Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 10:54:05 (6812)


[10:54]
     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það er kannski ástæða til þess að velta því aðeins fyrir sér hvað liggur svo mikið á með þetta mál. Var ekki verið að tala hér um sjávarútvegsmál í alla nótt eða fram eftir nóttu? Það er dálítið skrýtið að það mál skuli ekki halda áfram. Er það ekki lengur á forgangslista ríkisstjórnarinnar að ljúka þessum sjávarútvegsmálum? Hvað liggur á að vera að taka þetta mál, Lyfjaverslun ríkisins, fram fyrir með þeim hætti sem hér er gert? Það er satt að segja alveg furðulegt. Það er eins og himinn og jörð muni farast ef ekki tekst að breyta þessum lögum um Lyfjaverslun ríkisins þannig að það megi selja helminginn af fyrirtækinu. Ég segi alveg eins og er að ég hef ekki skilning á því hvað það er sem rekur svona óskaplega á eftir þessu máli þegar vitað er að þetta er mjög umdeilt mál. Það hefur komið fram að bæði stjórnarandstaðan og fjölmargir fleiri aðilar hafa ýmislegt að athuga við þetta frv. og málsmeðferð alla og síðan hafa verið skrifaðar skýrslur og komið um það fréttir síðustu daga að ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir einkavæðingu. Það er nú það ljóta í málinu. Það er sú staðreynd sem blasir við að þessu fólki er ekki treystandi fyrir almannafé. Það er reyndar ekkert nýtt með Sjálfstfl. Hann fer yfirleitt illa með almannafé vegna þess að hann hefur þá stefnu að sanna það að ríkisrekstur og félagslegur rekstur borgi sig ekki og tekst það oft mjög vel með slugsi og sleifarlagi í ríkisrekstri.
    Fyrir nokkrum dögum birtist hér skýrsla frá Ríkisendurskoðun um sölu á Síldarverksmiðjum ríkisins, heitir skýrsla um sölu ríkisins á SR-mjöli, og þar er farið mjög rækilega yfir það hvernig staðið var að sölunni á SR-mjöli af hálfu Sjálfstfl. og Alþfl. Ég hlýt að fara aðeins yfir það mál á þessu stigi málsins þar sem uppi eru hugmyndir um það að ljúka afgreiðslu þessa frv. um Lyfjaverslun ríkisins núna fyrir lok þingsins.
    Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu varðandi söluna á SR-mjöli að þeim verklagsreglum sem samþykktar voru í ríkisstjórninni 12. okt. 1993 og fylgja skal við framkvæmd á einkavæðingu hafi ekki verið fylgt sem skyldi við undirbúning og sölu hlutabréfa í SR-mjöli. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi: Hvaða verklagsreglum hyggst hann fylgja við sölu á þessum hlut í Lyfjaverslun ríkisins? Hyggst hann taka tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á SR-mjöli? Hyggst hann fylgja þeim verklagsreglum sem samþykktar voru af ríkisstjórninni 12. okt. 1993 eða einhverjum öðrum verklagsreglum? Þessar verklagsreglur hafa svo mér sé kunnugt um ekki verið lagðar hér í þessari stofnun fyrir neina nefnd eða neinn aðila til að fjalla um, en það væri fróðlegt að vita hvaða reglum hæstv. ráðherra ætlar að fylgja.
    Í öðru lagi stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að að mati hennar hafi sú ráðgjöf sem stjórnvöld fengu við söluna ekki að öllu leyti verið eins vönduð og æskilegt hefði verið og þá vil ég spyrja hæstv. fjmrh. í öðru lagi: Hvaða ráðgjöf hyggst hann reyna að fá? Hvaða aðilar eru það sem hann hyggst leita til, ef hann fær þessa lagaheimild sem mér sýnist margt stefna í, varðandi sölu á Lyfjaverslun ríkisins? Hvernig hyggst hann tryggja það að sú ráðgjöf sem stjórnvöld fá við söluna á Lyfjaverslun ríkisins verði eins vönduð og æskilegt er? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta í þessari umræðu. Í greinargerð Ríkisendurskoðunar segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mikilvægasti þátturinn og sá vandasamasti við sölu á ríkisfyrirtæki er að jafnaði mat á virði þess. Ákvæði í verklagsreglum framkvæmdanefndar um einkavæðingu eru skýr og að flestu leyti ásættanleg hvað þetta varðar. Hins vegar telur Ríkisendurskoðun óviðunandi að fela eingöngu einum aðila að meta framtíðartekjuvirði fyrirtækisins.``
    Og þá ætla ég að spyrja hæstv. fjmrh. í þriðja lagi: Hyggst hann fela fleirum en einum aðila að meta framtíðartekjuvirði Lyfjaverslunar ríkisins eða ætlar hann að láta það nægja að fela það einkum aðila að meta framtíðartekjuvirði Lyfjaverslunar ríkisins? Síðan segir hér, með leyfi forseta: ,,Nauðsynlegt er einnig að eigandinn sjálfur eða annar á hans vegum geri til samanburðar slíka úttekt.`` Og svo segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Samanburður á mati tilboðsgjafa og framtíðartekjuvirði SR-mjöls hf. og mati VÍB bendir til að verðmæti fyrirtækisins hafi verið hærra en endanlegt kaupverð.``
    Hvað er verið að segja með þessu? Það er verið að segja það að með sölunni á SR-mjöli hafi verið staðið þannig að málum að það hafi verið hafðir af íslensku þjóðinni fjármunir. Það er verið að segja það að þjóðin verði að borga hærri skatta í framtíðinni vegna þess hve illa var staðið að málum af hálfu hæstv. núv. ríkisstjórnar. Það er náttúrlega dálítið umhugsunarefni að það skuli gerast með jafnafdrifaríkum hætti og hér er sýnt fram á í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar með sölu á SR-mjöli. Og það er náttúrlega ekki von að maður treysti vel fjmrh. eða flokksbræðrum hans þá til þess að standa fyrir sölu á félagslegum fyrirtækjum yfirleitt þegar reynslan af SR-mjöli liggur fyrir, þegar reynslan af SVR liggur fyrir hér í Reykjavík. Fleiri dæmi mætti nefna um vinnubrögð þessara manna á undanförnum árum sem hafa fyrst og fremst verið að þjóna ofstækisfyllstu viðhorfum hægri hluta Sjálfstfl. þar sem er hvorki skeytt um skömm né heiður. Það er bara selt hvað sem tautar og raular af því að þá verða menn útnefndir heiðursþingmenn Heimdallar á næsta aðalfundi hans eða eitthvað þaðan af betra sem er óskaplega mikilvægt eins og kunnugt er í skoðanakönnunum, eða hvað það nú heitir, í prófkjörum í Sjálfstfl. ef viðkomandi hefur verið útnefndur sérstakur þingmaður ársins í Heimdalli, en það eru jafnan þeir sem lengst ganga í hægri hyggjunni á hverjum tíma.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar stendur líka:
    ,,Ríkisendurskoðun telur það aðfinnsluvert að hvorki framkvæmdanefnd um einkavæðingu, söluhópurinn né VÍB sáu ástæðu til að gera skriflegan samning um þjónustu VÍB við söluna.``
    Þá vil ég í fjórða lagi spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann hafi hugsað sér að það verði gerður skriflegur samningur um þá þjónustu sem efnt verður til ef menn ætla sér að selja helminginn í Lyfjaverslun ríkisins. Eða ætlar hann að hafa sömu vinnubrögð og voru höfð við söluna á SR-mjöli og kalla yfir sig þá stórkostlegu gagnrýni sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar? Þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar er mjög ítarleg og vel rökstudd. Þar segir t.d. svo í niðurstöðunum, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisendurskoðun telur það hafa verið mjög óheppilegt að útboðsgögn hafi ekki legið fyrir þegar bréf VÍB frá 7. des. 1993, um þátttöku í útboði hlutabréfa í SR-mjöli hf., var sent þeim fjórtán aðilum sem gefið höfðu sig fram við VÍB með vísan til tilkynninga frá 17.--19. nóv. 1993 um að hlutabréfin væru þar til sölu. Að mati stofnunarinnar hefði átt að kynna þau skilyrði sem fram komu í nefndu bréfi strax í áberandi auglýsingu um útboð hlutabréfanna.
