegundir eru bundnar kvóta en aðrar ekki. Það verði sem sagt möguleiki að gefa frjálsar veiðar á tegund sem lotið hefur takmörkunum aflamarks ef til að mynda sú er orðin niðurstaðan að ár eftir ár er sá stofn ekki fullnýttur, það er minna veitt af honum en Hafrannsóknastofnun telur að óhætt sé að gera og ef það er jafnframt ljóst að ástæðan er ekki sú að ekki sé af nógu að taka. Ef þessar forsendur eru báðar uppfylltar þá spyrja menn sig eðlilega að því: Til hvers þá að viðhalda ár eftir ár kvóta í slíkri tegund? Nærtækasta dæmið er úthafsrækja, en flest undanfarin ár hefur aflamark á úthafsrækju ekki náðst. Líklega núna þrjú ár í röð vantar nokkuð upp á að svo hafi verið. Og þá vaknar eðlilega sú spurning: Hvers vegna þá að burðast með kvótann? Og er ekki a.m.k. óhætt, þegar eftir lifa kannski fáeinir mánuðir fiskveiðiársins og það er ljóst að stofninn er ekki fullnýttur og gefur ekki af sér þær tekjur inn í þjóðarbúið sem hann gæti gert vegna þess að af einhverjum ástæðum er ekki sótt í hann af þeim krafti sem til þarf, að hvetja til slíkrar sóknar með því að gefa veiðarnar frjálsar?
    Auðvitað er það svo að kvóti á tegundina er hamlandi í sjálfu sér gagnvart sókn í hana þegar þannig háttar til vegna þess að skip sem ekki hafa veiðiheimildir í viðkomandi tegund taka síður ákvörðun um að hverfa til slíkra veiða þegar það er vitað fyrir fram að þau þurfa að byrja á því að kaupa sér veiðiréttinn, t.d. fyrir 12, 15 eða 18 kr. kílóið eins og á við um rækjuveiðina. Þetta yrði að sjálfsögðu að metast eftir aðstæðum og fara eftir því hvað skynsamlegt væri talið í hverju tilviki. Ég er t.d. þeirrar skoðunar af því að það hefur verið til umræðu að gera þetta og m.a. þingmál á ferð í þinginu sem hnígur í

svipaða átt, gengur reyndar miklu lengra en hér er lagt til og nálgast málið með öðrum hætti, að það ætti að koma til skoðunar að fella niður, a.m.k. tímabundið, kvótann á úthafsrækju af því að sá kvóti hefur ekki náðst þrátt fyrir ágætt ástand stofnsins og nóga veiði. Með öðru orðum er ástæðan ekki sú að það hafi ekki veiðst vel af rækju hjá þeim sem hafa sótt í stofninn. En hluti af rækjukvótanum er hjá skipum sem alls ekkert hafa nýtt sér möguleika til rækjuveiða undanfarin ár og hafa alls ekki haft áhuga á því. Það eru til að mynda fjölmörg loðnuskip með rækjukvóta sem lítið eða ekkert hafa stundað þær veiðar. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að í því tilviki geti vel komið til greina að gefa kvótann frjálsan.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það væri ekki rétt að gera t.d. gagnvart ýsu þó að kvótinn þar hafi ekki heldur náðst líklega tvö eða þrjú ár í röð. Og hvers vegna ekki? Vegna þess að það er af öðrum ástæðum. Það er vegna þess að ýsan hefur hreinlega ekki veiðst. Þar vantar ekki sóknina. Og þá náttúrlega spyr maður sig að því: Eru það ekki akkúrat vísbendingar um að ef eitthvað er þá sé kvótinn of mikill og það þurfi að hlífa stofninum meira? Og þá gefa menn að sjálfsögðu ekki lausan kvótann og sleppa óheftri sókn á þann stofn, akkúrat þveröfugt. Þess vegna er það að mínu mati þannig að það getur verið skynsamlegt að hafa þetta milliúrræði í kerfinu. Hvers vegna er það t.d. sjálfgefið að það sé kvóti á ufsa en ekki á steinbít? Má ekki eitthvað á milli vera að það sé bara annaðhvort eða? Sumar tegundir séu innan aflamarks og þá skuli þær bara vera það um aldur og ævi hvort sem þörf er á því að takmarka sóknina í þær eða ekki, en aðrar séu þarna fyrir utan og frjálsar?
    Ég held að þetta gæti til að mynda þróast þannig að ef það nú er, sem margt bendir til, að vegna skilyrða í sjónum og e.t.v. því miður vegna þess að það er minna afrán á rækjunni vegna minni bolfiskgengdar á miðin, að rækjustofninn sé jafnvel í bullandi uppgangi áfram og það sé að þróast í þá átt að e.t.v. megi taka enn meiri rækju án þess að ganga of nærri stofninum heldur en gert hefur verið, samanber nýlega ákvörðun um að sulla út 7 þús. tonnum í viðbót bara sisona. Ég ætla hæstv. sjútvrh. ekki það ábyrgðarleysi að gera slíkt nema einhver rök standi fyrir því að það sé óhætt. Og væri þá ekki hægt að hugsa sér það að í apríl, maí, júní, þegar ljóst væri orðið t.d. á þessu eða næsta fiskveiðiári að rækjukvótinn mundi alls ekki klárast að þá væri sóknin einfaldlega gefin frjáls? Segjum nú sem svo að þetta gæfist vel og menn mundu taka inn 45 þús. tonn og Hafrannsóknin mundi segja: Þetta er allt í lagi, stofninn þolir þetta. Svo gerist það sama næsta ár að í maí eru menn ekki búnir að veiða nema 32 þús. tonn og þá segir Hafrannsóknastofnun: Það er óhætt að taka 15 þús. tonn í viðbót. Við skulum aftur sleppa kvótanum lausum. --- Og menn gera þetta kannski tvö til þrjú ár og það gengur vel. Hvert haldið þið að yrði þá framhaldið? Menn mundu að lokum segja: Nú heyrðu, það þarf ekki kvóta á þessa tegund. Að óbreyttu þarf þess ekki og hún má vera frjáls eins og steinbíturinn og skráplúran og hvað það nú heitir.
