Þjónusta Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta og heyrnarlausa

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:22:20 (6915)


[15:22]
     Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Lögum samkvæmt hvílir sú skylda á Ríkisútvarpinu að ná með útsendingum sínum til landsmanna allra. Stofnunin hefur leitast við að uppfylla þessa lagaskyldur sínar í landfræðilegum skilningi og hefur náð umtalsverðum árangri.
    Til er sá hópur Íslendinga sem sjónvarpssendingar Ríkisútvarpsins ná ekki til nema að mjög takmörkuðu leyti. Þessi hópur, heyrnarlausir, eru þó þeim mun háðari þeim upplýsingum og því efni sem í sjónvarpi er flutt þar sem fötlun þeirra meinar þeim aðgang að hljóðvarpi með öllu. Fötlun heyrnarlausra er sérstæð að því leyti að hún er ósýnileg. Það er eflaust m.a. af þeim sökum sem okkur hættir til að vanmeta aðstæður þessa hóps. Aðgangur að upplýsingum er meðal undirstöðuatriða nútímasamfélaga sem stæra sig af auknu, aðgengilegu og ódýru upplýsingaflæði. Sjónvarp er orðinn einn af höfuðmiðlum upplýsinga og gegnir sívaxandi hlutverki sem uppeldisstofnun. Það verður því að skoðast sem alvarlegt umhugsunarefni ef töluverður hópur Íslendinga á afar takmarkaðan aðgang að þeim miðli sem löggjafinn hefur lagt á þær skyldur að hann skuli ná til allra landsmanna.
    Virðulegi forseti. Þótt fötlun heyrnarlausra sé með þeim hætti að seint muni okkur takast að bjóða þeim sömu þjónustu og öðrum er hér í dag vakin athygli þingsins og ríkisstjórnar á málefnum þessa hóps með því að beina til hæstv. menntmrh. eftirfarandi fjórum spurningum sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Hve margir eru þeir Íslendingar sem ekki eru taldir geta nýtt sér þjónustu Ríkisútvarpsins vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar?
    2. Á hvern hátt hefur Ríkisútvarpið reynt að koma til móts við þennan hóp?
    3. Hefur verið dregið úr þjónustu Ríkisútvarpsins við heyrnarlausa?
    4. Er áformað að auka þjónustu Ríkisútvarpsins við heyrnarlausa?``