Endurbætur á Þjóðminjasafni

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:08:54 (6911)

[15:08]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 798 leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurninga varðandi endurbætur á Þjóðminjasafninu:
  ,,1. Hversu miklu fé hefur verið varið til endurbóta á Þjóðminjasafninu frá því að viðgerð þess hófst og hvað hefur verið gert?
    2. Hvaða skýring er á því að samningnum var rift við þær arkitekta- og verkfræðistofur sem undirbjuggu áætlanir um viðgerðir á Þjóðminjasafninu og önnuðust þær?
    3. Hvað hafði arkitekta- og verkfræðistofunum verið greitt mikið fé áður en samningum var rift og hvað hafa þær fengið miklar skaðabætur hvor um sig?
    4. Eftir hvaða áætlun er nú unnið að viðgerðum við Þjóðminjasafnið og hvaða aðilar hafa verið ráðnir til að annast þær í stað þeirra sem samningum var rift við?``
    Eins og kemur fram í þessum spurningum, virðulegi forseti, þá bar það til tíðinda við viðgerðirnar á Þjóðminjasafninu að af einhverjum ástæðum var ákveðið að rifta þar samningum sem leiddu til þess að greiða þurfti skaðabætur. Það vakna auðvitað spurningar hvað hefur verið þarna á ferð, hvað hefur verið að gerast þarna innan veggja. En það má ljóst vera að þegar stofnun eins og Þjóðminjasafnið, sem hefur takmarkað fé til umráða, fer út í það að rifta samningum þá tefur það auðvitað bæði framkvæmdir og eins fara peningar forgörðum.
    Fyrir Alþingi liggur og er til vinnslu í hv. menntmn. frv. til laga um breytingar á þjóðminjalögum sem gera ráð fyrir töluverðum skipulagsbreytingum. Ef það verður samþykkt á þessu vori þá koma þar væntanlega aftur nýir aðilar að þessum viðgerðum, en það hlýtur að vera augljóst hversu mikilvægt það er að samfella sé í vinnunni við þetta mál. Húsið er afar illa farið eins og menn vita og það liggur ljóst fyrir að það þarf að verja gífurlegum fjárhæðum í að gera við húsið því það hefur því miður verið látið drabbast niður um árabil. Því er afar mikilvægt að þarna verði vel að verki staðið, ekki síst í ljósi þess líka að það eru uppi hugmyndir um einhvers konar viðbyggingu eða tengibyggingu við Þjóðminjasafnið. Þar af leiðandi skiptir mjög miklu máli hvernig staðið er að verki og að að þessu komi færustu arkitektar og verkfræðingar og þeir sem hafa reynslu af söfnum á borð við Þjóðminjasafnið eða þeir sem gera sér grein fyrir því hvers konar starfsemi fer fram innan Þjóðminjasafnsins. Ég bíð spennt eftir því að heyra svör menntmrh.