Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:17:13 (6831)

[14:17]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Umhvn. hefur fjallað ítarlega um frumvarpið sem ætlað er að samræma löggjöf um villt dýr og leysa af hólmi sundurleit lagaákvæði á því sviði. Frumvörp um þetta efni voru lögð fram á 115. og 116. þingi án þess að hljóta afgreiðslu. Það frumvarp, sem liggur fyrir 117. þingi, er nokkuð breytt frá fyrri frumvörpum. Fæstar breytingar eru þó efnislegar.
    Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að sett verði hér á landi ný heildarlöggjöf um villt dýr og mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstökum þingskjölum. Einstakir nefndarmenn flytja brtt. við tiltekin ákvæði í samræmi við fyrirvara sem gerðir eru í nefndaráliti þessu.

Breytingar, sem meiri hlutinn leggur til eru á þskj. 1053 og á þskj. 1052 er gerð grein fyrir brtt. á nál. meiri hluta umhvn. Ég vil taka það fram að hv. þm. Tómas Ingi Olrich tók þátt í vinnslu frv. og vann með okkur að þeim brtt. sem lagðar eru til í frv. þótt hann skili sérstöku nál. og standi ekki að brtt. meiri hlutans.
    Þótt breytingarnar séu í mörgum liðum og við allar greinar frv. eru þær aðeins að hluta efnislegar þar sem víða er aðeins um orðalagsbreytingar að ræða til að gera ákvæðin skýrari. Ég mun nú gera grein fyrir helstu breytingunum.
    Við 1. gr. frv. er lagt til að hugtakið ,,friðun`` taki einnig til eggja og hreiðra friðaðra fugla. Er það í samræmi við 3. mgr. 8. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966, sem lögum þessum er ætlað að leysa af hólmi. Breytingin er enn fremur í samræmi við Parísarsamþykktina frá 1956, Bernarsáttmálann og tilskipun ESB 79/409. Þá er lagt til að skilgreiningu á ,,lífsvæði`` verði breytt á þann hátt að hún sé ekki einskorðuð við land eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, enda nær frumvarpið til sjófugla, sela, hvítabjarna og efnahagslögsögunnar allrar.
    Eins og fram kemur í brtt., tölul. 23, er lagt til að orðin ,,öðrum en hvölum`` falli út úr heiti frv. Talið er heppilegra að taka sérstaklega fram að lögunum sé ekki ætlað að taka til hvala. Lagt er til að slíkt ákvæði komi í 2. gr. Um hvali gilda sérstök lög, lög um hvalveiðar, nr. 26/1949, sem fjalla bæði um veiðar, vernd og friðun tiltekinna hvalategunda. Þá gilda einnig um hvali ákvæði í Rekabálki Jónsbókar, Alþingisdómur um rekamark frá um 1300, Konungsbréf frá 23. júní 1779 og opið bréf frá 4. maí 1778.
    Lagt er til að heiti ,,villidýranefndar`` í 3. gr. verði breytt í ,,ráðgjafarnefnd um villt dýr`` þar sem mjög skiptar skoðanir eru um fyrrnefnda heitið. Bent hefur verið á að það geti verið villandi þar sem hugtakið ,,villidýr`` vísi í málvitund manna til stórra rándýra. Ég tek fram, virðulegur forseti, að nokkrir nefndarmenn, þar á meðal ég, töldu óþarft að gera þessa breytingu.
