Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 12:01:06 (6819)



[12:01]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég er aðili að nál. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 1121. Undir það ritar ásamt mér hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, sem áðan gerði ítarlega grein fyrir okkar afstöðu í þessu máli í framsöguræðu. Sömuleiðis hefur hv. 9. þm. Reykv. flutt ítarlega ræðu og ég get þess vegna stytt mitt mál því undir flest af því sem þar kom fram, í þessum tveimur ræðum, tek ég.
    Ég gerði grein fyrir því við 2. umr. málsins að fyrirvari minn við málið lyti ekki síst að stöðu þess þáttar sem snýr að samskiptum ríkisins við opinbera starfsmenn og rakti það jafnframt að aðstæður hefðu breyst frá því að efh.- og viðskn. var um miðjan vetur að vinna að þessu máli og lauk reyndar umfjöllun sinni um það í febrúarmánuði sl. Það dróst síðan alllengi að málið kæmi á dagskrá og talsverðar breytingar hafa orðið á aðstæðum síðan þá. Ber þar auðvitað fyrst að nefna að þegar málið var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. voru gefnar vonir um það að samskipti ríkisins og opinberra starfsmanna væru að komast í friðvænlegra horf hvað þessi mál snertir og jafnvel lá í loftinu að hugsanlega kynnu að takast einhverjir samningar eða samkomulag milli þessara aðila um meðferð þessara starfsmannamála.
    Þá hafði komið á daginn og verið til umfjöllunar á næstliðnum mánuðum að í raun eru fjölmörg og viðkvæm samskiptamál sem upp koma milli ríkisins og starfsmanna þess eða hins opinbera og starfsmanna þess, hvort sem í hlut eiga ríki eða sveitarfélög, ef breytingar eru gerðar á fyrirtækjum af þessu tagi. Hið fræga SVR-mál hafði þá verið mjög til umfjöllunar og þar hafði komið á daginn að ekki einasta snúast þessi mál um biðlaunaréttinn og það ákvæði þessa frv. sem snýr að því að taka hann með sérstökum hætti af opinberum starfsmönnum sem þarna breyta um vinnuveitanda og færu að vinna hjá hlutafélagi, ef þetta gengur fram, heldur eru þarna líka á ferðinni mjög viðkvæm og vandasöm mál sem lúta að til að mynda aðild opinberra starfsmanna að stéttarfélögum og lúta að lífeyrisréttindum og meðferð þeirra mála og fleira mætti reyndar nefna.

    Nú hlýtur það að vekja nokkra furðu satt best að segja í ljósi þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ætlað sér að hafa það sem eitt af sínum meginverkefnum á kjörtímabilinu að einkavæða ríkisfyrirtæki. Hún hefur gengið fram undir hefðbundnum klassískum formerkjum einkavæðingarstefnu og er reyndar svo komið að ríkisstjórn Íslands og Ísland er nánast að verða síðasta vígi þessarar fordildar og kreddu sem gekk hér yfir eins og logi yfir akur, sérstaklega á 9. áratugnum.
    Nú eru menn löngu uppgefnir á því, hvort heldur eru íhaldsmenn í Bretlandi eða annars staðar, að selja mönnum einkavæðingu í sjálfu sér sem einhvert trúaratriði og lausnarorð og umræðan snýst meira um það í öðrum löndum hvaða mistök menn hafi gert í einkavæðingarmálunum, sérstaklega þar sem ofstæki bar menn ofurliði. Það er t.d. og hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með umræðum um þessi mál í Bretlandi undanfarin missiri þar sem ekkert síður íhaldssamir stjórnmálamenn heldur en aðrir taka þátt í umræðum um það hvernig það gerðist í Bretlandi að offorsið tók af mönnum völdum, ofstækið gekk út yfir öll takmörk þannig að menn lentu í þeim ógöngum á Bretlandi að einkavæða jafnvel fákeppnis- eða einokunarfyrirtæki, afhenda þau einkaaðilum, sem síðan hafa í skjóli einokunar- eða fákeppnisaðstöðu rakað til sín óheyrilegum gróða. Niðurstaðan er gjarnan sú að þjónustan hefur versnað og orðið dýrari, gróðasöfnun fárra eignaraðila hefur orðið gífurleg, launakjör nokkurra toppa í fyrirtækjunum hafa farið upp úr öllu valdi á sama tíma og þjarmað hefur verið að almennu starfsfólki og það svipt ýmsum réttindum.
