Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:57:58 (6841)


[14:57]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson geri sér grein fyrir því að málefni ganga í gegnum ýmis vinnslustig og eitt af mikilvægustu vinnslustigum þingsins eru umsagnir sem um frv. eru gefnar og það er ekkert óeðlilegt við það að þegar málið er í vinnslu í þinginu þá breyti menn viðhorfum sínum til ýmissa atriða, ekki síst vegna þess að þá leggjast menn yfir málið og skoða það í þaula.
    Það kann að vera að hv. þm. líti á það sem sérstakt manngildi að halda fast við afstöðu sína frá upphafi til enda og verður hann að eiga við sjálfan sig hvort hann bítur sig í þá afstöðu. Ég lít ekki svo

á að ég geti ekki tekið tillit til þess sem fram kemur t.d. í umsögnum og tel mig hafa fulla heimild til að láta málið þroskast í huga mér eftir þeim leiðum sem ég kýs.
    Ég vil geta þess að við vinnslu þessa máls og kannski ekki síður við umfjöllun þingsins um annað mál sem snertir þetta að vísu óbeint, þ.e. dýraverndarfrv., fylltist ég efasemdum um að við værum að fara eftir fyllilega réttum leiðum. Þetta hefur styrkst í huga mér og farið í þann farveg að ég hef kosið að taka þessa afstöðu til málsins hér og nú. Hafi ég gefið hv. þm. einhverjar tálvonir í upphafi umræðunnar bið ég hann velvirðingar á því, en ég biðst ekkert afsökunar á því að hafa látið málið þroskast í huga mér.