    Ég held að menn verði að varast það að festast þannig í viðjar kerfisins að kerfið fari að lifa af sjálfu sér hvort sem menn eru meira sannfærðir eða minna sannfærðir um ágæti aflamarksfyrirkomulags í sjálfu sér, og er ræðumaður í þeim hópi sem aldrei hefur tekið neina trú á það kerfi. Það hefur aldrei orðið að einhverri leiðsögn í lífi mínu að það skuli endilega og alltaf vera aflamark og það sé örugglega eina fyrirkomulagið sem geti gengið í þessum efnum. Hér tala stundum menn nánast eins og heilagir menn, að þeir hafi tekið nýja trú. Gott ef ekki síðasti ræðumaður, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, var svona nokkurn veginn í þessum trúaða hópi.
    Ég er ekki í þeim hópi. Ég hef frá upphafi séð bæði kost og löst á þessu kerfi og ég geri það enn þá. Það hefur marga góða eiginleika, það er rétt, en það hefur líka marga galla. Ég held að menn eigi að reyna þróa sig í burtu frá þessari kerfislægu nálgun og varast það að fara að líta þannig á þessi mál og lifa í þeim hugarheimi að kerfið sé farið að lifa af sjálfu sér. Því fyrir hvern er kerfið að lifa ef því er ár eftir ár viðhaldið á tegund sem reynslan hefur sýnt að er ekki þörf fyrir að takmarka sóknina í?
    Ég hef líka spurt mig sömu spurningar til að mynda um loðnuveiðarnar þó að það sé að vísu ljóst að framkvæmd kvótans gagnvart loðnuveiðunum hefur á margan hátt gengið betur heldur en í öðrum veiðum og líklega er það svo að menn hafi unað einna skást og verið hvað sáttastir við framkvæmdina þegar kemur að kvótanum í loðnu og síld og að nokkru leyti á sérveiðunum þar sem þetta hefur að mörgu leyti gengið allvel, til að mynda á innfjarðarækjunni. Ég held að það kerfi og það fyrirkomulag sem verið hefur á innfjarðarækju og hörpudiski hafi í heildina tekið gefist mjög vel enda er það nú svo merkilegt að það er einmitt eitt af því sem á að fara að eyðileggja núna með því að fella niður tengingu innfjarðarækjukvótans við löndunarstað, sem er að mínu mati hreint skemmdarverk gagnvart þó nokkrum byggðarlögum sem byggja á þeim réttindum, til dæmis Kópasker og Stykkishólmur, og er fullkomin ástæða til að ræða hér, hæstv. forseti, og væri þá skemmtilegra að hæstv. sjútvrh. héldist við í stólnum og í þingsalnum. Ég held að honum sé varla meiri vorkunn en til að mynda okkur nefndarmönnum í sjútvn. sem höfum lagt nótt við dag í bókstaflegri merkingu undanfarna sólarhringa til þess að vinna að þessum málum, eins og sjálfsagt má sjá og heyra á sumum okkar.
    Ég skýt því að í leiðinni af því það liggur vel við, stendur vel á spori eins og maðurinn sagði, að ég er algjörlega andvígur því sem sjútvrh. áformar að gera í sambandi við meðferð innfjarðarækjukvótans og reyndar hörpudisksveiðanna líka, að falla frá því að tengja þau réttindi við löndunarstað eins og gert hefur verið með innfjarðarækjuna og hörpudiskinn til að mynda. Ég veit ekki hvers þeir staðir eiga að gjalda sem hafa byggt sig upp við það fyrirkomulag. Það er oft sagt að það megi ekki raska högum manna með gerræðislegum og skyndilegum ákvörðunum í stjórnkerfinu og þess vegna þurfi það að vera til langs tíma

og það eigi að vera festa í þessu og stefnumörkun. Ég bið þá um það líka gagnvart stöðum eins og Kópaskeri og Stykkishólmi sem hafa byggt sig upp, fjárfest og skipulagt sín mál á grundvelli þess að þeir héldu þessum réttindum. Hvers eiga þeir að gjalda? Hvaða réttlæti er í því að rífa þau réttindi af þeim núna með einni gerræðislegri ákvörðun hæstv. ráðherra í reglugerð? Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. svari því hér við þessa umræðu hvað fyrir honum vakir með því og hvort hann er tilbúinn til að taka þau mál til endurskoðunar. Ég er til að mynda sannfærður um að þingmenn Norðurl. e. eru því fylgjandi, vonandi allir, a.m.k. sá sem hér talar, að það yrði gert vegna staðbundinna aðstæðna í okkar kjördæmi.
    Í brtt. á þskj. 1113, hæstv. forseti, er svo í þriðja lagi lagt til að við frv. bætist þrjú ný bráðabirgðaákvæði í stað þeirra sem meiri hlutinn reyndar leggur til að felld verði niður og eru þau svohljóðandi:
    Í fyrsta lagi bráðabirgðaákvæði I:
    ,,Bátum minni en 6 brl., sem hafa leyfi til veiða með aflamarki,`` --- þ.e. þeir smábátar sem völdu aflamark á sínum tíma --- ,,skal gefast kostur á að velja um að stunda veiðar með línu og handfærum.
    Skulu þeir sem þann kost velja sækja um slíkt leyfi til sjútvrn. fyrir 1. ágúst 1994. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að aflahlutdeild viðkomandi báts sé ekki minni en hún var á árinu 1990.