    Þetta á til að mynda við um þá sorgarsögu sem er einkavæðing í Bretlandi á ýmsum veitustofnunum og að hluta til í samgöngugeiranum þar sem fyrirtækin eru nánast í einokunar- eða fákeppnisaðstöðu. Auðvitað þarf svo sem ekki mikla speki til að skilja eða átta sig á því að einkavæðing til að mynda vatnsveitu, sem er eini aðilinn sem á lagnir í viðkomandi borg eða byggðarlagi, afhending á slíkri aðstöðu yfir í hendur eignaaðila, samtímis því að lítið eða ekkert eftirlit er haft með verðlagningu og gæði þjónustunnar, kann ekki góðri lukku að stýra.
    Hitt er svo alveg ljóst að einkavæðing í öðrum tilvikum hefur gengið þokkalega og alveg átt fullan rétt á sér. Það er til að mynda athyglisvert að einkavæðing breska flugfélagsins hefur í raun og veru gengið vel, það fyrirtæki hefur blómstrað. Þannig var að vísu að þeirri einkavæðingu staðið að því var breytt í almenningshlutafélag og sett á markað í áföngum á alllöngum tíma og með tiltölulega skynsamlegum hætti að því staðið.
    Það var ástæða þess að við sem nú skipum minni hluta efh.- og viðskn. stóðum að nál. og brtt. við 2. umr., með fyrirvara þó, að við óumdeilanlega töldum þær breytingar sem verið var að gera á frv. til bóta og ganga til réttrar áttar. Þær voru og eru viðurkenning á því að málatilbúnaðurinn eins og hann var upphaflega lagður fyrir af hæstv. ríkisstjórn í upphaflegu frv. var auðvitað óskynsamlegur. En nú hefur því miður komið á daginn að það hefur ekki náðst sá árangur í samskiptum ríkisvaldsins við opinbera starfsmenn sem okkur voru gefnar vonir um að gæti gerst á sl. vetri og enn fremur hefur auðvitað komið á daginn að meðferð hæstv. ríkisstjórnar á þessum málum almennt er með þeim hætti að það er auðvitað ekki nokkur leið að bera hina minnstu ábyrgð á því. Stjórnarandstaðan, að mínu mati, a.m.k. við sem þennan minni hluta skipum, hljótum ósköp einfaldlega að frábiðja okkur slíkt. Og það er auðvitað hárrétt sem hér hefur komið fram að langeðlilegast væri að láta þessi mál nú liggja, hreyfa ekki frekar við þeim og reyna að koma þeim í einhvern eðlilegan farveg.
    Tvennt held ég að þar sé mikilvægast. Það fyrra snýr að því sem ég hef þegar nefnt, samskiptunum við starfsmenn. Og af því að það er komið í gang samráð og samtöl við samtök opinberra starfsmanna um þessi mál og það bíða mikil verkefni á því sviði ef menn ætla að ná landi með hluti eins og til að mynda flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna, sem er auðvitað náskylt mál því þá koma upp mörg sömu álitamálin sem varða réttindi starfsmanna sem eru þá að skipta um vinnuveitanda, að menn setjist frekar niður á réttum vettvangi með þessum aðilum og reyni að lenda þessum málum með samkomulagi og leggi í það vinnu.
    Ég fullyrði við hæstv. fjmrh. að hann gæti ekki varið tíma sínum og sinna starfsmanna betur í sumar heldur en að reyna að ná þarna niðurstöðu. Og þó að afgreiðsla á þessum frv. um Lyfjaverslun ríkisins, Áburðarverksmiðjuna eða eitthvað annað biði haustsins, þá væru það hreinir smámunir í samanburði við hitt ef hæstv. fjmrh. næði þeim árangri, leyfi ég mér að segja, að ná landi í samskiptunum við samtök opinberra starfsmanna um það hvernig með þessi mál skuli farið þegar breyting er að verða á eignarhaldi eða rekstrarformi fyrirtækis sem áður hefur verið hefðbundið ríkisfyrirtæki.
    Ég endurtek það sem ég hef áður sagt. Ég skil eiginlega ekki þann barnaskap og þá pólitísku glópsku, leyfi ég mér að segja, hæstv. forseti, að ætli menn sér að ná einhverjum árangri í þessum einkavæðingarmálum að þá skuli þeir ekki byrja á byrjuninni og reyna að tryggja sæmilegan frið og sæmilegt andrúmsloft í kringum þær breytingar með því að leita eftir og ná samningum við samtök opinberra starfsmanna um það hvernig þær breytingar ganga fyrir sig. Auðvitað átti að byrja á því. Ef hæstv. ríkisstjórn var nokkur alvara með það að hún vildi fara í víðtækar skipulagsbreytingar og einkavæðingu eins og það er kallað þá átti hún að sjálfsögðu að byrja á því að leggja vinnu í þetta atriði en ekki vera með málin í þeim farvegi sem nú er orðinn, að það séu bullandi málaferli og átök um einstaka þætti þessa máls. Það er auðvitað eins óskynsamlegt og ógæfulegt og nokkuð getur verið, enda er náttúrlega niðurstaðan að verða sú þegar einn dagur er eftir í þriggja ára starfsafmæli þessarar ríkisstjórnar að hún hefur sáralítið gert, sáralitlu komið fram, sem betur fer leyfir maður sér kannski að segja, í þessum einkavæðingarmálum. Og það

sem hún hefur gert er allt tómt klúður. Auðvitað er það þannig að sennilega er þjóðin og vonandi þingið einnig að verða búið að fá sig svo fullsatt af því hvernig að þessum málum hefur verið unnið að það verði nú ekki, að menn tommi nú ekki mikið með þessa vitleysu á næstu árum, enda er þetta að mínu mati ekki eitthvað sem þjóðin þarf sérstaklega á að halda að menn séu að eyða tíma sínum í.
