Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:48:49 (6904)


[11:48]
     Egill Jónsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég er þakklátur hæstv. fjmrh. fyrir þau orð sem hann lét falla í andsvari. Fyrir mér er það ekkert sérstakt efni hvernig sagan hefur gerst í þessu máli heldur staðfesting hans á því að þessi réttindi liggja fyrir. Og alveg burt séð frá því hvernig þau kunna að vera til komin, sem ég hef mínar meiningar um og er vel hægt að fletta upp, þá er ekki um efndir að ræða. Þess vegna standa engin efni til þess að hækka þetta tryggingagjald núna til þess að færa það til stuðnings við aðra atvinnuvegi því að þó að þeir séu kannski illa komnir, eins og ferðamannaþjónustan, þá er landbúnaðurinn enn þá verr kominn. Ég veit ekki hver getur verið þess umkominn að kveða upp þá dóma að það sé hægt að taka fjármuni af bændum landsins og færa þá yfir í aðrar atvinnugreinar, væntanlega á grundvelli þess að þar sé um auðugan garð að gresja. Slíkar áréttingar eru rangar og ég mótmæli þeim.