    Grunnupplýsingar um SR-mjöl hf. voru ekki veittar fyrr en við afhendingu útboðsgagna hinn 17. des. 1993. Að mati Ríkisendurskoðunar var óeðlilegt að setja þeim sem áhuga höfðu á kaupum þau skilyrði fyrir afhendingu útboðsgagnanna að þeir hefðu áður sýnt fram á fjárhagslegt bolmagn til kaupanna og rekstur fyrirtækisins, svo og . . .  ``
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti vill nú biðja hv. þm. að hafa í huga að það á eftir að ræða um þetta mál sem hv. þm. er aðallega að tala um, SR-mjöl, síðar í næstu viku, en að halda sig við dagskrármálið eins og mögulegt er sem er Lyfjaverslun ríkisins.)
    Ég þakka forseta fyrir þessa ábendingu. Ég ætla að halda áfram niður þessa málsgrein og síðan ætla ég að gera athugasemdir við athugaemd forseta. Með leyfi forseta:
    ,,Engu að síður má gagnrýna það að einn þeirra sem áhuga sýndi á hlutabréfunum, fékk útboðsgögnin afhent án þess að uppfylla nefnd skilyrði. Slíkt fól í sér mismunun gagnvart öðrum er áhuga höfðu sýnt á hlutabréfunum en þeim var ekki gefinn kostur á að kynna sér útboðsgögnin án þess að uppfylla skilyrðin.``
    Og að lokum segir hér: ,,Þegar á heildina er litið telur Ríkisendurskoðun að hvorugt tilboðanna í hlutabréf í SR-mjöli hf. hafi uppfyllt þau skilyrði sem sett höfðu verið í útboðsskilmálunum.``

    Hér er með öðrum orðum komin mjög ítarleg og nákvæm niðurstaða um það að þarna væri ekki rétt að málunum staðið. Þjóðin tapaði mörg hundruð milljónum e.t.v. á þeim vinnubrögðum sem þarna voru viðhöfð. Það er af þessari ástæðu, hæstv. forseti, sem ég taldi óhjákvæmilegt að draga þetta fram, að hér á líka að fara að selja ríkisfyrirtæki sem heitir Lyfjaverslun ríkisins og er hluti af heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Það er alveg óhjákvæmilegt að ræða þessi mál í samhengi og ég hefði út af fyrir sig kosið að 3. umr. um Lyfjaverslun ríkisins yrði haldið áfram eftir að menn hefðu rætt hér um söluna á SR-mjöli en ekki áður eins og ætlunin er að gera núna. Ég vil inna eftir því hvort það er virkilega ætlunin að ljúka afgreiðslunni á frv. um Lyfjaverslun ríkisins áður en skýrslan um SR-mjöl verður rædd. Og er það virkilega ætlunin að ljúka umræðunni um sölu á Áburðarverksmiðju ríkisins, sem er líka á dagskrá þessa fundar, hæstv. forseti, áður en umræðan um söluna á SR-mjöli fer fram? Er það virkilega meiningin að hæstv. forseti og forusta þingsins ætlist til þess að við samþykkjum hér orðalaust sölu á tveimur stórum og þýðingarmiklum ríkisfyrirtækjum á sama tíma og það er yfirvofandi umræða um stórfelld afglöp ríkisstjórnarinnar við söluna á SR-mjöli? Það gengur auðvitað ekki fyrir þingið að láta bjóða sér trakteringar af þessum toga þannig að ég er viss um að hæstv. forseti er mér sammála um að það er óhjákvæmilegt að víkja aðeins að sölunni á SR-mjöli í tengslum við hugmyndir um söluna á Lyfjaverslun ríkisins. Að það er sett á dagskrána á sama degi, 6. mál, Lyfjaverslun ríkisins, og svo aftur á sömu dagskrá 16. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins, þannig að á einum og sama fundinum 29. apríl 1994 er það á dagskrá hér á Alþingi Íslendinga að selja tvö stór og þýðingarmikil ríkisfyrirtæki á vegum sömu ríkisstjórnar sem skandalíseraði, með leyfi forseta, við söluna á SR-mjöli og allir viðurkenna, meira að segja ríkisstjórnin sjálf, og þeir eru heldur beygðir út af, a.m.k. óvenju lítið glenntir miðað við það sem maður á að venjast af þeim sumum. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst það mikil tilætlunarsemi af forustumönnum þingsins að ætlast til þess að maður uni því þegjandi og hljóðalaust að Lyfjaverslun ríkisins og Áburðarverksmiðja ríkisins séu seldar á einum og sama deginum á meðan yfirvofandi er umræðan um skýrsluna á SR-mjöli. --- Ég sé að hv. formaður landbn. bíður hér spenntur eftir því að komast í ræðustólinn til að selja Áburðarverksmiðjuna. Það er kannski næsta mál á dagskrá? Ég segi það alveg eins og er vegna þess að hér er hoppað á milli mála, þetta er fyrsta málið sem er tekið í dag, 6. málið, það verður kannski 16. málið næst og þannig koll af kolli af því að það liggur svo mikið á að selja ríkisfyrirtækin? Hvers lags eiginlega er þetta og hverjir eru þessir kaupendur allir? Er nóg til af peningum í þjóðfélaginu, hæstv. fjmrh., til að kaupa þessi ríkisfyrirtæki? ( Fjmrh.: Lyfjaverslunin er fyrsta málið . . .  ) Lyfjaverslunin er 6. málið á dagskránni í dag. ( Fjmrh.: Hv. þm. er ekki læs ef hann getur ekki lesið að fyrstu fimm málin eru bara atkvæðagreiðslur.) Hæstv. fjmrh. fullyrðir að þingmaðurinn sé ekki læs og það er misskilningur. Þingmaðurinn er einmitt mjög góður í lestri. Þingmaðurinn er mjög vanur að lesa og fékk mjög háar einkunnir í lestri strax í barnaskóla þannig að hæstv. fjmrh. er orðinn lasinn af óþolinmæði af því að hann langar svo til að fara að selja núna á eftir --- eina SR-sölu í viðbót og nú er það LR-salan á eftir --- að hann getur ekki setið kyrr og vænir þingmenn um að þeir séu ekki læsir. Ég held nú að það séu einhverjir aðrir þingmenn sem eru frekar illar læsir heldur en sá sem hér stendur. Ég segi það alveg eins og er. En það getur vel verið að það mætti bæta mína lestrarkunnáttu. Mér þætti vænt um að hæstv. fjmrh. tæki mig í tíma í þeim efnum. Ég held að ég gæti nú kennt honum ýmislegt líka þannig að ég frábið mér það að hæstv. fjmrh. sé að dunda við leiðbeiningar af þessari sort hér úr sínum stól. ( Fjmrh.: Mér sýndist ekki af veita.) Mér sýndist ekki af veita? Það er sérkennilega tekið til orða, verð ég að segja. Ég hélt nú frekar að honum heyrðist ekki af veita því að þetta var lestrarkunnáttan sem hæstv. fjmrh. var að ráðast á þingmanninn fyrir.
