Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 17:09:07 (6870)


[17:09]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það fer að fækka rökunum í málflutningi hæstv. ráðherra og talsmanna hans hér í þinginu. ( GunnS: Ert þú á móti uppbyggingu á landsbyggðinni?) Ein meginröksemdin fyrir þessari ákvörðun á að vera hagræðing. Hæstv. ráðherra segir hér: Hvað sem verður um afdrif þessarar brtt. fimm þingmanna, sem hér liggur fyrir, þá skal embættið samt norður. ( GunnS: Þú ert á móti.) Þessi frammíkallari hér, hv. 5. þm. Austurl., varði þessa ákvörðun sérstaklega á þingi og taldi hana til einstakrar fyrirmyndar, svo að það er von að hann sé farinn að ókyrrast, presturinn sem ég hélt að væri stundum í sáttahlutverki en ekki að hella olíu á eldinn. Og hæstv. umhvrh. leyfir sér að vitna til skýrslu stjórnskipaðrar nefndar undir forustu Þorvaldar Garðars Kristjánssonar máli sínu til stuðnings. Hvað stendur í þeirri skýrslu, virðulegi forseti? ( GunnS: Ertu á móti henni líka?)
    Virðulegur forseti. Ég fæ ekki frið. Tíminn er útrunninn. Ég leyfi mér tvær örstuttar tilvitnanir. Það stendur um starfsmenn stofnana sem ráðgert er að flytja: ,,Hins vegar varðar miklu að stofnun geti haldist á starfsmönnum sínum. Verður að leita allra ráða til þess að stofnun haldist á starfsmönnum sínum.``