Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 17:05:46 (6868)


[17:05]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Með ákvörðunum sínum, sem hæstv. umhvrh. kynnti 6. eða 7. jan. sl., um að flytja embætti veiðistjóra í því formi til Akureyrar og sameina það Náttúrufræðistofnun Íslands er málstaðnum um það að dreifa stjórnsýslunni í landinu unnið eitthvert mesta ógagn sem gert hefur verið til þessa. Ákvörðun ráðherrans eins og að henni var staðið er mesta valdníðslan sem mér er kunnugt um að beitt hafi verið í Stjórnarráði íslands, hef þó ekki kannað það mál sérstaklega og fer eftir kynnum mínum af Stjórnarráðinu. Ráðherrann tók ákvörðun um þetta efni án þess að tala við nokkurn starfsmann veiðistjóraembættisins um ákvörðun sína áður en hún var kynnt, án þess að tala orð við stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands og án þess að tala orð við forstöðumann seturs Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri. Þetta er valdníðsla af því tagi að fáheyrt verður að teljast. Þetta er eitthvert mesta ógagn sem unnið hefur verið gagnvart opinberum stofnunum í landinu og það er alveg með fádæmum að þessi ráðherra skuli koma og ætla að slá sig til riddara með þessum gerningi.