    ( Forseti (SalÞ) : Ég vil biðja menn að vera ekki að tala saman hér á milli stóla.)
    Mér þætti vænt um það, hæstv. forseti, ef hæstv. forseti beitti sér fyrir því að hæstv. fjmrh. blandaði sér ekki inn í lestrarkunnáttu þingmanna hér í ræðum af því að það heyrir undir menntmrh.
    ( Forseti (SalÞ) : Þetta á við um þá sem eru með frammíköll alveg eins og þá sem eru í ræðustól, að vera ekki að tala saman á milli stóla.)
    Það er greinilegt að hæstv. forseti hlífist við að veita hæstv. fjmrh. þá ofanígjöf sem hann á skilið því að hann er að blanda sér í þau mál sem eru á sviði hæstv. menntmrh., þ.e. lestrarkunnátta almennt kemur hæstv. fjmrh. ekkert við. Hæstv. fjmrh. á bara að sitja rólegur og bíða. Ég veit ekki betur en hann geti farið hér inn sem annar hver ræðumaður ef honum sýnist samkvæmt þingsköpum sem voru samþykkt hér fyrir ekki löngu.
    Það kann að vera að það sé biðröð eftir því að fá að kaupa hlutabréfin í LR-meðali hér núna eftir hádegið. Menn vilja endilega fara að kaupa hlutabréfin. Það verður fróðlegt að sjá skýrsluna, hæstv. forseti, frá Ríkisendurskoðun þegar kemur hér skýrsla til meðferðar um sölu á LR-meðali hingað inn eftir að búið verður að fara yfir það mál af Ríkisendurskoðun, ef þeir ætla að vinna svona eins og þeir gera, þetta lið. Það fer illa með almannafé. Það er vandinn.
    Ég lagði hér fyrir hæstv. fjmrh. nokkrar spurningar. Ég spurði hann að því hvort hann ætlaði að fylgja þeim verklagsreglum sem samþykktar voru í ríkisstjórninni 12. okt. 1993 um framkvæmd á einkavæðingu. Ég spurði hann að því. Ég spurði hann að því hvort hann ætlaði að tryggja það að ráðgjöfin sem hann fengi yrði vandaðri með hliðsjón af athugasemdum Ríkendurskoðunar. Ég spurði hann að því hvort hann ætlaði að fela fleirum en einum aðila að meta framtíðartekjuvirði fyrirtækisins. Og ég spurði hann að

því hvort hann hefði hugsað sér að standa þannig að málum að gerður yrði skriflegur samningur á milli þeirra aðila sem stæðu að þessum málum fyrir hans hönd þegar kæmi að því að selja hluta í LR, þ.e. Lyfjaverslun ríkisins, LR.
    Staðreyndin er sú að ég á alveg eins von á því að hæstv. fjmrh. svari öllum þessum spurningum með jái. Þar með er hann auðvitað að fella mjög þungan áfellisdóm yfir þeim sem stóðu að sölunni á SR-mjöli. Það verður mjög fróðlegt að heyra hvað hæstv. fjmrh. segir í ræðu sinni varðandi það hvernig hann hyggst haga sölunni á LR öðruvísi en henni var hagað á SR. Það verður mjög fróðlegt að fara yfir það hvernig hæstv. fjmrh. vill gera það. Og ég er alveg sannfærður um að hann er vís með að biðja um orðið til þess að segja um það nokkur vel valin orð, því að eins og kunnugt er þá getur hann talað alveg þindarlaust hér í allan dag sem annar hver maður.
    Ég held, með leyfi forseta að segja, að það verði að meta þetta mál með hliðsjón af sölunni á SR og þess vegna væri rétt að fresta þessu máli og eins sölunni á Áburðarverksmiðju ríkisins, sem nú á að fara að selja seinna á þessum fundi. Það eru tvö fyrirtæki sem á að klára í dag og selja. Hv. formaður landbn. er mættur --- ég veit ekki hvað varaformaður landbn. segir sem gengur nú í salinn, ég veit ekki hvort þeir eru sammála um söluna á Áburðarverksmiðju ríkisins. En það er greinilegt að þeir ætla að selja þessi tvö fyrirtæki í dag, þessir höfðingjar og vonandi spila þeir í takt á hljóðfærið þó það sé útlent, þegar þar að kemur. (Gripið fram í.) Gera það eins og kunnugt var. ( Gripið fram í: Hvaða fyrirtæki er verið að fjalla um?) --- það er verið að selja Lyfjaverslun ríkisins núna og Áburðarverksmiðju ríkisins seinna í dag og svo á að fara að ræða um söluna á SR-mjöli eftir nokkra daga, þannig að það er mikilvirkur heyskapur hér hjá einkavæðingarliðinu þessa sólarhringana eins og menn sjá, hæstv. forseti.