    Hitt sem ég vildi nefna sérstaklega og gerir það að verkum að ég held að það sé ástæða til þess að staldra við er auðvitað ósköp einfaldlega það að í ljós hefur komið að vinnubrögðin og verklagið við þessar sölur, ef sölur skyldi kalla, eru náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Það vantar alveg gjörsamlega verklagsreglur og stefnu um það hvernig með þessi mál skuli farið og það er ekkert einkamál ríkisstjórnarinnar. Ég gef satt best að segja lítið fyrir einhverjar vinnureglur, innanbúðarreglur ríkisstjórnar, sem ríkisstjórnin setur sér og fer svo reyndar ekki eftir, samanber skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á SR-mjöli. Það er auðvitað Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið og ber í reynd ábyrgð á ,,forvöltun`` eigna ríkisins sem ætti að afgreiða hér lög um meðferð þessara mála. Í raun og veru er það orðið alveg ljóst að það vantar lög um sölu á eignum ríkisins sem þyrfti að setja. Ég mundi þá leyfa mér að leggja það til að það yrði skipuð nefnd allra þingflokka sem ynni að gerð slíks frv. í sumar vegna þess að það er alveg bersýnilegt að þarna þurfa að koma til skýr lagaákvæði. Öðruvísi verður ekki um þetta neinn friður.
    Það er manni nokkuð umhugsunarefni, hæstv. forseti, þegar maður skoðar það sem gerst hefur í þessum málum og er e.t.v. fram undan að menn eru með flóknar og miklar reglur um það hér á Alþingi og í lögum hvernig standa skuli að útgjöldum á vegum ríkisins. Það er mikið kerfi í gangi í sambandi við það. Það er fjárln., það er efh.- og viðskn., það eru alls konar endurskoðunarferli þar í gangi og reglur. En þegar kemur að hinni hliðinni, sem er auðvitað alveg jafnsjálfsögð, þ.e. hvernig með eignir ríkisins sé farið og sölu eða afhendingu á þeim, þá virðist þetta meira og minna vera allt saman í lausu lofti. Hvers vegna er fjárln. kófsveitt sitjandi yfir því vikur og mánuði að fara ofan í saumana á 50 þús. kr. hér og 100 þús. kr. þar, en svo sulla menn bara út heilum ríkisfyrirtækjum að verðmæti milljarða kr. eins og ekkert sé og það virðist ekki skipta neinu máli hvort fyrir þau fást 50 millj. eða 500. Er eitthvert samhengi í þessu? Ég segi nei. Það er alveg jafnmikilvægt að fara vel með fjármuni þegar menn eru að láta frá sér eignir eins og þegar menn eru að fara yfir útgjöld ríkisins. Af hverju er fjárln. þingsins til að mynda ekki látin fara jafnrækilega ofan í saumana á því hversu mikið verðmæti menn þurfa að fá fyrir einhverjar eignir ríkisins til að það sé rétt að selja þær, eins og hún er látið puða og puða og puða vikum saman yfir einhverjum 50 þús. kr. í framkvæmd hér eða útgjöld þar?
    Það er náttúrlega ekki nokkur glóra í þessu og allra síst þegar í landinu situr ríkisstjórn sem er ber að þvílíku ábyrgðarleysi að hún er jafnvel tilbúin til að selja verðmætar eignir ríkisins á hálfvirði bara til að þjóna þeirri lund sinni að selja.