    Aflahlutdeild þeirra báta, sem þannig bætast við í hóp þeirra báta sem stunda veiðar með línu og handfærum, skal bætast við hinn sameiginlega heildarafla hópsins.``
    Þetta þýðir, hæstv. forseti, að við erum að leggja til að þeir smábátanna, báta undir 6 brl., sem völdu aflamarkið á sínum tíma og hafa síðan tekið á sig miklar skerðingar gefist nú kostur á að velja til baka enda gangi þeirra aflamark inn í pottinn. Hvers vegna er þetta lagt til? Jú, það er vegna þess að það er mikið réttlætismál að þessir bátar eigi þennan kost. Margir þeirra eru nú komnir í svo herfilega stöðu hafandi tekið á sig að fullu skerðingarnar undanfarið að möguleikar þeirra eru orðnir stórum minni en þeir væru ef þeir ættu kost á því að róa á krókaleyfisfyrirkomulagi. Það hlýtur að vera svo að það sé ósanngjarnt að mismuna innbyrðis þessum bátaflokkum. Og við í Alþb. erum fyrir okkar leyti tilbúnir til að styðja það að valið sé ekki í hina áttina, eins og lagt er reyndar til í breytingartillögum meiri hlutans, með öðrum orðum að það verði fallið frá því að leyfa mönnum að velja í hina áttina, að krókaleyfisbátar sem myndað hafa aflareynslu megi færast yfir á aflamark, eins og frv. gerir ráð fyrir, og mundum því styðja það fyrirkomulag að þetta yrði bara á þennan veginn.
    Landssamband smábátaeigenda er að mínu mati einnig tilbúið til að styðja það að þetta verði niðurstaðan og falla frá kröfum um að valið gangi í hina áttina. Og þá held ég að menn eigi að grípa það tækifæri vegna þess að þetta mun væntanlega þýða að langstærstur hluti þessa flota verður á einu og sama kerfinu. Því að mínu mati mundi talsverður hópur velja leiðina til baka og það er réttlætismál og sanngirnismál og einfaldar ef eitthvað er heldur stöðuna og veitir þá ekki af. Vegna þess að það er þannig að staða bátanna, smábátanna, bátanna á milli 6 og 10 tonn og næstu stærðarflokka þar fyrir ofan er kannski að öllu samanlögðu ljótasti hlutinn af því hvernig þessi mál hafa þróast. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að sá hópur sem farið hefur langverst út úr þessum skerðingum undanfarin ár og er í langverstri stöðu í dag eru minni bátar á aflamarki. Það eru bátar undir 6 tonnum sem völdu aflamarkið og eru núna kannski komnir niður í fáein tonn og algjörlega gjörsamlega ólífvænlega stöðu, miklu lakari en ef þeir mættu sækja á og sæta stjórnartakmörkunum. En það eru líka og ekkert síður bátar á milli 6 og 10 tonn og bátar sem eru 11 tonn eða 15 tonn eða 30 tonn og hafa sambærilega aflareynslu í þorski að langmestu leyti og hafa þar af leiðandi tekið á sig skerðingarnar með fullum þunga.
    Þegar kemur svo aftur upp í stærri stærðarflokkana, bátarnir orðnir 50--100 tonn eða þar yfir, þá vitum við að möguleikar þeirra aukast, möguleikar þeirra á því að sækja í aðrar tegundir, á dýpra vatn o.s.frv., möguleikar til úthafsrækjuveiða og annað þar fram eftir götunum. En sá hluti bátaflotans sem ekki hefur kvóta á einhverjum sérveiðum með bolfiskinum hefur ekki kvóta í innfjarðarækju eða humri eða öðru slíku heldur eingöngu bolfisk er að mínu mati í áberandi verstri stöðu. Það stingur gjörsamlega í augu að það skuli ekkert vera gert eða lagt til að gera til að lagfæra þeirra stöðu. Enda er stór hluti þessarar bátaútgerðar á útleið og það af henni sem tórir gerir það gjarnan fyrst og fremst út á það að geta frekar en ekki tekið þátt í að veiða að einhverju leyti veiðheimildir annarra og landa þeim á lægra verði til vinnslu.
    Hitt er svo annað mál og það skal fúslega viðurkennt að það er hægara sagt en gert og það er ekkert einfalt mál að finna formúlur til að lagfæra þessa stöðu. Auðvitað benda útgerðarmenn stærri skipa á það að allt sem gert sé til að lagfæra stöðu einhverra aðila eins og smábátanna sé á þeirra kostnað. En í allri sanngirni sagt þá er það þannig að möguleikar stærri skipanna eru allt aðrir til þess að bæta sér til að mynda að einhverju leyti upp skerðinguna í þorskveiðum með veiðum á öðrum tegundum. Trillur og bátar, minni bátar, fara ekki á Reykjaneshrygg til úthafskarfaveiða eða sækja djúprækju á Dohrn-banka eða annað því um líkt, það vitum við. En það geta stærri skipin gert og það rýmkar þeirra möguleika.