    Ég vil þá næst víkja aðeins að því sem gerst hefur síðan í þessu máli frá því að við töluðum saman síðast. Og áður en ég kem að því þá vildi ég spyrja hæstv. forseta: Er heilbrrh. hér í húsinu? Ég tel mjög æskilegt að hæstv. heilbrrh. verði kallaður til til þess að ræða um þetta mál vegna þess að þetta er lyfjaverslun og lyf eru, eins og kunnugt er, heilbrigðismál. Ég vil því beina því til hæstv. forseta að það verði gerðar ráðstafnir til þess að hæstv. heilbrrh. verði við í þessari umræðu því það er auðvitað mjög óþægilegt að ræða um sölu á Lyfjaverslun ríkisins án þess að heilbrrh. sé við vegna þess að þetta er fyrirtæki sem er heilbrigðismál. Mér sýnist einboðið að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. heilbrrh. verði kvaddur til þessarar umræðu og ég vænti þess að hæstv. forseti taki þeirri beiðni vel. Ég tel að það sé eiginlega nauðsynlegt að fá hann til þess að halda þessari umræðu áfram því að ég ætlaði að leggja fyrir hæstv. heilbrrh. fáeinar spurningar og ég óska eindregið eftir því að hann verði kallaður hér til fundar.
    Meðan ég bíð eftir hæstv. heilbrrh. ætla ég hins vegar að víkja aðeins að áliti minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 1121 sem hv. 18. þm. Reykv. gerði glögga grein fyrir áðan. Í því nál. kemur fram að þeir þingmenn sem þar um ræðir hafa ákveðið að leggja til, eins og segir hér í síðasta málslið, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Og í nál. þeirra segir, með leyfi forseta: ,,Undirritaðir nefndarmenn stóðu að afgreiðslu frumvarpsins ásamt öðrum nefndarmönnum og rituðu undir nefndarálit með fyrirvara. Við meðferð málsins í nefnd var komið til móts við sjónarmið þeirra nefndarmanna sem gagnrýndu hvernig staðið hefur verið að einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum og breytingartillaga lögð fram . . .  ``
    Síðan segir hér um snúningspunktinn í málinu miðað við það hvernig það stóð þá og hvernig það stendur núna:
    ,,Í nóvember sl. gaf fjármálaráðherra út yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga um viðræður ríkisins og BSRB um samskipti þessara aðila. Að mati BSRB áttu þær m.a. að ná til einkavæðingaráforma ríkisstjórnarinnar. Það dróst á langinn að viðræður hæfust en nú standa þær yfir og eru í góðum farvegi að mati forustumanna BSRB. Það er ljóst að sala eða breyting á ríkisfyrirtækjum hefur áhrif á stöðu og kjör ríkisstarfsmanna og því er í hæsta máta óeðlilegt að standa að frekari einkavæðingu meðan þessar viðræður eiga sér stað.`` --- Í hæsta máta óeðlilegt að standa að frekari einkavæðingu meðan þessar viðræður eiga sér stað. --- ,,Það varð reynslan af þeim breytingum sem átti að knýja í gegn hjá Strætisvögnum Reykjavíkur en sem kunnugt er var Reykjavíkuríhaldið neytt til að hætta við þau áform,`` segir svo hér eftir að bent hefur verið á að ríkisstarfsmenn óttast að fyrirhugaðar breytingar hafi í för með sér fækkun starfa, launalækkun og réttindamissi í kjölfar þess að fólk neyðist til að skipta um stéttarfélög.
    Síðan segja þingmennirnir, hæstv. forseti, sem er kannski sérstakt umhugsunarefni og væri ástæða til þess að láta reyna á með formlegum hætti hvernig svona mál standa, því þeir segja hér:
    ,,Fulltrúar þeirra stéttarfélaga, sem komu á fund nefndarinnar, fullyrtu að breytingar þær, sem felast í 3. gr. frumvarpsins og vísa til réttinda og skyldna opinberra starfsmanna, feli í sér stjórnarskrárbrot.``
    Mér finnst það satt að segja mjög athyglisvert sem hérna kemur fram, að fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem hér um ræðir hafi fullyrt á fundi nefndarinnar að þetta feli í sér stjórnarskrárbrot. Það eru nú ekki lítil tíðindi, hæstv. forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að leggja þá spurningu fyrir hæstv. fjmrh. í fimmta lagi: Hvernig svarar hann þessum ábendingum? Hvernig svarar hann þessum ábendingum sem fram koma hér um það að þessi vinnubrögð feli í sér stjórnarskrárbrot?
    Hér er bent á það í nál. hv. minni hluta efh.- og viðskn. að í undirbúningi séu málaferli vegna sambærilegra breytinga á réttindum starfsmanna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Og hér koma þau nú enn við sögu, hæstv. forseti, þannig að það er nokkuð langt gengið, verð ég að segja, að banna þingmanni að nefna Síldarverksmiðjur ríkisins hér í tengslum við þetta mál. Því að það stendur í nefndaráliti, án þess að neinn

hafi mótmælt því. Ég veit ekki til þess að skrifstofa Alþingis hafi gert athugasemdir við það að nefna Síldarverksmiðjur ríkisins hér í nefndaráliti. En í álitinu segir:
    ,,Þar er komin enn ein ástæðan til að fresta þessu máli. Rétt er að bíða niðurstöðu dómstóla, enda óþolandi að ríkið skuli sífellt standa í málaferlum við starfsmenn sína. Falli dómur ríkinu í óhag kann það að kosta ríkissjóð tugi milljóna síðar meir.``
    Hér er um að ræða mjög afdráttarlausa og skýra niðurstöðu og þess vegna fagna ég því að hv. þm. leggja hér til að málinu verði á þessum forsendum vísað til ríkisstjórnarinnar. Af því að hér sé um að ræða að mati forustumanna stéttarfélaganna stjórnarskrárbrot. Af því að í raun og veru stefni þetta samskiptum ríkisins og opinberra starfsmanna í verulega hættu. Og af því að reynslan af einkavæðingunni á vegum ríkisstjórnarinnar hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, eins og það er nefnt hér, með leyfi forseta, og hjá Sjálfstfl. hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, sú reynsla er ekki allt of góð. Þess vegna er það eðlilegt og full rök fyrir því að biðja um það að þessum málum verði frestað því að auðvitað liggur ekkert á. Út af fyrir sig geta menn verið þeirrar skoðunar að það eigi að einkavæða þetta og hitt en allt hefur nú sinn tíma, eins og þar stendur, og ég get ómögulega séð af hverju þessi ógnarasi er einmitt á þessu máli núna og því að selja Áburðarverksmiðjuna á sama tíma og það liggur fyrir að það eru hér á dagskrá þingsins fleiri tugir mála og Alþingi hefur hið mesta að starfa eins og vitað er.