    Hæstv. forseti. Ég hef svo ekki miklu við það að bæta sem ég var búinn að segja við fyrri umræður um þetta tiltekna mál, breytingarnar á Lyfjaverslun ríkisins. Ég varaði þar við ýmsu sem í því máli liggur og ég held að það sé að mörgu leyti afar mikið álitamál hvort ríkið á yfir höfuð nokkuð að vera að draga sig út úr þessum atvinnurekstri. Staðreyndin er sú að aðstæður á okkar lyfjamarkaði eru manni nokkurt umhugsunarefni. Hér er eitt mjög stórt og sterkt fyrirtæki sem út af fyrir sig er góðra gjalda vert, en því fylgir sú staða að það er tiltölulega drottnandi á hinum íslenska lyfjamarkaði, líklega með milli 60 og 70% markaðshlutdeild. Samkvæmt öllum reglum og lögum sem ég hef farið yfir í sambandi við samkeppnismál þá er enginn vafi á því að slík staða er alls staðar á byggðu bóli, nema þá á Íslandi, skilgreind sem markaðsráðandi staða. Í bresku samkeppnislögunum er fyrirtæki talið markaðsráðandi ef það nær meira en 33% hlutdeild af markaðinum í sínar hendur, jafnvel þó það keppi við allmörg minni fyrirtæki, ósköp einfaldlega vegna þess að þar er sagt: Fyrirtæki sem er orðið með það sterka stöðu á markaðinum, það hefur orðið þvílíka möguleika til að stýra honum beint eða óbeint í sína þágu, að menn verða að setja fyrirvara á gagnvart því að eðlileg samkeppni ríki.
    Það er því auðvitað ljóst að á íslenska lyfjamarkaðinum ríkir fákeppnisástand, hreint fákeppnisástand ef ekki einokunarástand. Þá spyr maður sig að því: Er það þá skynsamlegt út frá samkeppnissjónarmiðum, verðlagningarsjónarmiðum og út frá heilbrigðispólitík í landinu, að ríkið hætti þátttöku í þessum rekstri og dragi sig út af markaðinum að þessu litla leyti sem það hefur verið þarna gerandi í málum? Ég hef um það mjög miklar efasemdir. Ég minni líka á að á bak við liggja viðkvæmir hagsmunir svo sem þeir sem lúta að birgðahaldi lyfja í tengslum við almannavarnir í landinu og framleiðslu dreypilyfja fyrir sjúkrahús, en Lyfjaverslun ríkisins er eins og kunnugt er eini framleiðandi slíkra lyfja hér í landinu.
    Ég óttast líka að jafnvel þó svo færi nú að ríkið fengi gott verð fyrir þetta fyrirtæki og tapaði ekki á því að selja það sem slíkt og menn gætu farið að leika sér með tölur og reikna söluandvirðið og vexti af því o.s.frv., þá óttast ég að ríkið gæti lent í útgjöldum á móti sem yrðu jafnvel alveg þung í skauti. Til að mynda í gegnum það að það jákvæða samstarf sem Lyfjaverslun ríkisins og sjúkrahúsin í landinu hafa átt með sér og enginn vafi er á að hefur verið hagstæður báðum aðilum, þá ekki síður sjúkrahúsunum, til að mynda gert þeim kleift að halda minna af birgðum í lyfjum en þau ella hefðu þurft, þessar breytingar geta auðvitað kostað ríkið útgjöld hinum megin. Menn verða að horfa á svona hluti í heild og skoða alla myndina ef þeir ætla að fá einhvern botn í málið.
    Hæstv. forseti. Að lokum ítreka ég þær óskir sem hér hafa komið fram að ríkisstjórnin taki sönsum í þessu málum, að hún falli frá áformum um að pína þessi mál í gegn á þessu vori, þ.e. Lyfjaverslun ríkisins og Áburðaverskmiðjuna og önnur slík, ef þau skyldu vera fleiri. Við höfum alveg nóg með tíma okkar að gera þessa síðustu sólarhringa sem vonandi lifa eftir af þinghaldinu, því ætlunin hefur verið að ljúka því á skikkanlegum tíma fyrir sveitarstjórnarkosningar. Ég leyfi mér að fullyrða að það eru flest mál brýnni á þinginu og liggur meira á að þau séu afgreidd heldur en þetta. Við ættum að einbeita okkur að því að taka á dagskrá og ræða mikilvægustu málin sem þurfa að ná afgreiðslu en láta hluti af þessu tagi, sem með öllu er ástæðulaust að vera að þvinga fram og í raun beinlínis skaðlegt að mínu mati og óskynsamlegt upp á stöðu mála, taka hér upp tíma okkar.
    Ég veit svo sem ekki hvaða þýðingu það hefur að beina slíkum orðum til hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstjórnar eða hæstv. forseta þess vegna, sem hlýtur náttúrlega að vera nokkuð hugsi yfir framgangi mála í þinghaldinu síðustu sólarhringana. Ég leyfi mér nú samt að gera það og ítreka þær óskir og þau tilmæli sem fram hafa komið um þetta atriði í góðri trú, í þeirri von að menn séu hér þrátt fyrir allt að ræðast við með rökum og hlusta á málflutning hvers annars. Það er í raun og veru ekkert nema þrjóska og einber þrjóska að vera að nudda með þessi mál áfram hér.