    Lagt er til að í stað þess að taka fram í 6. gr. að mýs, rottur og minkar séu ekki friðuð samkvæmt lögunum sé það tekið fram í 13. gr. sem fjallar um minka og 15. gr. þar sem fjallað um mýs og rottur að þessar dýrategundir njóti ekki friðunar. Meiri hlutinn leggur til þá efnisbreytingu að hagamýs skuli njóta friðunar eins og önnur dýr samkvæmt frv. nema þær séu í húsum inni. Ekki þykir rétt að hagamýs séu ófriðaðar úti í náttúrunni, enda tegundin hérlendis a.m.k. jafngömul landnámi.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 7. gr. frumvarpsins. Leitast er við að samræma fyrirkomulag varðandi setningu reglugerðarákvæða. Lagt er til að ráðherra leiti eftir beinum tillögum ráðgjafarnefndarinnar eða styðjist við umsagnir nefndarinnar við allar meiri háttar ákvarðanir sem snerta efni væntanlegra laga. Þá er talið rétt að taka af öll tvímæli um að ákvarðanir um að aflétta friðun byggist einungis á þeim atriðum sem tiltekin eru í 1. mgr. 7. gr. og því er lagt til að orðin ,,fyrst og fremst`` falli brott. Þá er lagt til að í reglugerð verði kveðið á um hvaða fuglar teljist til ,,fágætra`` fugla og um skylduskil á þeim. Loks er lagt til að haft verði samráð við landeigendur þegar Náttúrufræðistofnun nýtir heimild til að láta veiða fugla og safna eggjum handa stofnuninni. Við leggjum áherslu á að ekki er ætlast til að það nægi að starfsmaður Náttúrufræðistofnunar tilkynni landeigendum áform sín heldur er mikilvægt að haft sé samráð við landeigandann. Hér var höfð til hliðsjónar 15. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands. Aðrar breytingar sem lagðar eru til varða orðalag en meiri hlutinn vill leggja áherslu á að ákvarðanir ráðherra um að beita sér fyrir útrýmingu stofna séu byggðar á niðurstöðum vísindalegra rannsókna.
    Lagt er til að hugtakið ,,efnahagslögsaga`` sé notað í stað hugtaksins ,,landhelgi`` í samræmi við síðari málsgrein 2. gr. um að lögin nái til efnahagslögsögunnar. Breytingin felur í sér að lögin munu gilda um svæðið allt að 200 mílum frá grunnlínum landhelgi en ekki einungis 12 mílna landhelgi. Breytingin er að öðru leyti í samræmi við þann rétt sem gildir innan efnahagslögsögunnar. Enn fremur er lagt til að við 8. gr. bætist reglur sem eru nú í lögum nr. 33/1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun. Samkvæmt athugasemd við 8. gr. frumvarpsins felur ákvæðið ekki í sér breytingu frá gildandi rétti og telur meiri hlutinn m.a. af þeim sökum rétt að viðkomandi ákvæði í núgildandi lögum verði látin halda sér. Þetta eru ákvæði um dýraveiðar og landareign sem eru í óskiptri sameign og ákvæði um dýraveiðar þar sem forn venja er til að dýraveiðar í almenningi stöðuvatns fylgi tiltekinni landareign og að sú venja skuli ríkja eftirleiðis. Ekki þykir rétt að fella burt slík ákvæði úr núgildandi rétti. Þá er lagt til að í stað opinnar reglugerðarheimildar í 6. mgr. verði skýrt kveðið á um að erlendum ferðamönnum, sem hyggjast veiða hér á landi, beri að hlíta sömu skilyrðum og sett eru gagnvart innlendum veiðimönnum. Meiri hlutinn telur eðlilegt að gerðar verði sömu kröfur til allra handhafa veiðikorta. Ekki eru lagðar til frekari breytingar á 8. gr. en bent er á að ákvæði greinarinnar varða álitaefni um eignarhald og umráðarétt á almenningum og afréttum sem ekki verður tekið á í frumvarpi þessu. Fallið hafa nokkrir hæstaréttardómar um álitaefnið. Má þar nefna Hrd. 1955:108, ,,Landmannaafréttardóm fyrri``, og Hrd. 1981:1584, ,,Landmannaafréttardóm síðari``. Í fyrri dómnum var talið að landeigendur ættu ekki ótvíræðan eignarrétt á Landmannaafrétti og í ,,Landmannaafréttardómi síðari`` var tekist á um það hvort ríkisvaldið teldist þá eiga eignarrétt á afréttinum. Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni til þess hvort svo væri. Meiri hluti réttarins komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði ekki sett fram fullnægjandi rök fyrir eignartilkalli til afréttarins og orðrétt sagði í dómsorði, með leyfi forseta: ,,Alþingi hefur ekki sett lög um þetta efni, þó að það hefði verið eðlileg leið til að fá ákvörðun handhafa ríkisvalds um málsefnið.`` Minni hlutinn taldi að íslenska ríkið ætti beinan eignarrétt yfir afréttinum með þeim takmörkunum sem leitt gætu af lögmæltum og venjuhelguðum réttindum þeirra sem upprekstur ættu á svæðinu. Telja verður þá réttaróvissu, sem framangreindir dómar bera vott um, afar óæskilega. Hún kemur sér m.a. illa fyrir veiðimenn og aðra þá sem vilja nýta sér almannarétt.
