Rannsóknarráð Íslands

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 10:41:38 (6877)


[10:41]
     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um það mál sem hér er til umræðu til að gera grein fyrir brtt. frá menntmn. við 22. gr. frv. Í greininni er menntmrh. heimilað að setja á stofn sérstakar stöður prófessora sem einungis sinni rannsóknum á sviðum sem talin eru sérstaklega mikilvæg og áhugaverð. Í stöðu rannsóknarprófessors yrðu aðeins ráðnir einstaklingar sem metnir hafa verið hæfir til að gegna stöðu prófessors og hafa aflað sér viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi fyrir rannsóknarstörf. Rannsóknarráð Íslands er einn þeirra aðila sem fjallað gæti um eða gert tillögur um stofnun stöðu rannsóknarprófessors. Tillögur um fræðasvið sem til álita koma fyrir stöðu rannsóknarprófessora yrðu gerðar til menntmrh. en hæfni umsækjenda metin af sérstaklega skipaðri dómnefnd. Brtt. er flutt til að kveða skýrt á um að þeir fræðimenn sem hafa starfað að íslenskum fræðum og lagt fram markverðan skerf til íslenskrar menningar geti skipað stöðu rannsóknarprófessors.