Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:47:59 (6839)


[14:47]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta umhvn. um frv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum. Nál. er til þess að gera stutt og ég vil, með leyfi virðulegs forseta, lesa upp úr nál:
    ,,Umhverfismál ganga inn á svið mjög margra annarra málaflokka. Þess verður að gæta við stjórn umhverfismála að saman fari hagnýt sjónarmið og tillit til umhverfisins sé þess nokkur kostur. Þetta gildir almennt, en þó sérstaklega þegar í hlut á þjóð sem byggir efnahag sinn á nýtingu villtra dýrastofna eins og Íslendingar gera.
    Nýting villtra dýrastofna, sem frv. þetta nær yfir, er tæplega undirstaða atvinnurekstrar hérlendis ef undan eru skildar selveiðar. Frv. snertir aðeins með óbeinum hætti þá auðlindanýtingu sem hefur meginþýðingu fyrir efnahag þjóðarinnar, þ.e. nýtingu fiskimiðanna og gróðurlendisins.
    Engu að síður er mjög æskilegt að við lagasetningu af þessu tagi sé þess gætt að fram komi ákveðin grundvallarafstaða til nýtingar náttúrulegra gæða. Ekki er skynsamlegt að ganga út frá því sem grundvallarreglu að villtir dýrastofnar séu friðaðir og að nýting þeirra heyri til undantekninga. Efnahagur þjóðarinnar byggist að verulegu leyti á nýtingu villtra dýrastofna, og mun svo verða um fyrirsjáanlega framtíð. Ekki verður séð að nein sérstök rök verði færð fyrir því að um nýtingarrétt eigi við önnur grundvallarviðhorf þegar fuglar og spendýr eiga í hlut en þegar fjallað er um nýtingu fiskimiðanna eða t.d. um nýtingu hvala.
    Það er æskilegt að umhverfisvernd og hagnýt sjónarmið finni sér sameiginlegan farveg, ekki síst með þjóð sem byggir afkomu sína á auðlindum náttúrunnar. Undirstaða þeirra lagabálka, sem um gæði náttúrunnar fjalla, á því að vera réttur mannsins til að nýta þessi gæði á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Sú leið

er ekki farin í því frv. sem hér um ræðir. Minni hlutinn er ósamþykkur þeirri meginreglu sem fram kemur í 6. gr. frv. að dýr séu friðuð en að ráðherra geti heimilað nýtingu þeirra. Eðlilegra hefði verið að setja þá grundvallarreglu að öll dýr skuli njóta verndar í þeim skilningi að vernd feli í sér skynsamlega nýtingu. Hefði sú leið verið farin hefði verið nauðsynlegt að lögfesta friðun og veiðitíma einstakra tegunda.
    Þótt mikilvæg grundvallarsjónarmið, sem fram koma í frv. séu gagnrýnd eru allmörg einstök efnisatriði í því til bóta miðað við gildandi lög. Áskilur minni hlutinn sér rétt til að taka aðra afstöðu en meiri hlutinn til einstakra greina frv. og til brtt. meiri hlutans sem varða frv. í heild. Hins vegar stendur undirritaður að breytingartillögum varðandi embætti veiðistjóra ásamt öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna.``
    Virðulegi forseti. Í þessu máli hafa komið fram afar andstæð sjónarmið þeirra sem hafa fjallað um þetta frv. sem benda til þess að um málið verði erfitt að ná sátt í þjóðfélaginu. Það er hins vegar svo að það er til mikils að vinna að leita víðtækrar sáttar um umhverfisstefnu. Löggjöf um umhverfismál er í raun og veru aðeins hluti af umhverfisstefnu. Það er nauðsynlegt að löggjöf, ef hún á að vera raunhæf og koma að gagni, styðjist við umhverfissinnaðan bakgrunn og njóti stuðnings umhverfissinnaðrar þjóðar sem sér fara saman umhverfisverndina og undirstöðuhagsmuni sína. Það er þess vegna mjög mikils virði að þingið leiti leiða til þess að saman fari hin hagnýtu sjónarmið sem snerta mikilvæga hagsmuni og umhverfismál.
    Þau viðhorf sem sá sem hér talar hefur reifað varðandi nýtingarrétt á gæðum náttúrunnar beinast alls ekki gegn því sjónarmiði sem kemur fram í gildandi lögum um friðun einstakra dýrategunda. Friðun dýrategunda á fullan rétt á sér og er hægt að færa rök fyrir því að við gætum á vissa hátt gengið lengra í þeim efnum heldur en við höfum gengið nú, ekki síst við vissar aðstæður. Friðun dýrategunda á fullan rétt á sér, bæði ef viðkoma stofnsins krefst þess en svo má ekki gleyma því heldur að einnig getur friðun þjónað ýmsum öðrum markmiðum sem verður að telja í eðli sínu hagnýt og mun ég koma að því síðar. Hins vegar get ég ekki fallist á það sjónarmið að dýr séu friðuð á þeirri forsendu að veiðar eða nýting villtra dýrastofna sé í sjálfu sér óæskileg, óviðeigandi eða ósiðleg. Slík sjónarmið get ég ekki stutt. Nýting getur verið og á raunar að vera afar víðtækt hugtak. Nýtingin nær að sjálfsögðu sem hugtak yfir veiðar eða sambærilega nýtingu, en hún getur líka og á að geta náð yfir friðun, a.m.k. ef verið er með friðun náttúrlegra gæða, svo sem dýralífs, gróðurlendis eða annarra fyrirbæra náttúrunnar, að tryggja ákveðna tegund hagnýtingar. Þannig má t.d. segja að griðastaðir fugla séu vettvangur fuglaskoðunar, hefðbundin friðun selalátra er tengd hlunnindum og vernd æðarfugls er grundvölluð á dúntekju.
    Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta frv. í heild. Ég vil taka það fram, eins og ég gat um áðan í nál., að þó að mikilvæg grundvallarsjónarmið sem fram komu í frv. séu í máli mínu gagnrýnd, þá eru allmörg einstök efnisatriði í því til bóta miðað við gildandi lög. Ég nefni þar sérstaklega þau ákvæði frv. sem skapa möguleika til þess að meta ástand dýrastofna og veiðiþol þeirra með skipulegum hætti.