Endurbætur á Þjóðminjasafni

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:17:14 (6913)


[15:17]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Það kom mjög greinilega fram í hans inngangi og hans svörum hversu mikil hreyfing hefur verið á þessum málum og nýjar og nýjar nefndir skipaðar til þess að vinna nýjar og nýjar áætlanir og gera nýjar tillögur um það hvernig að málum skuli staðið. Ekki skal ég gera lítið úr því að það er mjög flókið mál að byggja upp að nýju eða gera við byggingu eins og Þjóðminjasafnið, en ástæða þeirra fyrirspurna sem ég hef lagt fram er einmitt sú að mér bárust fregnir af því að þarna hefði verið staðið eitthvað sérkennilega að verki. Þó að hæstv. menntmrh. fallist ekki á það að samningum hafi verið rift, og ég skal ekki draga í efa að það hefur sennilega ekki verið um bindandi samninga að ræða, þá hefur samt sem áður þurft að greiða bæði verkfræðingum og arkitektum upp í verk sem þeir ætluðu að vinna og verk sem þeir hugðu að væru fram undan á þeirra stofum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk voru greiddar þarna í öðru tilvikinu 3 millj. kr. sérstaklega vegna þessara breytinga sem þarna áttu sér stað. Ég talaði við arkitekta sem að þessum málum standa og síðast þegar ég vissi var sú arkitektastofa sem tók við af Hjörleifi Stefánssyni í einhvers konar samningamálum við Þjóðminjasafnið til að fá greitt fyrir það tap sem þeir töldu sig verða fyrir vegna breytinga á fyrirkomulagi. En ég dreg ekki í efa að menntmrh. fari þar rétt með að þar hafi ekki verið um bindandi samninga að ræða. En þetta er nokkuð sérkennilegt og eins og kom hér fram hefur verið margbreytt um nefndir og eflaust mismunandi skoðanir á því hvernig að verki skuli staðið. Tíminn verður auðvitað að

leiða í ljós hvort þarna hefur verið rétt að verki staðið.