Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:26:27 (6892)



[11:26]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1120. Undir það rita ásamt mér hv. þm. Halldór Ásgrímsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
    Nál. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fyrsti minni hluti nefndarinnar styður þá lækkun sem hér er lögð til á tryggingagjaldi í ferðaþjónustu og hugbúnaðariðnaði. Hann er hins vegar andvígur þeirri hækkun sem lögð er til á öðrum atvinnugreinum til þess að mæta þessari lækkun. 1. minni hluti bendir á að í tillögum sínum varðandi skattamál nú fyrir jól sýndi hann fram á að ekki hefði þurft að hækka tryggingagjald um þau 0,35% sem ríkisstjórnin knúði þá fram.
    Hækkun tryggingagjalds við þær erfiðu aðstæður, sem nú eru í atvinnulífinu, er afar óskynsamleg aðgerð. Nú er aftur verið að leggja til hækkun á gjaldinu um 0,15% á nokkrum atvinnugreinum. Núverandi ríkisstjórn er því á hálfu ári búin að hækka tryggingagjald um 0,5%, eða úr 2,5% í 3% á grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar.
    Útreikningar Þjóðhagstofnunar á tillögum 1. minni hluta í vetur sýndu fram á að með þeim þurfti ekki að grípa til hækkunar á tryggingagjaldi. Þá sýndu útreikningarnir fram á að tillögurnar hefðu getað mætt þeirri hækkun sem nú er verið að leggja á til þess að mæta lækkuninni á ferðaþjónustu og hugbúnaðariðnaði án þess að íþyngja ríkissjóði ef miðað var við aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Auk þess hefðu verðlagsáhrifin verið hagstæðari.``
    Eins og ég nefndi hér fyrr þá rita undir þetta nefndarmennirnir Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Halldór Ásgrímsson og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Nú er það að nefna, virðulegi forseti, að fyrir jólin 1992 og 1993 urðu miklar umræður hér um skattamál og allt það hringl sem við upplifðum bæði árin í skattastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem menn voru m.a. að leika sér með tryggingagjaldið. Ef ég man rétt þá var samið um tryggingagjaldið í kjarasamningum sl. sumar en síðan hafa menn nú verið að breyta þeim niðurstöðum nokkuð.
    Það er auðvitað ástæða til að fagna því að þessi skattlagning á ferðaþjónustuna skuli vera samræmd og lækkuð vegna þess að eins og við vitum þá er ferðaþjónusta einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og í rauninni voru það makalausar tillögur sem hér voru samþykktar á sínum tíma um það að setja 14% virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Sem betur fer tókst að stöðva þau áform og ég þakka það bæði mikilli andspyrnu út í þjóðfélaginu og einnig því andófi sem var hér innan þings. Það tókst að breyta þessum áformum.
    Þegar til stóð að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna þá átti á móti að lækka tryggingagjaldið til að vega upp á móti þessari skattlagningu, sem reyndar hefði nú ekki náð því og hefði auðvitað komið allt öðruvísi út. En hér er ríkisstjórnin sem betur fer að horfast í augu við staðreyndir og þá nauðsyn að bæta stöðu ferðaþjónustunnar, gefa henni aukin sóknarfæri, því eins og segir hér í athugasemdum við frv. sjálft, með leyfi forseta: ,,Lækkun tryggingagjaldsins nú bætir því rekstrarskilyrði þessara greina`` þ.e. ferðaþjónustunnar og hugbúnaðariðnaðarins. Og það er rétt að ítreka það að það er hið besta mál að taka hugbúnaðariðnaðinn inn í þessa lækkun hér, en um leið er jafnframt verið að hækka tryggingagjaldið á þær greinar sem falla undir þennan flokk. Og við hljótum auðvitað að spyrja okkur hvernig atvinnulífið almennt er reiðubúið til að mæta þessari hækkun.
    Eins og hér kom fram vorum við sem stöndum að þessu nál. með aðrar áherslur í skattamálum og aðrar tillögur, vildum fara aðra leið í þeim miklu breytingum sem þá áttu sér stað og við verðum auðvitað að vera samkvæm sjálfum okkur og bendum á það að þá voru nefndar leiðir til tekjuöflunar. Í stað þess að vera að hækka tryggingagjaldið á ýmsar atvinnugreinar þá vildum við fara aðrar leiðir sem ég ætla nú ekki að fara að rifja upp hér eða rekja. Ég ætla ekki að fara að tefja þessa umræðu, en í rauninni er málið það að atvinnulífið er á engan hátt í stakk búið til þess að taka við auknum álögum, þ.e. þegar maður horfir á greinarnar í heild þó að einstök fyrirtæki séu reyndar þessa dagana að skila miklum hagnaði og ættu auðvitað að greiða hluta af því til okkar sameiginlegu þjóðfélagslegu þjónustu.