    Það vekur einnig athygli mína, hæstv. forseti, í tengslum við þetta nál. að mér finnst vanta þar nöfn. Ég sakna þar vina í stað, verð ég að segja, undir þetta nál. Ég er út af fyrir sig ekki að gera neinar kröfur til þess að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sé mikið undir svona nál. En t.d. hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sem er framsóknarmaður, og hv. þm. Halldór Ásgrímsson sem er í nefndinni og hann er einnig framsóknarmaður. ( Gripið fram í: Löngu ljóst.) Og alllöngu ljóst. Og einmitt þess vegna eru menn þeim mun meira undrandi. ( Gripið fram í: Á hverju?) Á því að þessir hv. þm. skuli ekki leggja til að málinu skuli vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er dálítið sérkennilegt að Framsókn skuli slíta sig út úr fylgilagi við hina stjórnarandstöðuflokkana í máli af þessu tagi. ( Gripið fram í: Hverjir slitu sig út úr?) Ég lít þannig á að það sé Framsfl.
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)
    ( Gripið fram í: Þú verður að líta á forsöguna.) Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að fara aðeins yfir forsöguna í þessu máli. Hæstv. fjmrh. var að skjóta því hér inn í að ræðumaðurinn væri að tefja málið. Það er mikill misskilningur. Hérna er bara verið að ræða málin. En það er mjög skrýtið að hv. þm. Framsfl. skuli ekki verða samferða hinum stjórnarandstöðuflokkunum einmitt í þessu máli. Það er mjög athyglisvert. Ég tel að þeir hefðu auðvitað átt að taka tillit til þeirra ábendinga sem fram komu hjá stéttarfélögunum. Það er mjög merkilegt að Framsfl. skuli ekki verða samferða hinum stjórnarandstöðuflokkunum í þessu máli. Hvaða grundvallaratriði er það sem er svo mikilvægt í þessu máli að Framsfl. getur ekki orðið samferða stjórnarandstöðunni að öðru leyti? Hvaða þverhnípta bjarg er það sem Framsfl. leggur ekki í að klífa til þess að ná samstöðu með stjórnarandstöðuflokkunum að öðru leyti í máli af þessu tagi? Ég segi það eins og það er, virðulegi forseti, fram undan er eins og kunnugt er 1. maí og fæðingardagur Jónasar frá Hriflu þar af leiðandi um leið. Hvernig í ósköpunum stendur á því --- (Gripið fram í.) eldri en Framsókn --- hvernig í ósköpunum stendur á því að Framsfl. leggur ekki í það að klífa þennan þrítuga hamar og er svo hræddur við svarrandi brimið neðan við hamarinn --- eða hvað --- að hann þorir ekki að verða samferða hv. 18. þm. Reykv.? ( JGS: Ekki ertu að segja að hún sé að stökkva fyrir björg?) Nei, en hv. 18. þm. Reykv. er hins vegar alin upp, þingmaðurinn, í Vestmannaeyjum þar sem menn hafa sýnt meiri kjark í sigi og baráttu við kletta og náttúruöfl heldur en í ýmsum öðrum landshlutum þar sem kyrrara loft er og lygnara inn til dala heldur en tíðkast í hinum kröppu björgum Vestmannaeyinga. ( JGS: Það eru nú klettar þar.) Það er auðvitað ljóst að þar eru klettar, já, og ýmsir hafa auðvitað unnið mikil afrek í klettum, eins og hv. þm. bendir á, þó að frægastur maður í seinni tíð í þeim efnum sé Eggja-Grímur, sem hv. formaður Alþfl. hefur gert grein fyrir í ræðu og riti að undanförnu og hefur hins vegar (Gripið fram í.) ekki gert grein fyrir því, eins og hv. þm. veit, hvernig þau mál þróuðust nú öll saman og verður gerð grein fyrir því á öðrum vettvangi síðar þar sem mér tekst örugglega ekki að sanna það fyrir hæstv. forseta að Eggja-Grímur sé hluti af þessu máli, ekki kannski alveg beint.
    Hv. þm. Framsfl. töldu að þeir væru að ná hér fram miklum árangri í þessu máli og ég heyrði það --- ég held við 2. umr. málsins --- að það hefðu orðið miklar breytingar á frv. sem væru nú heldur til bóta. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef ekki þá tilfinningu að þessar breytingar breyti í raun og veru mjög miklu nema hvað það er talað um það að salan á þessu fyrirtæki muni aðeins ná til heilmings þess, alla vega í fyrstu umferð. En í síðsta málslið 4. gr. þessa frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Við sölu hlutabréfa skal þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja.`` Það hafa engar upplýsingar borist um það hvernig á að tryggja samkeppni á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja eftir að menn hafa selt Lyfjaverslun ríkisins. ( ÓÞÞ: Gefið Lyfjaverslun ríkisins.) Nákvæmlega, hæstv. forseti.
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)
    Nákvæmlega, hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Vestf. nefndi einmitt mjög mikilvægt atriði sem ég vil þakka honum sérstaklega fyrir og mér hafði láðst að nefna alveg sérstaklega. Hættan er auðvitað sú að þeir gefi Lyfjaverslun ríkisins. Það er nákvæmlega yfirvofandi því að eins og sást í SR-mjöli, með leyfi forseta, þá er þeim varla treystandi til þess, varla treystandi til þess að fara með sölu á ríkisfyrirtækjum, því að þeir vilja einlægt hyllast til þess að gefa þau ríkisfyrirtæki sem þeir í orði kveðnu er að selja. ( ÓÞÞ: X-D dugar ekki.) X-D dugar ekki, segir hv. þm. ( ÓÞÞ: Það verður að vera súper X-D.) Hv. þm. leggur mjög (Forseti hringir.) margt þarft til þessarar umræðu, hæstv. forseti.
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)
    Það er náttúrlega nokkuð athyglisvert með þessi frammíköll, hæstv. forseti, og spurning hvort þingmenn eiga ekki að hafa burði til að verja sig fyrir þeim sjálfir.
