Þjónusta Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta og heyrnarlausa

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:33:27 (6920)


[15:33]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Svavari Gestssyni féllu ekki þau lokaorð mín að það kynni að ráðast af því hvort heilbrigðis- eða félagsmálayfirvöld tækju að sér að greiða þann kostnað sem af þessari sérstöku þjónustu leiðir. Sem fyrrv. menntmrh. þekkir hv. þm. Svavar Gestsson mætavel að það er ýmislegt lagt á Ríkisútvarpið sem er ákveðið af öðrum eins og t.d. niðurfelling afnotagjalda til fjölmargra aðila sem veldur tekjutapi hjá Ríkisútvarpinu upp á tugi milljóna króna. Það er einfaldlega þetta sem Ríkisútvarpið er að láta í ljós þegar það nefnir í sínum upplýsingum til mín að það kunni að ráðast af því hvort aðrir aðilar greiði að hluta til þessa þjónustu.
    Ég vil svo aðeins í lokin taka undir með þeim sem leggja áherslu á sem besta þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta og ég trúi því að um það geti þingheimur allur sameinast.