Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 17:11:22 (6871)


[17:11]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði: Hvar er hagkvæmnin sem felst í því að flytja þessa stofnun út á land? Ég greindi frá því í mínu svari áðan að þegar menn taka ákvarðanir um það að flytja stofnanir út á land þá eru það byggðapólitísk sjónarmið sem ráða. Það er ekki endilega alltaf hægt að benda á einhverja tiltekna hagræðingu sem hægt er að mæla í krónum og aurum. En það er hins vegar gefið mál að þegar byggðarlög eru styrkt með þeim hætti að flytja þangað traustar stofnanir sem hafa yfir atgervi að búa þá hefur það margfeldiáhrif. Það rennir auknum og traustari burðarstoðum undir athafnalífið á viðkomandi stað. Það eru menn fyrst og fremst að hugsa um þegar þeir tala um að flytja stofnanir frá Reykjavík út á land. Það er ekki bara einhver hagræðing sem hægt er að mæla í krónum og aurum. Menn eru að tala um það að taka byggðapólitískar ákvarðanir sem styrkja viðkomandi byggð. Út á það gengur þetta.