    Vissulega, hæstv. forseti, væri þess vegna ástæða til, og ég tek það skýrt fram að við teljum að það sé ástæða til að skoða fleira í þessum efnum, en við völdum þá leið að leggja hér til þessa einu brtt. af því að að okkar mati er hún svo nærtæk og sjálfsögð að ég hlýt að harma það alveg sérstaklega ef meiri hlutinn er ekki einu sinni tilbúinn til að skoða þetta atriði. Ég tel það mjög óskynsamlegt að menn skuli ekki nota tækifærið og reyna að ná þó aðeins meiri sáttum um þessi mál með því að gefa þennan kost. Við höfum tölur yfir það hversu margir gætu átt í hlut og það er ljóst að þetta er ekki neinn óskaplegur fjöldi

því að það hefur fækkað mjög í þessum útgerðarhópi á undanförnum árum. Mjög margir bátar hafa horfið úr rekstri, selt frá sér veiðiheimildir en þeir sem þarna þrauka enn þá eru í mjög erfiðri stöðu. Staðreyndin er sú, það er a.m.k. mitt mat, mín tilfinning, að í þeim hópi séu einmitt margir þeirra manna sem hafa haft útgerð smábáta að ævistarfi og höfðu stundað þennan atvinnuveg um langan aldur áður en nokkurt kvótakerfi og krókaleyfi komu til sögunnar. Og manni svíður að mörgu leyti sárast fyrir þeirra hönd, kannski fullorðinna smábátasjómanna sem gert hafa út sína báta um árabil, höfðu þolanlegt aflamark í upphafi þegar þeir stóðu frammi fyrir valinu sem þeir töldu nægja nokkurn veginn sér til framfæris en hafa núna mátt sæta skerðingunum ár eftir ár að fullu og eru í gjörsamlega óþolandi stöðu.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, er lagt til að ákvæði til bráðabirgða II hljóði svo:
    ,,Engum nýjum eða nýkeyptum skipum má veita leyfi til fullvinnslu sjávarafla innan íslenskrar efnahagslögsögu, sbr. lög nr. 54/1992,`` --- sem eru lög um fullvinnslu sjávarafla --- ,,frá gildistöku laga þessara og til sama tíma að ári liðnu nema þinglýstir samningar um kaup eða smíði hafi legið fyrir við gildistöku þessara laga.``
    Við leggjum það sem sagt til með þessari brtt. að það verði sett á frysting í eitt ár á meðan þessir hlutir eru að róast niður á nýjan leik eftir þessar breytingar og ekki verði veitt frekari leyfi um eins árs skeið til að bæta nýjum fullvinnsluskipum við íslenska flotann. Það óttast margir jafnvel enn eina holskeflu í þeim efnum í kjölfar þessara breytinga. Sumir hafa stór orð uppi um að þetta muni ýta mönnum í stórum stíl yfir í rekstur fullvinnsluskipa. Nú skal ég ekki leggja dóm á það hversu vel ígrundaðar eða rökstuddar slíkar fullyrðingar eru. Ég er í sjálfu sér ekki í þeim hópi sem sé beinlínis efni til stórfelldra breytinga endilega strax umfram það sem rekstraraðstæður og fyrirliggjandi aðstæður hafa í sjálfu sér kallað á. En eftir sem áður er það mikið áhyggjuefni hversu hratt vinnslan hefur verið að færast út á sjó undanfarin missiri í meiri grófvinnslu á hráefninu sem hefur leitt til minni verðmætasköpunar í heild fyrir þjóðarbúið að flestra dómi þó að afkoman hjá viðkomandi útgerðum geti að sjálfsögðu verið ágæt eftir atvikum. Út frá þeim forsendum sem við stöndum frammi fyrir gagnvart atvinnumálum og öðru slíku þá er það tvímælalaust óhagstætt að slík þróun eða holskefla ríði yfir.
    Við teljum að með því að skapa svona vissa ró um þessi mál í eitt ár á meðan hlutirnir eru að skýrast þá sé a.m.k. þeirri hættu afstýrt að nú verði enn ein kollsteypan og menn rjúki upp til handa og fóta, e.t.v. að einhverju leyti í vissum hugaræsingi þeirrar umræðu sem nú hefur stormað um þjóðfélagið og sjávarútveginn á síðustu sólarhringum, og fari að taka miklar ákvarðanir um að færa vinnsluna í enn stærri stíl á haf út.
    Nú er það svo og hefur lengi verið að rekstur vinnsluskipa og frystiskipa á fullan rétt á sér og á að vera hluti af þróun íslensks sjávarútvegs, en ég segi aðeins hluti. Og sú ógæfa má ekki henda okkur að fara að veðja eingöngu á þann þátt. Við eigum að varðveita og viðhalda fjölbreytninni í íslenskum sjávarútvegi. Reynslan hefur sýnt okkur aftur og aftur og aftur að það er fjölbreytnin, það er aðlögunarhæfnin og sveigjanleikinn sem er einhver verðmætasta eignin sem til er í íslenskum sjávarútvegi. Það eru möguleikar greinarinnar aftur og aftur og aftur til þess að bregðast við breyttum aðstæðum og aðlaga sig hratt að breytingum, hvort heldur er í sambandi við aflabrögð, verðlag eða annað því um líkt. Og hvers vegna hefur sjávarútvegurinn getað gert það? Það er vegna þess að hann er fjölbreyttur, hann er fjölþættur. Og hann hefur átt yfir að ráða fjölbreytilegum skipakosti og vinnslumöguleikum.
    Haldi sú þróun áfram á fullri ferð, sem verið hefur í gangi, um stóraukinn flutning og áframhaldandi aukinn flutning vinnslunnar út á haf þá er það ekki þróun í átt til meiri fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi heldur akkúrat öfugt. Það væri þróun til aukinnar einhæfni og það væri afturför að mínu mati. Rekstur stórra og öflugra frystiskipa og vinnsluskipa, sérstaklega í því skyni að sækja á fjarlægari mið og dýpra vatn er æskilegur og nauðsynlegur hluti af þróuninni og rekstrinum í íslenska sjávarútveginum en á aðeins að vera hluti hans. Og það eru stórfelldar hættur fólgnar í því að sú þróun gangi of langt og of hratt fyrir sig. Slíku viljum við spyrna gegn, m.a. með þessari tillögu.
    Í þriðja og síðasta lagi leggjum við svo til, hæstv. forseti, á þskj. 1113, í c-lið 3. tölul. brtt. að svofellt ákvæði til bráðabirgða III bætist við frv.:
    ,,Ráðherra skal með útgáfu reglugerðar heimila löndun á fiski utan kvóta og ákveða verð sem fyrir hann skal greiða.
    Skal við það miðað að útgerðir geti ekki hagnast á að gera sérstaklega út á slíkar veiðar en skaðist þó ekki á því að koma með aflann að landi.
    Fiskur, sem landað er samkvæmt þessari heimild, skal seldur hæstbjóðanda og mismunur þess verðs sem útgerðin fær til sín og þess verðs sem fæst fyrir fiskinn skal renna í Þyrlukaupasjóð Landhelgisgæslunnar.