    Lagt er til að gerðar verði nokkrar breytingar á 9. gr. Í 4. tölul. greinarinnar er lagt til að heimilt sé að veiða lunda og álku, langvíu og stuttnefju í háf. Fjölmargir umsagnaraðila lýstu sig andsnúna því að veitt yrði almenn heimild til að veiða aðra bjargfugla í háf en lunda nema þar sem um hefðbundna nýtingu hlunninda er að ræða eins og fram kemur í 19. gr. frv. Í Grímsey mun t.d. tíðkað að veiða álku, langnefju og stuttnefju í háf án þess að það hafi óæskileg áhrif. Ekki er lagt er til að hróflað verði við slíkri hefðbundinni nýtingu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að að nýting netafugls sé bönnuð en meiri hlutinn telur of langt gengið að banna notkun fugls til eigin þarfa. Ekki verður komið í veg fyrir að fugl slæðist í fiskinet sem lögð hafa verið og hætt er við að of ströng ákvæði dragi úr virðingu veiðimanna fyrir lögunum. Því er lagt til að önnur ráðstöfun en nýting veiðimanns sjálfs verði bönnuð með sama hætti og gert er ráð fyrir með nýtingu andareggja og heiðargæsaeggja en gert er ráð fyrir að ekki verði heimilt að bjóða til sölu, kaupa, gefa né þiggja að gjöf fugla sem drepast í netum.
    Efnisleg breyting á 10. tölul. er að lagt er til að heimilt verði að nota ljósgjafa við refa- og minkaveiðar. Refaskyttur hafa tíðkað að lýsa upp agn við skothús sem notuð eru til refaveiða að vetrarlagi. Þar sem um er að ræða veiðar sem að hluta til eru kostaðar af ríkissjóði og fyrirkomulagið getur sparað útgjöld þykir rétt að heimila það. Þá má færa fyrir því rök að minni líkur séu á að dýr sem leita í agnið særist ef agnið er upplýst. Í 14. tölul. er lagt til að breytt verði þannig að skýrt sé að notkun sjálfvirkra skotvopna sé með öllu bönnuð en að notkun hálfsjálfvirkra skotvopna og handhlaðinna fjölskotabyssa sé heimil svo fremi þau séu ekki með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki. Lagt er til að í stað orðsins ,,pumpa`` verði notuð orðin ,,handhlaðin fjölskotabyssa``. Betur er talið fara á því að nota síðarnefnda orðið enda þótt veiðimönnum sé tamt að nota orðið ,,pumpa`` yfir þessa tegund skotvopna. Í 17. tölul. er gert ráð fyrir að vélknúin ökutæki séu bönnuð nema við fuglaveiðar á sjó. Lagt er til að undantekning gildi einnig varðandi selveiðar. Eðlilegt er talið að heimila selveiðar á bátum á sama hátt og við fuglaveiðar. Þá er lagt til að skotvopn skuli vera óhlaðin nær farartækjum á landi en 250 m í stað 50 m eins og frv. gerir ráð fyrir. Loks leggur meiri hlutinn til að aðeins sé heimilt að veita tímabundnar heimildir til að nota þær veiðiaðferðir sem 9. gr. bannar og að ákvarðanir séu teknar í samráði við ráðgjafarnefnd um villt dýr.
