Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:45:31 (6902)


[11:45]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þau réttindi sem landbúnaðinum hafa verið ætluð í þessum efnum og hæstv. fjmrh. er nú að koma á framfæri með því frv. til laga um breytingar á tryggingagjaldi sem hér er verið að ræða tóku mið af hækkun á tryggingagjaldinu eins og það var ákveðið árið 1990, þ.e. þau réttindi sem aldrei hafa orðið að neinum veruleika. Og afstaða mín til þessarar hækkunar árið 1990, og það hygg ég að hafi verið með marga fleiri þingmenn, tók mið af því að þarna áttu að fylgja réttindi þó að það kunni að vera rétt að frá þeim hafi verið gengið eitthvað síðar. En það breytir engu um það að hér eru komin viðbrögð við þeim ákvörðunum sem hafa verið tekin um þessi mál og viðbrögðin eru þau að það á að hækka tryggingagjaldið án þess að gera nokkrar ráðstafanir til þess að þeir sem greiða geti notið þess, þ.e. landbúnaðurinn. Það er auðvitað aðalatriði þessa máls að það er verið hækka tryggingagjaldið þrátt fyrir að það liggi fyrir að full brigð hafa verið á þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar um að landbúnaðurinn gæti notið atvinnuleysisbóta eftir þá hækkun sem varð á tryggingagjaldinu árið 1990. Þetta er mergur málsins.