    Verði það upplýst að afla sé fleygt fyrir borð skal útgerð viðkomandi skips sæta refsingu, sbr. ákvæði 19. gr., en missi veiðiheimilda ef um ítrekað brot er að ræða.``
    Í þessu ákvæði felst það, hæstv. forseti, að opnuð er leið fyrir menn til þess að koma með meðafla eða annan afla að landi sem þeir eiga ekki kvóta fyrir eða er utan kvóta án þess að þeim sé refsað fyrir það og nema síður sé. Þeir fái vissa þóknun sem svona gangi langleiðina til þess að duga til að bæta þeim beinan útlagðan kostnað sem því fylgir að hantéra aflann og koma með hann að landi en það endurgjald sé hins vegar það lágt að það borgi sig augljóslega ekki fyrir viðkomandi aðila að gera út með þeim

hætti. Samhliða þessu verði svo tekið upp pósitíft ákvæði sem banni það að fiski sé fleygt í sjóinn. Nú má segja að það sé kannski óbeint fyrir í lögum af því mönnum ber að koma með afla að landi og beint má reyndar segja. En hér er það sett fram í samhengi við þetta fyrirkomulag og tengt við refsiákvæði laganna þannig að ekkert fari á milli mála að um refsivert athæfi sé að ræða.
    Ég ætla að taka nærtækt dæmi sem ég þekki ágætlega af slóðum sem mér eru vel kunnar. Það er til að mynda meðafli sem gjarnan slæðist í net grásleppusjómanna. Algengur fiskur á grásleppuslóð er ufsi sem grunur leikur á að éti stundum grásleppuna eða sé að þvælast eitthvað í henni og snudda með henni og lendi þar af leiðandi af og til í netin. Ég þekki vel þess dæmi að grásleppusjómenn eru að vitja um net sín hlið við hlið á sömu slóð og dag eftir dag komi einn með hálft tonn af ufsa að landi en bátur sem liggur með net á sömu slóðum komi ekki með eitt einasta kíló sömu daga, dag eftir dag, viku eftir viku. Og hvers vegna er það? Það er þá vegna þess að annar báturinn á ufsakvóta en ekki hinn. Auðvitað verður að ræða um þessa hluti bara eins og þeir eru. Og þá er það þannig, því miður, að menn kannski eru ekki að standa í því að hafa fyrir því að kaupa sér ufsakvóta til þess að geta komið með hann að landi og leggja á sig það mas að hirða þennan fisk, sem er nú ekki borgað mjög hátt verð fyrir, þannig að hann fer í hafið.
    Þetta er svona. Og menn þekkja og vita um dæmi vítt og breitt um landið þar sem meðafla er hent o.s.frv. Það þýðir ekkert annað en tala um þessa hluti eins og þeir eru. Af þessu er gífurlegur óþrifnaður og þessu þarf að útrýma. Ég er alveg sannfærður um og það er okkar skoðun að fyrirkomulag af þessu tagi mundi vera mjög beitt vopn í þeim efnum. Í fyrsta lagi vegna þess að menn fengju greidda lágmarksþóknun fyrir það. Þeir skaðast þá ekki beinlínis á því að leggja þá vinnu á sig að hirða aflann. Í öðru lagi vegna þess að mismunurinn sem fengist fyrir það að fiskurinn væri seldur hæstbjóðanda og þess verðs sem væri hins vegar greitt til þess sem kemur með aflann að landi rynni til þarfra málefna í þágu sjómanna, til að mynda í þyrlukaupasjóðinn, eins og lagt er til og veitir víst ekki af að ýta við mönnum í þeim efnum.
    Þegar það væri svo í þriðja lagi tengt beint við að það væri refsivert athæfi að henda fiski í sjóinn og menn skyldu sæta sektum eða missi veiðiheimilda ef út af væri brugðið ítrekað þá held ég að til samans væri þarna komin býsna beitt aðgerð til þess að bæta ástandið í þessum efnum. Og ég segi alveg eins og er að ég á eftir að sjá framan í þá íslensku sjómenn sem vitandi af því að með því að henda tonni af ufsa í hafið væru þeir að ræna þyrlukaupasjóð 30 þúsund krónum, að þeir mundu gera það. Ég spái því að hugur þeirra standi til hins gagnstæða og auðvitað svíður öllum hugsandi mönnum það sem gerist á miðunum og við vitum af. Dæmið gæti litið þannig út að fyrir tonn af ufsa sem kæmi í net grásleppusjómanns á tveimur dögum, hálft tonn í hvort skipti, fengi hann segjum 10 þúsund krónur í þóknun fyrir að hirða þetta að landi. Síðan væri kannski annar kostnaður við að koma aflanum á markað eða leita tilboða í hann og selja hann 2 þúsund krónur og síðan fengjust á markaðnum 42 þúsund krónur. Þá drægjust tólf þúsund frá og eftir standa 30 og þau færu í þyrlukaupasjóðinn.
    Ætli það gæti ekki líka gerst að bátar sem eru t.d. á ýsuveiðum og eiga engan þorskkvóta lengur og landa viku eftir viku 20--50 tonnum af ýsu en engu einasta kílói af þorski færu af og til að koma með svolítið af þorski með? Er það ekki hugsanlegt ef svona fyrirkomulag væri tekið upp? Ég held að í öllu falli sé fullkomlega tilefni til og ástæða til að ræða um þessi mál og að mínu mati er það dapurlegt og mikil uppgjöf að í tillögum meiri hlutans og frv. eins og það liggur fyrir eru menn að loka alveg gjörsamlega augunum fyrir því sem á sér stað í þessum efnum og allir vita af og mikið er talað um og sennilega aldrei meira heldur en einmitt nú. ( VE: Það eru engar mælingar á því.) Ég þarf engar mælingar, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, enda er ekki hægt að mæla þetta. Ef þú mættir vera að því að vera hérna í salnum smástund þá er hægt að ræða þetta við þig. Hvernig í ósköpunum á að mæla það sem ekki er hægt að mæla eða vigta? Er það ekki dálítið snúið? Eða ætlar hæstv. sjútvrh. að manna hvern einasta kopp með eftirlitsmanni sem vigtar allt áður en það fer út um lúgurnar?
