Stjórn fiskveiða

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 23:47:58 (6788)


[23:47]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan biðja hv. þm. Stefán Guðmundsson, minn kæra vin og félaga og fótboltaspilara um mörg ár, að velta því aðeins fyrir sér af hverju sjómenn við Skagafjörð samþykktu að fara í verkfall í vetur. Á hvaða forsendum var það? Hafa sjómenn við Skagafjörð sem fóru í verkfall, illu heilli, dregið til baka umboð sitt til sjómannaforustunnar um stuðning við þær breytingar sem verið er að gera á löggjöfinni um stjórn fiskveiða og stuðning við þær tillögur sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram? Ég hygg ekki. En ég tel að það skipti ansi miklu máli að gera sér grein fyrir stöðu þess máls og gera sér grein fyrir því líka, hv. þm. og góði, kæri vinur og félagi, að það skiptir býsna miklu máli að sjómenn séu almennt sáttir við það stjórnkerfi sem við höfum á fiskveiðum og íslenskir sjómenn hafa það fram yfir marga aðra í heiminum að styðja hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi og það má segja þeim til hróss.