    Almennt gera breytingartillögur meiri hluta umhvn. ráð fyrir auknu vægi ráðgjafarnefndarinnar að því er varðar stjórnvaldsákvarðanir.
    Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að kveðið verði á um í lögum hver annist útgáfu veiðikorta og telur eðlilegt að það verði falið embætti veiðistjóra enda er gert ráð fyrir því í drögum að reglugerð um veiðikort. Þá er lagt til að tekið verði fram að veiðikortunum sé ekki ætlað að taka til eggjatöku. Nefndin kynnti sér drög að reglugerð sem umhvrh. hyggst setja um veiðikort, en nokkur umræða varð í nefndinni um stöðu landeigenda í þessu efni. Meiri hlutinn leggur til að lögleiddar verði sérstakar reglur að því er varðar hlunnindabændur og gerir jafnframt að tillögu sinni að sama gjald verði tekið fyrir þau kort og almenn kort. Eins og fram kemur í 11. gr. er gjaldinu fyrir veiðikort ætlað að renna til rannsókna og stjórnunar á stofnum villtra dýra og eðlilegt er því að allir greiði sama gjald fyrir kortin. Þá leggur meiri hluti nefndarinnar til að hámark gjaldsins verði lögbundið, þ.e. 1.500 kr.
    Sú efnisbreyting sem lögð er til í frv. að því er varðar refi er að aðeins sveitarstjórn er ætlað að ráða menn til refaveiða á svæðum þar sem friðun refs er aflétt og eru refaveiðar óheimilar öðrum. Þó mega bændur og æðarræktendur eða aðilar á þeirra vegum skjóta refi sem búfénaði eða æðarvarpi stafar bein hætta af. Loks er lagt til að umhvrh. geti heimilað sveitarstjórnum að láta veiða refi á tilteknum svæðum til viðbótar því sem veiðistjóri hefur talið nauðsynlegt og að reglur um greiðsluskyldu ríkissjóðs gildi ekki um þær veiðar.
    Í tilskipun frá 20. júní 1849 er lagt bann við skotum nær friðlýstum látrum en hálfa danska mílu. Ekki var ætlunin að gera breytingar frá núgildandi rétti. Þar eð vegalengdin hálf dönsk míla samsvarar 3,7 km er lagt til að þessi misskilningur verði leiðréttur. Einnig er lagt til að bannað verði að leggja net í sjó nær friðlýstu selalátri en 250 m í stað hálfs km eins og frv. gerir ráð fyrir. Breytingin er í samræmi við það að frv. gerir ráð fyrir að ekki megi leggja net nær æðarvarpi en 250 m.
    Í 18. gr. frv. eru ákvæði um það að aflétta megi friðun ákveðinna fuglategunda innan þeirra tímamarka sem þar eru tilgreind. Meiri hluti umhvn. leggur til að ekki sé hægt að aflétta friðun á kjóa um varptímann eins og frv. gerir ráð fyrir, en heimilt sé að skjóta hann nærri æðarvarpi. Einnig er lagt til að ekki megi hefja fuglaveiðar fyrr en 1. sept. þar sem síðari hluta ágústmánaðar er enn mikið um ófleyga eða illa fleyga fugla, en gert er ráð fyrir því í frv. að veiði geti hafist 20. ágúst á mörgum fuglategundum.
    Þá er lagt til að ekki megi veiða svartfugl eftir 30. apríl í stað 19. maí eins og frv. gerir ráð fyrir. Fuglafræðingar hafa bent á að svartfugl leiti í fuglabjörg löngu fyrir 19. maí og að eðlilegt sé að veiðum á þeim sé lokið þegar varpundirbúningur hefst. Vorveiðar á þessum fuglategundum munu alfarið bannaðar á öðrum Norðurlöndum. Enn fremur er lagt til að aldrei megi aflétta friðun á bjartmáv þar sem sérfræðingar á sviði fuglafræði telja óeðlilegt að sú fuglategund falli undir ákvæðið. Bjartmávur sem er vetrargestur hér á landi hefur aldrei verið veiddur hér til matar né verið til óþurftar eins og sumar aðrar tegundir máva.