    Í ákvæði til bráðabirgða hygg ég að sé það atriði sem þeir nefndarmenn telja mestan sigur í þessu máli, einhverjir. Þar segir:
    ,,Ráðherra skal leggja fyrir Alþingi skýrslu um hvernig birgðahaldi fyrir Almannavarnir ríkisins, sem Lyfjaverslun ríkisins annaðist, verði háttað eftir stofnun hlutafélags skv. 1. gr. þannig að fullnægjandi öryggissjónarmiða sé gætt.``
    Ég vil spyrja, og spurði að því vi/ð 2. umr.: Hver leggur þessa skýrslu fram um birgðahald fyrir Almannavarnir á lyfjum? Er það hæstv. fjmrh.? Varla, því að Almannavarnir heyra ekki undir hann. Er það hæstv. dómsmrh.? Kannski, af því að Almannavarnir heyra undir dómsmrh. Eða er það hæstv. heilbrrh. af því að hann ber ábyrgð á heilbrigðismálum og þar með töldum lyfjamálum? Þegar þetta mál var rætt hér við 2. umr. þá kom það í ljós að hæstv. fjmrh. vissi ekkert um það hvernig þessu ætti að haga. Hann hafði ekkert hugsað fyrir því atriði, ekki gert sér neina grein fyrir því með hvaða hætti ætti að fara með þessa skýrslu og ekki einu sinni hver ætti að skrifa hana. Og ég vil einnig spyrja hæstv. heilbr. og trmrh. sem nú er kominn í salinn: Hver á að annast birgðahald samkvæmt þessu frv. ef það verður að lögum? En hér stendur:
    ,,Ráðherra skal leggja fyrir Alþingi skýrslu um hvernig birgðahaldi fyrir Almannavarnir ríkisins, sem Lyfjaverslun ríkisins annaðist, verði háttað eftir stofnun hlutafélags skv. 1. gr. þannig að fullnægjandi öryggissjónarmiða sé gætt.``
    Hver er þessi ráðherra? Er það fjmrh., sem fer með forræði þessara laga, sem er þó í raun og veru að selja sig út úr því? Er það dómsmrh., sem fer með málefni almannavarna? Eða er það heilbrrh., sem fer með lyfjamál? Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að koma í salinn og ætla þá að bæta við handa honum eins og einni spurningu varðandi þetta mál, vegna þess að ég tel að þetta mál hafi ákveðna skírskotun, ákveðna mikilvæga stöðu gagnvart heilbrigðiskerfinu í landinu. Salan á Lyfjaverslun ríkisins snertir heilbrigðismál. Lyf eru hluti af heilbrigðismálum. Það er alveg ómótmælanlegt. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh.: Óttast hann ekki að ríkið missi þetta fyrirtæki, Lyfjaverslun ríkisins, þannig að vaxandi einokun á þessu sviði sé yfirvofandi, af því að núna er það þannig að tilteknir einkaaðilar eru með yfirgnæfandi meiri hluta af lyfjamarkaðinum í sinni hendi? Ríkið hefur veitt þar örlitla samkeppni í gegnum Lyfjaverslun ríkisins og ég óttast að þessir hákarlar gleypi þennan hlut ríkisins sem verður falur í Lyfjaverslun ríkisins þannig að það verði ekki hægt að hafa það eftirlit með lyfjamarkaðinum sem Lyfjaverslun ríkisins gerir mögulegt fyrir hæstv. heilbrrh. eins og nú er og hæstv. heilbrrh. hefur staðið í ströngu við að fara í gegnum þingið með lyfjalög sem eru mjög umdeild. Sjálfstfl. er mjög í beyglu með að standa að þeim lögum, eins og kunnugt er. Það er aðallega vegna þess að lénsveldi apótekaranna verður skert og það er eini kosturinn við þetta frv., að öðru leyti er það talsvert gallað.
    En það er auðvitað nauðsynlegt fyrir hæstv. heilbrrh. að hafa mörg tæki í þessu máli. Í fyrsta lagi lyfjalögin, lyfjaverðlagið, almannatryggingarnar og hann getur líka beitt fyrir sig lyfjafyrirtækjum eins og Lyfjaverslun ríkisins, líkt og t.d. ríkið hefur um árabil rekið í gegnum Háskóla Íslands Lyfjaverslun Reykjavíkur hér úti, sem menn þekkja, auk þess sem lyfjaverðlagsnefnd hafði og hefur kannski enn samning við tiltekið apótek þar sem farið er yfir rekstrarkostnað einstakra þátta í smásöludreifingu lyfja. Ég held að það sé mjög hollt samkeppnisatriði og öryggisatriði fyrir heilbrigðisþjónustuna um leið að fyrirtæki af þessu tagi sé til eins og Lyfjaverslun ríkisins. Ég tel að það sé mikil eftirsjón af því fyrir hæstv. heilbrrh. sem vill taka niður lyfjaverðið. Mér þætti vænt um að hann gerði Alþingi grein fyrir því hvað hann hugsar sér að komi í staðinn fyrir þá möguleika sem Lyfjaverslun ríkisins óneitanlega skapar fyrir ráðuneytið til þess að halda uppi eftirliti með þessum lyfjamarkaði.
    Þetta eru náttúrlega engir smápeningar sem er verið að hleypa mönnum inn í hérna. Lyfjamarkaðurinn alls í landinu er talinn vera eitthvað um 5 milljarðar, ég heyrði að menn nefndu það fyrir nokkrum dögum hver á fætur öðrum. 5.000 millj. kr., þetta er stór markaður. Þar af utan sjúkrahúsa 4.300 millj. kr. Þetta eru gríðarlegir fjármunir. Það hefur auðvitað sést á þessu sérkennilega skrauti á öllum útsvarslistum sem apótekararnir hafa verið svo að segja allt í kringum landið, ekki úti á landi heldur einkum og sér í lagi í þéttbýlinu. Þetta hefur verið eftirsótt, þetta hefur skapað mönnum miklar tekjur og það þarf að hafa með þessu strangt eftirlit. Það er skylda heilbrrh. bæði af því að hann á að passa það að farið sé vel með peninga almennings og ekki síður vegna þess og náttúrlega fyrst og fremst vegna þess að hann á að passa það að heilsa almennings verði ekki fyrir skakkaföllum vegna þess að menn séu að gera sér veikindi fólks að féþúfu að einu eða öðru leyti.
    Þegar þessi mál komu til meðferðar fyrir nokkrum dögum þá spurði ég hæstv. fjmrh. að því hvort hann væri ekki tilbúinn til þess að fresta þessu máli og reyna að ná áður samkomulagi við opinbera starfsmenn. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., þá í sjötta lagi, það er mín sjötta spurning til hans: Hafa síðan farið fram

viðræður við opinbera starfsmenn eftir að 2. umr. um málið fór fram fyrir nokkru? Hvað kom fram í þeim viðræðum? Óttast hæstv. ráðherra ekki að það að keyra þetta mál í gegnum þingið verði til þess að spilla fyrir viðræðum fjmrn. og samtaka opinberra starfsmanna?
