Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 12:56:09 (6827)


[12:56]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Því miður er það svo að þegar menn láta í ljós álit sitt á hlutum, gerðum, niðurstöðum og málefnum þá hefur það misjafnt vægi af ýmsum ástæðum. Það hefur mjög mikið vægi sem hæstv. fjmrh. landsins segir um skýrslu eins og skýrsluna um SR-mjöl og þar með um faglegan bakgrunn hennar. Það var rétt hjá hæstv. fjmrh. sem hann sagði núna að hann lýsti því yfir að hann hefði áhyggjur af málinu og hann tók það einnig fram, ekki aðeins í svari sínu núna heldur einnig áðan, að hann væri ekki að fella dóm. Ég er hins vegar sannfærður um það að þessi skoðun ráðherrans og áhyggjur hans, sem hann lætur í ljós með þessum hætti, hljóta að vekja mjög mikla athygli sérstaklega ef ráðherrann hefur ekki komið þessu áður á framfæri með einum eða öðrum hætti við forsrh. og þó alveg sérstaklega hæstv. forseta Alþingis vegna þess að Ríkisendurskoðun er stofnun Alþingis.
    Við stóðum að því, ég og hæstv. núv. fjmrh. sem þingmenn þá í fjh.- og viðskn. neðri deildar á sínum tíma að taka í gegnum þingið núgildandi lög um Ríkisendurskoðun. Um það var mjög góð samstaða og við höfðum mjög góða samstöðu um það til hvers við ætluðumst af þessari stofnun. Við töldum hana mikilvæga. Ég tel að trúverðugleiki stofnunarinnar sé að veikjast ef hæstv. fjmrh. ómótmælt lætur frá sér fara yfirlýsingar af því tagi sem hann gerði hér áðan.