    Er það ekki þannig að það sé í öllu falli hægt að leiða að því mjög sterkar líkur að þegar ástandið í kvótamálunum er eins og það er núna þegar þorskurinn hefur dregist saman og menn eru að flýja hann unnvörpum á miðunum hringinn í kringum landið, baksast við að reyna að komast í ýsu, karfa, ufsa, grálúðu eða annað því um líkt og margir eru farnir að stunda sjó mánuðum saman án þess að eiga eitt einasta kíló af þorskkvóta --- og reyndar er þorskkvóti nánast ófáanlegur, hann fæst ekki frekar en glóandi gull og eru menn þó að bjóða fyrir hann upp í 72--75 kr. á kíló að mér er sagt núna --- sé viss hætta á því að hjá bátum sem eru við veiðar vítt og breitt um landið án þess að hafa þorskkvóta eigi sér stað óskemmtilegir hlutir í þessu sambandi? Ég óttast það.
    Ég hef ekki heyrt hvernig hæstv. sjútvrh. eða meiri hlutinn hugsar sér að reyna að taka á þessum málum á einn eða neinn hátt. Ég tel að með því ákvæði sem við þingmenn Alþb. erum að leggja til sé a.m.k. bent á leið og útfærð leið sem er sú langskásta og líklegasta til árangurs sem ég hef séð enn á prenti í þessum efnum. Vissulega hafa verið ýmsar fleiri hugmyndir og í frv. sem hér var lagt fram og flutt af ekki færri en 16 þingmönnum, og munar nú um minna, þar af 11 eða 12 stjórnarsinnum, er verið að hreyfa við sama máli þannig að ég veit að það er ekki þannig að stjórnarliðar viti ekki af þessu vandamáli eða hvað? A.m.k. þeir 12 sem fluttu frv. En var ekki hugmyndin þar sú að menn mættu koma með allt að 15% meðafla þó þeir hefðu ekki kvóta fyrir því? Einhvern veginn þannig minnir mig að það hafi verið. Og það er miklu groddalegri leið en í sjálfu sér er verið að leggja til hér.

    Ég hvet því til þess, hæstv. forseti, og vona að menn fáist til að skoða þessar hugmyndir í alvöru.
    Ég ætla svo að lokum að gera að umtalsefni fáein atriði í brtt. meiri hlutans og frv. eins og það liggur fyrir og ræða lítillega sérstaklega ein tvö, þrjú atriði og er ég þá að tala um brtt. á þskj. 1091 fluttar af meiri hluta sjútvn.
    Ég vil fyrst segja um þá tilhögun sem þar er lögð til í 1. tölulið um smábátana að ég tel þá útfærslu málsins nokkuð gallaða. Ég held að það sé mjög ólánlegt að lenda í því að búa í reynd til ákveðinn samkeppniskvóta innan þessara tímabila sem þarna eru upp sett. Mér er auðvitað ljóst að engin ein leið er einföld eða auðrötuð en ég óttast pínulítið það fyrirkomulag sem þarna er verið að setja upp. Og ég hefði sjálfur talið að langskynsamlegasta fyrirkomulagið í þessu væri það að setja þak á hvern og einn bát sem e.t.v. mætti vera eitthvað breytilegt og taka mið af stærð bátsins og láta síðan menn hafa tiltekinn fjölda sóknardaga sem meira svigrúm væri fyrir hendi til að velja en nú er og láta það síðan nokkuð ráðast af sókninni sem yrði breytileg milli ára hver útkoman og heildarveiðin yrði hjá þessum flota.
    Ég tel það vitleysu að láta krókaleyfisbáta ef því er að skipta hala inn á sig jafnvel 150--200 tonn. Það eru dæmi um krókaleyfisbáta sem nánast er róið á á vöktum, sótt af fullri hörku allt árið og við sjáum aflatölur upp á 100, 150, 200 tonn. Það er engin ástæða til þess að mínu mati að smábátur sem fékk leyfi til krókaveiða á sínum tíma geti farið svona langt upp í afla á sama tíma og sambærilegir bátar sem völdu aflamark eru að lepja dauðann úr skel og finnst varla nokkurt einasta dæmi orðið um bát sem hefur meira en fáeina tugi tonna í aflamark. Ég tel það vitleysu að menn skuli ekki hafa mannað sig upp í að setja þak. Og það er alveg borðleggjandi að staða krókaleyfisbáta sem mættu sækja segjum 50--80 tonn er orðin prýðilega lífvænleg og ágæt borið saman við allan þorrann af minni bátum á aflamarki. Ég býð upp á að ræða slíka hluti. Ef menn með því yrðu nú ásáttir um að þeir væru að takmarka talsvert líklegan heildarafla þessa hóps væri þá ekki á móti hægt að hafa sóknarreglurnar aftur rýmri? Ég held það.
    Staðreyndin er líka sú að það er mjög óréttlátt að hafa eina reglu fyrir þessa báta hringinn í kringum landið. Aðstæður smábátanna fyrir norðan og austan eru allt aðrar heldur en fyrir sunnan og vestan. Og staðreyndin er sú að útgerðarmenn smábáta fyrir sunnan og vestan vilja sjálfir breytt fyrirkomulag og velja aðra hluti heldur en smábátarnir annars staðar. Forsvarsmenn þeirra hafa m.a. komið því á framfæri við sjútvn. að þeir óski eftir því að fá að velja það sjálfir hvort þeir taka á sig tveggja mánaða stopp í desember og janúar eða yfir sumarmánuðina. Rök þeirra eru þau að á línuveiðum yfir vetrarmánuðina geti þeir náð ágætis árangri, t.d. við ýsuveiðar. Og þeir mundu þá alveg eins vilja leggja sínum bátum á sumrin og þá á auðvitað að leyfa mönnunum það. Það er borðleggjandi og augljóslega hagkvæmt að haga því þannig og það tryggir sókn í aðra stofna.