    Lagt er til að umhvrh. geti ákveðið svæðisbundna friðun að ósk viðkomandi sveitarstjórna innan

tiltekinna tímamarka. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að mikil umferð veiðimanna getur valdið truflun og jafnvel hættu, ekki síst um göngur á haustmánuðum. Þá fjölgar ferðamönnum sem leggja leið sína um ákveðin svæði í óbyggðum utan hefðbundins ferðamannatíma og nauðsynlegt getur verið að takmarka veiðar tímabundið til að koma í veg fyrir árekstra. Talið er mikilvægt að sveitarstjórnir geti því ef ástæður þykja til óskað eftir friðun á tilteknum stöðum. Þá er lagt til bannað að verði að fljúga flugvélum og vera með annan óþarfa hávaða nærri fuglabjörgum, svo sem vegna umferðar hraðbáta.
    Sú breyting sem lögð er til við 19. gr. er ekki efnisleg en í henni felst að taldar eru upp þær tegundir sem heimilt er að taka egg frá í stað þess að tiltaka undan hvaða tegundum sé óheimilt að taka egg. Þá er lagt til að kveðið verði á um að auk andareggja verði óheimilt að bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa eða þiggja að gjöf heiðargæsaregg en frv. gerir ráð fyrir að heimilt sé að taka heiðargæsaregg á sama hátt og grágæsaregg.
    Lagt er til að gildistökutími frv. verði 1. júlí 1994. Þá leggur meiri hlutinn til að ákvæði Jónsbókar, sem vísað er til í 1. tölul. 20. gr., haldi gildi sínu þar sem engin rök eru til þess að þau verði felld brott í tengslum við gildistöku þessara laga. Þá er lagt til að tiltekið verði hvaða ákvæði tilskipunar um veiðitíma frá 20. júní 1849 falli brott verði þetta frv. að lögum.
    Petrína Baldursdóttir, Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason og Lára Margrét Ragnarsdóttir undirrita nál. þetta með fyrirvara. Þau ásamt Tómasi Inga Olrich, sem skilar sérstöku nál., flytja brtt. sem fela í sér að Náttúrufræðistofnun Íslands gegni því hlutverki sem veiðistjóra er falið samkvæmt frv. þessu. Þau munu gera grein fyrir tillögum sínum í umræðum um málið.
    Þá rita auk mín Hjörleifur Guttormsson og Ólafur Ragnar Grímsson undir með fyrirvara varðandi 16. gr. þar sem við teljum að málefni varðandi seli eigi að heyra undir umhvrh. Jón Helgason ritar einnig undir með fyrirvara, m.a. vegna 16. gr. þar sem hann telur að nýting selastofna eigi að heyra undir landbrh. Þessir nefndarmenn munu flytja brtt. varðandi 16. gr.
    Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir samvinnu í nefndinni við vinnslu málsins og nefndarritara, Ragnhildi Arnljótsdóttur, fyrir mikla aðstoð.
    Virðulegur forseti. Það verður að teljast óvenjulegt ef ekki einsdæmi að allir nefndarmenn skuli hafa fyrirvara um afgreiðslu máls með þessum hætti sem ég hef nú gert grein fyrir. Að mínu mati þarf það þó ekki að vera óeðlilegt. Hér er um viðamikinn málaflokk að ræða sem tekur til fjölmargra þátta og því eðlilegt að það geti verið skiptar skoðanir um einstaka afmarkaða þætti. Það verður þó að viðurkennast að þær breytingartillögur sem stjórnarliðar hafa flutt við frv. liggja til grundvallar og er það nokkuð óvanalegt þegar um stjfrv. er að ræða. Ég mun hins vegar ekki gera það að umtalsefni nú. Eins og fram kom í máli mínu flyt ég ásamt öðrum brtt. við frv. og mun ég gera grein fyrir þeim síðar í umræðunni.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir áliti meiri hluta umhvn. varðandi þetta frv.