Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 17:01:09 (6865)


[17:01]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Á einni mínútu er ekki margt hægt að segja svo mikið sem þyrfti í rauninni að segja vegna ræðu hæstv. ráðherra því að það var svo fjölmargt í henni sem var þess eðlis að það þarf langt mál til að ræða það og sýna fram á hversu rangt mál hann fer með að mínu mati.
    En það voru nokkur atriði sem ég má til að koma hér á framfæri og það er vegna þess að ráðherrann gerði nokkuð úr stuðningi Skotvíss við þetta frv. Það er alveg rétt. Það komu til nefndarinnar umsagnir varðandi þetta frv. en tveir fulltrúar félagsins komu hins vegar á nefndarfund og reyndar var lesin upp hérna ályktun frá aðalfundi þess félags og þeir féllu frá stuðningi við frv. vegna þeirrar meðferðar á veiðistjóraembættinu sem tillögur gerðu ráð fyrir, ekki frv. heldur tillögur sem boðaðar höfðu verið. Ég vil koma því á framfæri vegna þess að þeir gerðu mjög skýra grein fyrir því á fundi nefndarinnar.
    Það kom einnig fram að þær tillögur sem ráðherrann varði mestum tíma sínum í að skýra væru unnar í samráði við forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, en í 3. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands segir mjög greinilega, með leyfi forseta:
    ,,Forstjóri starfar í umboði stjórnar sem framkvæmdastjóri hennar og stofnunarinnar í heild.`` Þess vegna komu þessi orð ráðherrans mjög á óvart í ljósi þess að formaður stjórnar vissi ekki af þessum tillögum fyrr en umhvn. óskaði eftir umsögn um málið.