Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:39:42 (6897)


[11:39]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Agli Jónssyni að það er að sjálfsögðu ekki þægilegt fyrir bændur eða aðra að fá á sig hækkun á þessu gjaldi úr 2,85% upp í 3%. Við höfum byggt upp þetta tryggingagjaldskerfi og það var á sínum tíma hugsað til samræmingar á ýmsum gjöldum sem var steypt saman í eitt gjald og kallað tryggingagjald og hugsað í því samhengi að það væri skattstofn og tekjur af honum notaðar til þess að standa undir m.a. atvinnuleysistryggingum. Ég get alveg tekið undir að það ætti í rauninni að endurskoða þetta gjald og gera það í samhengi við atvinnuleysistryggingarnar þannig að þeir aðilar sem af einhverjum ástæðum geta ekki verið inni í því kerfi með eðlilegum hætti þurfi ekki að borga þetta tryggingagjald. Það á bæði við um landbúnaðinn og það á í rauninni við um alla sjálfstæða atvinnurekendur því að það er mjög erfitt að koma þeim inn undir atvinnuleysistryggingarformið eins og það er í dag.