Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 12:17:02 (6908)


[12:17]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram að tryggingagjaldið rennur til ákveðinna þarfa og oft eru þessar útgjaldaþarfir til komnar vegna samninga á milli aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna er afar nauðsynlegt að þessum stofni sé til skila haldið þannig að ekki skerðist heildartekjur tryggingagjaldsins. Ég er sammála formanni Alþb., fyrrv. fjmrh., um það að það sé rétt að vinna að því að samræma þetta gjald. Þannig var gengið frá frv. í upphafi. Ég tel þess vegna afar eðlilegt og lógískt að ef einhver hópur fyrirtækja fer úr efri flokknum í þann neðri, þá hækki gjaldið á neðri hópnum því að markmiðið hlýtur að vera það að samræma gjaldið áður en yfir lýkur.
    Vegna réttinda sjálfstætt starfandi skal það tekið fram að það eru viðræður á milli ráðuneytanna og ég á von á því að á næstunni verði hægt að gefa út reglugerð af hálfu félmrn. Eitt af því sem auðvitað hefur verið rætt, þótt ég eigi ekki von á því að það verði niðurstaðan, er að kippa sumum þeirra út úr kerfinu þannig að þeir séu ekki að borga inn í almenna sjóðinn og fá lítil réttindi. Það mætti líka hugsa sér að hafa þá í sérsjóði, en ég vil geta þess að 0,15% hækkun t.d. á bændum þýðir um það bil 100 kr. á mánuði frá hverju býli að meðaltali eða um það bil.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram og það má ekki rugla aðstöðugjaldinu inn í þessa umræðu. Þar erum við með fjóra milljarða í húfi, eitthvað þar um bil, en í þessu frv. er verið að ræða um peninga sem eru jafnvel innan við 100 milljónir. Svo það er verið að bera saman títuprjónshaus og fótbolta þegar menn

ræða þetta í sama orðinu.