Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 17:12:26 (6872)


[17:12]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og hæstv. umhvrh. vék að þá veitti ég forstöðu nefnd á sínum tíma um flutning ríkisstofnana. Sú nefnd starfaði í um það bil þrjú ár, fór vandlega yfir það mál allt saman og gerði ítarlegar tillögur. Ég get sagt við hæstv. umhvrh.: Hann hefur brotið allar þær vinnureglur sem sú nefnd taldi eðlilegar varðandi flutning ríkisstofnana í þessu máli. Það er athyglisvert að hann er líka að brjóta þær vinnureglur sem sú nefnd sem Þorvaldur Garðar Kristjánsson veitti forstöðu og Alþfl. átti fulltrúa í setti sér í þessum málum. Enda er það líka umhugsunarvert fyrir hæstv. umhvrh. að það hefur enginn sem yfir þetta mál hefur farið vandlega á allra síðustu árum lagt til flutning veiðistjóraembættisins, heldur ekki þingmaðurinn Gunnlaugur Stefánsson sem mig minnir að hafi verið fulltrúi Alþfl. í þessari nefnd. Hann lagði það ekki til að veiðistjórinn yrði fluttur. Ef það er svona gráupplagt og sjálfsagt eins og hæstv. umhvrh. er að reyna að sannfæra menn um hér hvernig stendur þá á því að sú stjórnskipaða nefnd sem starfaði sérstaklega á vegum forsrh. og var með þennan virðulega þingmann Alþfl. innan borðs lagði þetta ekki til?