Stjórn fiskveiða

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 23:46:28 (6787)


[23:46]
     Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi svo sannarlega að vinur minn og samþingsmaður, Vilhjálmur Egilsson, hefði rétt fyrir sér í þessum síðustu orðum. Svo sannarlega vildi ég það. Því miður verð ég að hryggja þingmanninn með því að svo mun ekki vera og ég ætla bara, vegna þess að við erum í andsvari, ég get talað um það síðar og mun gera það en ég ætla þó að biðja þig --- kvöldið mun ekki duga til þess, kæri félagi og vinur, --- að líta á það sem fylgir með nál. 2. minni hluta, biðja hv. þm. að lesa þetta, vita hvort hann kemst ekki að þeirri niðurstöðu að það er nánast enginn í öllum þessum bunka sem segir að hér sé verið að gera rétta hluti. Það er það alvarlega í málinu. Það er fólkið, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem lifir og starfar í þessari atvinnugrein sem við leituðum umsagnanna hjá.