    Hvers vegna er þetta ekki gert? Af hverju er ekki tilboði af þessu tagi tekið? Hvers vegna í ósköpunum eru menn svo heillum horfnir í þessu að þeir ansi ekki einu sinni óskum um slíkar skynsamlegar lagfæringar sem menn biðja um sjálfir? Ég bið um rök. (Gripið fram í.) Það er ekki frambærilegt að segja bara: Stjórnarflokkarnir eru búnir að ná landi með hrossakaupum og það samkomulag er svo vakurt að við þorum ekki að breyta einu einasta atriði. Það er enginn málflutningur en það er það sem er verið að bera hér á borð. Það má ekki einu sinni opna á það að lagfæra sjálfsagða hluti af þessu tagi. Og auðvitað er hægt að sjá við slíku, hv. þm., frammíkallandi. Mér finnst það, hæstv. forseti, afar dapurlegt að menn skuli ekki einu sinni opna á úrræði af þessu tagi.
    Ég vil svo nefna næst 3. tölul. brtt. meiri hlutans til þess að taka undir hann. Ég held að það sé skynsamlegt að falla frá því að lækka geymsluheimildirnar milli ára úr 20 í 10% eins og áður var áformað. Ég held í öllu falli að það hafi verið óskynsamlegt að gera þetta í einu stökki þannig að menn þyrftu þá að veiða 110% af afla sínum á einu ári til þess að fara ekki illa út úr því. Það hefði e.t.v. komið frekar til álita að taka þetta í tveimur skrefum, niður í 15% fyrst og svo í 10 en að mörgu leyti held ég að það standi full efni til að hafa þessa heimild u.þ.b. þetta rúma, a.m.k. gagnvart langlífari tegundum.
    Um 5. tölul. þar sem er hin svonefnda og fræga 15% regla, vil ég segja þetta, hæstv. forseti, þó að ég hafi verið og sé stuðningsmaður þess að setja reglur um framsal og ég sé ekki feiminn við að í þeim reglum felist að einhverju leyti takmarkanir. Það hefur lengi verið skoðun okkar alþýðubandalagsmanna að að sjálfsögðu gætu menn sett um þetta reglur til þess að reyna að ná meiri sátt um framkvæmd stefnunnar á meðan menn þá búa við þetta fyrirkomulag aflamarks með framsali og það verður að vera þarna einhver hreyfanleiki, það er öllum ljóst, og með einum eða öðrum hætti þarf að koma honum fyrir. Sumir eru trúaðir á og heilaglega trúaðir á að það eina rétta í því sé frjálst framsal. Aðrir telja og benda á að fleiri hreyfanleikamöguleikar séu svo sem inni í myndinni en þeir. Þess vegna erum við jákvæðir gagnvart þeirri reglu, sem annars staðar kemur að um 50% nýtingarkröfu á hvert skip á sínum veiðiheimildum, en ég held að það orki mjög tvímælis að setja 15% regluna með þessum hætti sem þarna er gert. Í öllu falli segi ég: Hún á a.m.k. ekki að eiga við um loðnu- og síldveiðar. Þar á hún a.m.k. ekki að eiga við. Ég held að það sé ákaflega misráðið að láta hana taka til þeirra veiða eins og þær hafa þróast undanfarin ár. Mér er satt best að segja með öllu óskiljanlegt hvernig hæstv. sjútvrh. sér fyrir sér t.d. að síldveiðarnar gangi ef þessi regla verður svona fram sett. Ég held að það sé mjög kantað.
    Staðreyndin er náttúrlega sú að stór hluti síldarkvótans hefur undanfarin ár skipt um hendur af veiðitæknilegum ástæðum, ekki síst vegna þess að síldin hefur einfaldlega ekki náðst á minni báta. Hún hefur dýpkað þannig á sér að það eru fyrst og fremst stóru nótaskipin sem hafa getað náð henni. Og sum þeirra, skip eins og Húnaröst og Þórshamar, hafa í raun og veru haldið uppi síldarvinnslunni í heilum byggðarlögum og tryggt það, að því marki sem það hefur þó tekist að standa við sölusamninga á síld til manneldis, með því að veiða margfalda, margfalda síldarkvóta, veiða kannski upp í tíu kvóta. Og hvaða vit er þá í því að láta þetta gilda á þessu sviði a.m.k.? Ég tel að í sjálfu sér gegni talsvert öðru máli gagnvart bolfiskveiðunum og sérstaklega er það gagnvart þeim skipum sem eru með fjölbreytta samsetningu á veiðiheimildum. Þau hafa miklu rýmri möguleika gegnum jöfn skipti og annað því um líkt, en bátar sem eru sérhæfðari og þar sem tilflutningur hefur verið mikill geta augljóslega lent í miklu meiri vandræðum.
    Ég verð því að segja alveg eins og er að ég á afar erfitt með að ganga inn á það og styðja þessa reglu, ég tala nú ekki um ef hún á að ganga jafnframt yfir veiðar á loðnu og síld. Ég óskaði eftir því að að það yrði rætt og skoðað í sjútvn. hvort menn gætu sameinast um breytingu af þessu tagi en því var því miður ekki að heilsa frekar en öðru að það mætti skoða það. Er ég þó reyndar á því að ef nefndin hefði fengið til þess frið og haft til þess leyfi að þá hefði m.a. atriði af þessu tagi vel getað greitt fyrir meiri samstöðu um mál. Ég leyfi mér að slá því hér fram og þykist þá þekkja nokkuð inn á hug manna í þeim efnum. Nei, en þetta mátti ekki frekar en annað af því að hrossakaup stjórnarflokkanna gengu ekki út á þetta. Það hefur sennilega bara gleymst eða ekki verið munað eftir því, því mér er ekki kunnugt um í sjálfu sér til að mynda að sjómenn hafi gert sérstakar kröfur um að þetta tæki til þessara veiða. Sé svo þá væri fróðlegt að fá það fram.