    Þegar 1. umr. um þetta mál fór fram sagði hæstv. fjmrh. líka að út af fyrir sig kæmi til greina að færa gildistímann fram í júlí eða september. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. af hverju er þá flutt brtt. um 1. júlí úr því að hann hafði nefnt september? Hvað er það sem hæstv. ráðherra óttast? Liggur svona mikið á að koma fyrirtækinu af höndum ríkisins? Er hann kannski með kaupanda á hendi? Liggur svona mikið á að losa sig við þetta fyrirtæki? Af hverju endilega 1. júlí? Af hverju ekki september eða jafnvel einhver síðari tími, af hverju ekki að geyma þetta bara til haustsins? Ljúka viðræðunum við opinbera starfsmenn og fara síðan í þetta mál þegar haustar á Alþingi ef ríkisstjórnin situr. Þá er auðvitað kannski komið að því sem mig grunar aðeins í sambandi við þetta mál að fjmrh. sé eins og fleiri farinn að gera sér grein fyrir því að það sé kannski ekkert mjög langt eftir hjá þessari ríkisstjórn og þess vegna sé vissara að hafa þetta 1. júlí. Það er öruggara að hafa þetta 1. júlí heldur en 1. sept. eins og nefnt var á dögunum. Er hæstv. fjmrh. virkilega svona hræddur um það að ríkisstjórnin fari að bresta? Það er auðvitað mjög algengt viðhorf, það má segja að það sé kannski blandið því að fólk vilji gjarnan að þessi stjórn fari að hætta. En er það svo að fjmrh. haldi að stjórnin fari að fara og þess vegna sé ekki við því að búast eða ekki rétt að draga það fram í september að selja þetta fyrirtæki.
    Ég vil sem sagt spyrja hæstv. ráðherra af hverju lendingin varð 1. júlí en ekki september, sem hefði þó verið dálítið annað því þá hefði verið hægt að halda viðræðunum áfram. Eða telur hæstv. fjmrh. sanngjarnt að samþykkja fyrst að selja fyrirtækið og ræða svo við opinbera starfsmenn? Finnst honum það sanngjarnt gagnvart opinberum starfsmönnum að byrja á því að selja fyrirtækið og ræða svo við fólkið á eftir um það hvað verður um þess kjör? Mér finnst þetta ekki sanngjarnt, ég segi alveg eins og er. Finnst hæstv. fjmrh. sanngjarnt að fara í málin með þeim hætti sem hann ætlar að gera með þessu móti? Ég tel þess vegna að út frá almennum sanngirnissjónarmiðum hefði verið eðlilegast að hinkra með þetta mál til haustsins.
    Út af fyrir sig leiðir þetta mál nokkuð hugann að hinum almennu rökum varðandi rekstur fyrirtækja. Hvernig á rekstur og eignarhald fyrirtækja að vera? Og þá held ég að það séu í raun og veru allir vaxnir upp úr því nema ef það væri einhver hluti Sjálfstfl. að hafa, mér liggur við að segja, trúarleg viðhorf í þessum málum. Fyrirtæki eiga að vera af ýmsum gerðum, stærðum og rekstrarformi. Það á ekki að skrifa það niður, hvorki í þessari ríkisstjórn né öðrum, nákvæmlega hvernig þessir hlutir eiga að vera. Það er auðvitað hugsanlegt að hafa þetta þannig, og ég tel að það sé skynsamlegast að hafa þetta þannig, að fyrirtækin og eignarhald þeirra ráðist af því hvað skynsamlegast og heppilegast er talið fyrir aðilana á viðkomandi svæði, hverjir svo sem það eru og það eigi ekki að búa til einhverja formúlu sem menn hanga á. Er það t.d. þannig að það sé skynsamlegt, þegar menn setjast inn í ríkisstjórn, að birta lista yfir öll ríkisfyrirtækin sem á að selja, segja markaðinum nákvæmlega að helst verði öll þessi fyrirtæki til sölu, sum þeirra jafnvel á hálfvirði eins og Búnaðarbankinn, án þess að undirbúa málin með skipulegum hætti áður, án þess að kanna markaðsaðstæður og án þess að gera sér grein fyrir því hvaða rök eru á bak við málið hjá hverju fyrirtæki fyrir sig. Það verður auðvitað að skoða hvert fyrirtæki fyrir sig. En einhver almenn yfirlýsing um einkavæðingu allra ríkisfyrirtækja er auðvitað algjörlega fráleit. Á sama hátt væri fráleitt að segja að það ætti t.d. að gera öll hlutafélög að sambandsfyrirtækjum. Það er algjörlega fráleitt. Og sem betur fer hafa þeir sem aðhyllast félagsleg sjónarmið í þjóðfélaginu fyrir löngu hrist af sér þessa kreddur sem eru uppivaðandi með öðrum formerkjum í Sjálfstfl., eina flokknum.
    Hv. 4. þm. Reykv. skrifaði fyrr á árum margar greinar og ágætar bækur um þessi mál. Á hverju byggðust þær greinar og á hverju byggðust þær bækur? Þær byggðust fyrst og fremst á því að það ætti að reyna að virkja fjöldann í þessum málum. Þær byggðust með öðrum orðum ekki aðeins á hagnaðarsjónarmiðum þeirra aðila sem ættu hlutabréfin, heldur byggðust þær á lýðræðislegum sjónarmiðum, lýðræðislegum forsendum, þ.e. fólkið sjálft ætti hluti í fyrirtækjunum og hefði þannig áhrif á rekstur þeirra með beinum hætti. ( GÁ: Auðstjórn almennings.) Hann kallaði þetta, hv. þm., auðstjórn almennings.
    Hér er hins vegar um að ræða viðhorf sem eru með allt öðrum hætti hjá hæstv. núv. ríkisstjórn. Fyrir nú utan það hvað það er í rauninni vitlaus efnahagsstjórn að ætla að bjarga hallanum á ríkissjóði með því að selja ríkisfyrirtækin nærri öll á sama tíma. Því um leið og menn selja þessi ríkisfyrirtæki öll á sama tíma þá eru menn auðvitað að upptaka þetta fjármagn þannig að það verður ekki notað í uppbyggingu í atvinnulífinu að öðru leyti á sama tíma. Menn nota þetta fjármagn ekki til þess að kaupa hlutabréf á tveimur stöðum í einu þannig að það er alveg ljóst að það fyrirtæki sem er bundið í sölu ríkisfyrirtækja, sem verið er að fara út í núna, það fjármagn verður ekki notað á nýjan leik til þess að efla atvinnulífið allt í kringum landið. Það er auðvitað einn aðalvandinn í núv. ríkisstjórn og hennar tíð og hvernig hún hefur haldið á málum að hún hefur lagt á það megináherslu að horfa á ríkisfjármálin sem snúningspunkt efnahagskerfisins en ekki atvinnulífið. Þess vegna er það sem menn hafa leyft sér það í núv. ríkisstjórn að hugsa hlutina þannig: tökum peninga út úr efnahags- og atvinnulífinu til ríkissjóðs, til þess að kaupa hlutafé, til þess að bjarga rekstrinum á ríkissjóði.
