Þjónusta Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta og heyrnarlausa

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:29:35 (6918)



[15:29]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að skoða vel hvernig þróa má sem besta þjónustu Ríkisútvarpsins í framtíðinni við heyrnarskerta og heyrnarlausa og að við dagskrárgerð og stefnumótun verði ávallt haft í huga hvernig hagsmunum þessa hóps verði gerð sem best skil. Það eru t.d. sjálfsögð mannréttindi að heyrnarskertir eða heyrnarlausir fái notið sem bestrar fréttaþjónustu í sjónvarpi og það á eðlilegum tíma, þ.e. á þeim tíma sem ætla má að fólk sé komið heim úr vinnu. Sömuleiðis tel ég rétt að skoða stöðugt hvernig sú tækni og þau tækifæri sem textavarpið gefur gagnist þessum hópi hvað best. Í dag tel ég að sú tímasetning sem hefur verið valin fyrir fréttir í sjónvarpi fyrir heyrnarlausa sé tæpast sá tími sem henti þeim best og ég tel að það megi endurskoða það mál.