Lax- og silungsveiði

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 10:56:00 (6880)


[10:56]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ein af brtt. við þetta frv. sem hér liggur fyrir er sú að það er lagt til að 72. gr.

falli brott, en þar er fjallað um heimildir hafbeitarstöðva, að fengnu leyfi ráðherra, til laxveiða í sjó innan við 200 metra frá frárennsli. Nú langar mig að spyrja hv. formann nefndarinnar: Hvaða áhrif hefur þetta á þær veiðiaðferðir sem stundaðar eru í sumum hafbeitarstöðvum þar sem menn hafa komið sér upp eins konar nót til að veiða fiskinn í fyrir utan ós þeirra vatna eða áa sem um er að ræða, með sérstöku leyfi frá Veiðimálastofnun og undanþágum? Ég spyr: Hver eru t.d. áhrifin á þessar veiðar? Ég vil nefna dæmi eins og í Hraunsfirði og Lárós, þar sem þessar veiðar hafa verið stundaðar og hafa verið mjög gagnrýndar af þeim sem eiga veiðiár í nágrenninu þar sem talið er að töluvert magn af laxi, náttúrulegum laxi úr ánum í kring, sé tekið með hafbeitarlaxinum sem veiddur er þannig fyrir utan ármynnin.