    Auðvitað snúa hlutirnir ekkert svona, hæstv. forseti. Auðvitað snúast hlutirnir ekki öðruvísi en þannig að það er atvinnulífið úti í þjóðfélaginu sem er grundvöllurinn undir því að það sé hægt að reka

ríkissjóð af viti. Hann liggur þar. Og þeir sem eru orðnir svo ríkistrúar af teknókratískum forsendum uppi í Arnarhvoli að þeir sjá ekkert nema ríkissjóð --- hvað gera þeir? Þeir vinda atvinnulífið, þeir vinda efnahags- og atvinnulífið þannig að þar verða ekki eftir fjármunir til þess að tryggja vinnu sem aftur getur tryggt ríkissjóð. Þessir menn eru læstir inni í þröngum hirslum Arnarhvols og sá ekkert út fyrir hann. Þessir menn sem sögðu einu sinni þegar þeir voru ungir ,,Báknið burt`` eru núna orðnir óafmáanlegur mosavaxinn hluti af kerfinu uppi í Arnarhvoli. Og það er stórhættulegt að halda hlutunum þannig til lengdar, það er stórhættulegt að ríkið sé snúningspunkturinn í efnahagslífinu í landinu. Atvinnuvegirnir, efnahagsreksturinn í heild, sveitarfélög og fyrirtæki af margvíslegum toga verða auðvitað að geta gengið með eðlilegum hætti. En að ætla sér að rífa þessa fjármuni, þessa aðila, inn í ríkissjóð á þann hátt sem hæstv. fjmrh. núv. ríkisstjórnar hefur reynt að gera, er fráleitt. En það er meira en fráleitt, hæstv. forseti, það er stórhættulegt. Vegna þess að ríkisstjórn sem situr of lengi, sem sér ekkert nema ríkissjóð, gengur frá atvinnulífinu að lokum. Og hvað ætli þessi þröngu ríkissjóðssjónarmið séu stór hluti af atvinnuleysinu á Íslandi í dag, þar sem eru 7.000 manns skráðir á atvinnuleysisskrá? Þar sem eru 3.000 í Reykjavík einni, í kjördæmi mínu og hæstv. fjmrh., á atvinnuleysisskrá á þessum vordögum.
    Þess vegna er það auðvitað þannig að út frá öllum venjulegum efnahagssjónarmiðum, burt séð frá því hvort það á að einkavæða fyrirtæki eða ekki, þá er áherslan vitlaus og það er kannski meginvandinn. Það er kannski meginvandinn að þessi ríkisstjórn hefur ekki séð neina lausn af neinu tagi í efnahagsmálum aðra en þá að einkavæða, selja, selja ríkisfyrirtæki, selja þjóðareign og skeytir þar hvorki um skömm né heiður og fær svo í hausinn skýrslur eins og þessa frá Ríkisendurskoðun um SR-mjöl á dögunum.
    Hér erum við auðvitað komin alveg að kjarnanum í þeim vanda sem núv. ríkisstjórn stendur frammi fyrir, þar sem þessi mosavöxnu kerfissjónarmið eru látin ráða í bland við hægra ofstækið í Sjálfstfl., einkavæðingarofstækið, um að það muni leysa alla hluti. Þannig er það ekki. Þess vegna er það auðvitað þannig, hæstv. forseti, að þessi sala á Lyfjaverslun ríkisins er fráleit.
    Ég mun styðja álit minni hluta efh.- og viðskn. og greiða því atkvæði þegar þar að kemur. Ég harma það ef þetta mál kemur til atkvæða áður en skýrslan um SR-mjöl verður rædd. Ég harma það ef frv. um sölu á Áburðarverksmiðju ríkisins kemur til umræðu áður en skýrslan um SR-mjöl verður rædd. Það er kolöfugt að hlutunum farið og ég skora á forsetann og forustu þingsins að halda þannig á málum að þessum málum ljúki ekki fyrr en skýrslan um SR-mjöl hefur verið rædd, því það er algjörlega fráleitt að setja hlutina saman með þessum hætti.
    Hæstv. forseti. Ég hef lagt hér einar sex spurningar fyrir hæstv. fjmrh., sem ég vænti að hann muni svara í þeim umræðum sem fram undan eru um þetta mál, en þeim er að sjálfsögðu ekki lokið, þannig að það megi kannski greiða úr málinu. Eðlilegast væri auðvitað að hæstv. fjmrh. tæki um það ákvörðun hér og nú að hætta þessu nuddi, láta þetta frv. bara liggja, því það er ekki til neins, það bjargar engu, það leysir ekki neitt, það er gagnrýnt, það er til bölvunar, opinberir starfsmenn segja að þetta frv. sé í raun og veru stjórnarskrárbrot. Það á að taka tíma í að skoða þetta mál, það liggur ekkert á. Og þessi einkavæðingarkeyrsla sem hér gengur yfir er ekki í þágu lands og þjóðar. Það er pínulítill hópur inni í Sjálfstfl. sem rekur trippin að því er þetta mál varðar, pínulítill hópur.
    Þegar upp er staðið þá vill það auðvitað oft verða þannig, hæstv. forseti, að þegar Sjálfstfl. er skoðaður niður í kjölinn þá talar hann fyrir mjög þrönga hagsmuni, þó mörgum ágætum þingmönnum hafi tekist ágætlega að breiða yfir það. Sjálfstfl. er hagsmunaflokkur fjármagnsins. Hann ætti að hafa kannski svona 5% vegna þess að þeir eru ekki fleiri auðkýfingarnir á Íslandi í mesta lagi. En honum hefur tekist að breiða yfir sitt innsta eðli og leggur sig fram í því og tekst það oft vel, stundum allt of vel. Það glyttir sjaldan í innsta eðli Sjálfstfl. með jafnskýrum hætti og einmitt í málum af þessu tagi. Til hvers? Er þetta fyrir sjúklinga? Er þetta fyrir ríkissjóð? Er þetta fyrir þjóðina? Er þetta fyrir atvinnulífið? Fyrir hverja er það, af hverju er verið að þessu? Nei, þetta er fyrir þrengstu hægri klíkuna í Sjálfstfl. og enga aðra. Hún er búin að fá alveg nóg, sú grúppa, með leyfi forseta, hér á seinni árum. Það er kominn tími til þess að hætta að mata hana á eignum þjóðarinnar eins og gert var þegar hún fékk SR-mjölið forðum. Það er kominn tími til þess að hætta slíkum vinnubrögðum og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. láti sér þessa ræðu að kenningu verða og hendi þessu frv., a.m.k. í sumar.