Þjónusta Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta og heyrnarlausa

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:27:59 (6917)


[15:27]
     Svavar Gestsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil satt að segja vísa á bug þeirri aðferð sem fram kom í lok ræðu hæstv. menntmrh., að vísa þessu máli á heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld, þ.e. túlkaþjónustunni almennt. Það gengur alls ekki.
    Ég vek athygli á því að það eru stödd á pöllunum hjá okkur í dag í fyrsta sinn í sögu Alþingis einstaklingar sem eru að túlka fyrir heyrnarlausa, flytja táknmál heyrnarlausra hér í þessum sal, íslenska táknmálið, sem er í raun og veru mál þessara einstaklinga. Hér þarf að taka ákvörðun um það að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál þessa fólks þannig að það njóti fullra réttinda hér á Íslandi eins og aðrir einstaklingar. Það er ekki hægt að leggja þetta tungumál að jöfnu við önnur tungumál sem eru gerðar kröfur um túlkun á, hér er um allt annan þátt að ræða, hluta af íslensku þjóðlífi sem væri ástæða til að ræða nánar hér en ekki er kostur á vegna þess að tíminn er búinn. (Forseti hringir.)
    Ég þakka hv. þm. Tómasi Inga Olrich fyrir að hreyfa þessu máli. Ég tel að í málefnum heyrnarlausra séu að gerast stórkostleg tíðindi á Íslandi og það þarf að halda því verki áfram, m.a. með því að tryggja að táknmálið íslenska verði viðurkennt sem móðurmál þessa fólks, sem hluti af íslenskum menningarveruleika.