Þjónusta Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta og heyrnarlausa

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:30:52 (6919)


[15:30]
     Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér. Í sambandi við svar hans við þriðju spurningu minni, hvort dregið hefði verið úr þjónustu við heyrnarlausa, þá vil ég taka fram að sá breytti tími á þjónustu við heyrnarlausa með táknmáli getur tæplega talist viðunandi og er nauðsynlegt að taka á því máli sérstaklega.
    Textavarpstæknin gefur vissulega möguleika á því að koma mjög verulega til móts við heyrnarlausa og heyrnarskerta en það er það að sjálfsögðu, að því tilskildu þó, að þessi tækni sé aðgengileg fyrir þennan hóp, en það hefur komið í ljós við athuganir að mjög fáir af heyrnarlausum ráða yfir tækjum sem nýtanleg eru til þess að notfæra sér þessa nýju tækni og erindum um niðurfellingu á gjöldum á tækjum af þessari tegund hefur verið hafnað á þeim grundvelli að lagafyrirmæli hindri að það sé hægt að koma til móts við það.
    Það eru því enn sem komið er því miður allmargir annmarkar á því að heyrnarlausir og heyrnarskertir geti nýtt sér þessa tækni, sem er góð og nýtanleg til þess að bæta stöðu þeirra, en kemur ekki að gagni nema komið sé til móts við þennan hóp að því er varðar kaup á þessum tækjum.
    Að öðru leyti tel ég að það komi allmörg atriði til álita, ef við lítum til þess sem nú brennur mest á heyrnarlausum, þá sé hægt að gera margt til þess að koma til móts við óskir þeirra án þess að til verulegs kostnaðar leiði. Ég nefni alveg sérstaklega, fyrst þetta tækifæri gefst hér í lok ræðu minnar, fréttir af hættuástandi. Það er að sjálfsögðu alveg óviðunandi að heyrnarlausir skuli ekki geta fengið viðbrögð og fréttir af hættuástandi án þess að það sé textað.