Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 11:59:00 (6817)


[11:59]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur hv. þm. Svavar Gestsson lýst yfir áhyggjum sínum yfir því ef til sölu

á Lyfjaverslun ríkisins kemur og áhrifum þeirrar sölu á verðmyndunarkerfi lyfja í landinu. Ég vil í fyrsta lagi benda á ákvæði 4. gr. laga í frv. þar sem þess er gætt og það tekið sérstaklega fram að þess skuli gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja ef til notkunar þessarar heimildar kemur.
    Það er alveg hárrétt sem fram kemur hjá hv. þm. að núverandi verðmyndunarkerfi lyfja í landinu er áhyggjuefni og þá ekki síst vegna þess að þar eru fáir aðilar sem hafa allt of mikil áhrif varðandi innflutning og dreifingu í heildsölu á lyfjum í landinu. Þess vegna er einmitt svo mikilvægt að frv. til lyfjalaga, sem hér hefur verið til umfjöllunar dögum saman og er á lokaspretti, fái hraða og góða afgreiðslu því það eru einmitt þau lög og það frv. sem tekur hressilega á þessu einokunarkerfi í verðmyndun og brýtur það upp. Í fyrsta lagi með samhliða innflutningi sem gefur þá nýjum aðilum kost á því að flytja inn lyf til landsins, væntanlega ódýrar en þekkst hefur og í annan stað með breyttri skipan nefndar sem ákveður hámarksverð, svokallaðri lyfjaverðsnefnd, sem tekur við hlutverki lyfjaverðlagsnefndar, sem að allt of stórum hluta til, að minni hyggju, hefur verið skipuð hagsmunaaðilum. Þess hefur gætt mjög verulega í störfum þeirrar nefndar sem birtist kannski hvað skýrast í því dæmi að það hefur tekið 14 mánuði að ná út úr álagningu lyfjaverðs afnámi aðstöðugjaldsins --- 14 mánuði og það tókst loksins um síðustu mánaðamót.
    Með öðrum orðum, lyfjaverðsnefnd mun þar koma til skjalanna og sinna sínu starfi með skilvirkum hætti, við breyttar aðstæður í lyfjadreifingu og lyfjainnflutningi. Þannig að það aukna frelsi og sú aukna samkeppni sem þar mun ráða ríkjum mun einmitt verða gagn og tól og tæki til þess að brjóta upp þessa einokun sem við deilum áhyggjum af, ég og hv. þm. Svavar Gestsson.