Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 15:29:31 (6852)


[15:29]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að taka þátt í deilum um það hver er raunverulega í meiri hluta þessarar ágætu hv. nefndar þar sem allir undirrita meira og minna með fyrirvara, en ég vil þó fagna því sérstaklega að þetta mál skuli þó vera komið hér inn eftir þiggja ára umfjöllun. Mér skilst að þetta sé þriðja þingið sem frv. er til skoðunar hjá nefndinni og mér finnst það mjög gott að það skuli vera komið hér inn.
    En meginástæða þess að ég bað um að fá að fara hér upp í andsvör er sú að hv. þm. nefndi áðan að það ætti að flytja veiðistjóraembættið til Akureyrar. Ég vil fagna þeirri ákvörðun sérstaklega þar sem það hefur verið á stefnuskrá ýmissa ríkisstjórna að flytja stofnanir út á land en því hefur lítið verið fylgt eftir. En þó vil ég spyrja: Er það nokkuð sem er beint í þessu frv.? Samþykkt frv. hefur ekkert með það að gera.