    Þá vil ég nefna 6. tölul. brtt. Eins og ég sagði áðan þá erum við alþýðubandalagsmenn jákvæðir gagnvart honum. Við höfðum sjálfir í okkar röðum rætt um aðgerðir af þessu tagi. Ég held að það sé ekki ósanngjörn málamiðlun og niðurstaða að stýra málum í þann farveg að skipin veiði að meðaltali a.m.k. helming af sínum veiðiheimildum sjálf og menn aðlagi sig að þeim veruleika og þeirri framtíð í gegnum varanlegt framsal veiðiheimilda. Ef sú þróun er að verða að veiðiheimildasamsetning þeirra býður upp á minni nýtingu þá held ég að það sé ósköp einfaldlega eðlilegt að það gerist í gegnum það að menn stilli það af og aðlagi sig að því í gegnum skipti og varanlegt framsal. Hvort 50% er nákvæmlega rétta talan --- ég sé að hv. þm. Framsfl. eru að leggja til 40% og það má að sjálfsögðu ræða hvar menn eigi nákvæmlega að lenda. Ég bendi á að ýmsir, þar á meðal sjómenn, hafa rætt miklu hærri tölu, allt upp í 80%. En ég er í sjálfu sér ekki ósáttur við að þetta sé á þessum slóðum, nálægt helmingi.
    Sérstaklega vegna þess að síðan kemur í 7. tölul. ákvæði sem heimilar þeim skipum sem sækja veiðar út fyrir landhelgina frádrátt frá þessari nýtingarkröfu svo nemur 5% fyrir hvern heilan mánuð utan landhelgi við veiðar. Ég er fylgjandi þessari tillögu og tel að hún sé skynsamleg. Ég held að hún sé það fyrst og fremst vegna þess að hún hvetur til og ýtir undir að menn reyni að nýta sér möguleika utan landhelginnar og það er gott. Við þurfum á því að halda. Auðvitað fagna ég því að það skuli nú vera orðin stefna studd af meiri hlutanum eða hæstv. ríkisstjórn, en það hefði mátt ætla síðsumars í fyrra að annað væri upp á teningnum.
    Ég held að það sé alveg tvímælalaust rétt, a.m.k. til einhverra ára, að skip sem eru að sækja stórkostleg verðmæti á fjarlæg mið, dæmi Sunna frá Siglufirði á rækjumiðum á Flæmska hattinum undan ströndum Kanada, og eru stóran hluta ársins að veiðum utan landhelginnar, fái á meðan að geyma sinn veiðirétt hér heima. Enginn veit jú hversu varanlegir þessir möguleikar eru og hvernig þau mál þróast til frambúðar þannig að eðlilega væru menn ekki spenntir fyrir því að afsala sér réttindum sínum heima fyrir á þeim skipum sem á annað borð hafa hér veiðimöguleika og þá verða menn með einhverjum hætti að geta nýtt þær heimildir og til þess þurfa menn að geta fært þær á milli skipa. Ég tel eðlilegt að menn hafi þar af leiðandi svigrúm af þessu tagi. Ég held að það þurfi ekki og sé alveg gjörsamlega ástæðulaust að rökstyðja hversu mikilvægt það er okkur, hæstv. forseti, að þessir möguleikar séu nýttir.
    Þessi atriði vildi ég nefna og hef hlaupið mjög hratt yfir sögu, aðeins komið inn á nokkur þeirra atriða sem ég taldi sérstaka ástæðu til að fjalla um. Reyndar er hér eitt atriði enn sem ég nefndi lítillega í upphafi, þ.e. sú tillaga að fella niður heimildir fiskvinnslustöðva til að eiga veiðiheimildir sem mætti svo sem margt um segja. Það er alveg ljóst að það eru þeim vonbrigði sem bundu við það nokkrar vonir að í gegnum hana væri kannski að örla á einhverri fiskvinnslustefnu, einhverri stefnumörkun gagnvart vinnslunni, að þessu skuli þá vera kippt út. Á hinn bóginn er það ekkert einfalt eða sjálfgefið að sú þróun hefði orðið að þetta atriði sem slíkt hefði sérstaklega nýst vinnslunni og þróun í átt til frekari fullvinnslu sjávarafurða hér. Þó má vel gæla við þær hugmyndir.
    Ég hef undanfarin tvö ár eða svo bæði í ræðu og riti sett fram þær hugmyndir að það ætti að móta á Íslandi það sem ég hef kallað landvinnslufullvinnslustefnu og gengi út á það að að meðaltali væri ekki minna en 70% af aflanum unnin í landi og fullunnin eins og kostur er. Það væri ýtt undir og hvatt til slíkrar þróunar með ýmsum hætti, þess vegna með beinum stuðningsaðgerðum við frekari þróun í átt til fullvinnslu vörunnar hér heima. Hvers vegna skyldum við horfa upp á samkeppnisþjóðir okkar, eins og fiskveiðiþjóðir Evrópubandalagsins, dæla styrkjum í uppbyggingu sinnar fiskvinnslu og fullvinnslu í harðri samkeppni við okkur um hráefni gerandi bókstaflega ekki neitt hér heima til þess að styrkja stöðu landvinnslunnar og jafna hennar samkeppnisskilyrði en á því hefur ekki örlað.
    Þá er nú svo komið, hæstv. forseti, að ég hyggst fara að ljúka máli mínu og verð því satt best að segja nokkuð feginn að hafa lokið því erindi sem ég átti hingað í ræðustólinn, að mæla fyrir nál. 1. minni

hluta og gera grein fyrir þeim brtt. sem við flytjum, item það að ræða lítillega og fara yfir það sem ég kalla helstu atriðin í tillögum meiri hlutans og gagnrýna nokkuð það sem er gagnrýni vert. Það er því miður af miklu að taka þar og mætti nú margt og mikið um það segja svo sem til viðbótar því sem hér hefur verið sagt. En ég vænti að ég verði ekki alveg einn á ferðinni í þeirri sveit sem hefur ýmislegt að segja við stjórnarliðið, meiri hlutann og hæstv. sjútvrh., eins og staðið hefur verið að málum á þeim bæ. Svo er það einnig hugsanlegt að leið mín kunni að liggja í þennan ræðustól oftar í umræðunni.